fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Segir stuðningsmenn hans ekki þora að koma fram undir nafni – „Það þarf að standa vörð um málfrelsið“

Fókus
Mánudaginn 21. ágúst 2023 10:29

Arnar Þór Jónsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnar Þór Jónsson, hæstaréttarlögmaður og varaþingmaður, segir ráðandi öfl á Íslandi vilja skerða málfrelsi og stoppa gagnrýni. Arnar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar  segir stjórnvöld jafnfram komin á varasama braut með að láta alþjóðlegt vald ganga framar íslenskum lögum.

„Þegar kemur að ólýðræðislegum vinnubrögðum stjórnvalda er mér ofarlega í huga þessi aðgerðaráætlun forsætisráðherra gegn hatursorðræðu. Það þarf að standa vörð um málfrelsið og það að stýra tjáningu fólks úr frá hugmyndafræði stjórnvalda erum við komin á vafasama braut. Sagan segir okkur að svona lagað endar í því að ráðandi öfl fara smám saman að banna alla gagnrýni. Það að klæða skerðingu málfrelsis í búning fallegs málstaðar er það sem er alltaf gert þegar stjórnvöld byrja að taka frelsi af fólki. Það eiga allar viðbörunarbjöllur að hringja þegar þeir sem ráða byrja á vegferð eins og þessarri,“ segir Arnar og heldur áfram:

„Annað er svo svokölluð bókun 35, sem gengur út á að Alþingi eigi að samþykkja að lög sem koma erlendis frá gangi framar lögum Alþingis ef þetta tvennt rekst á. Það er verulega vafasöm vegferð og það þarf almenna vakningu í landinu til að fólk átti sig á alvarleika málsins. Við eigum að fá að ráða okkar framtíð sjálf, en ekki að meginreglan verði sú að lög frá Brussel gangi framar íslenskum lögum. Ég trúi því einlæglega að meirihluti Íslendinga sé þeirrar skoðunar, en fólk áttar sig ekki endilega á því hvað er að gerast.“

Óhræddur við að fara gegn flokkslínunni

Arnar hefur ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum, enda verið óhræddur við að fara ítrekað gegn flokkslínunni. Hann segir mikið frelsi fylgja því að þora að vera samkvæmur sjálfum sér og tjá sig út frá eigin sannfæringu:

„Þó að ég sé varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn er mér ekki lengur mikið hleypt að borðinu. Almennt er ekki mikil stemmning fyrir fólki sem vill rugga bátnum. Ég er ekki viss um að mér verði nokkurn tíma hleypt að aftur, en það er líka allt í lagi. Ég sé hindranir sem stökkpall og veit nákvæmlega hvaða vegferð ég er á, sem er að vera samkvæmur sjálfum mér. Spurning mín til Sjálfstæðismanna er hvort að flokkurinn þoli að kjarnafylgið fari frá honum. Á tímum þar sem rétttrúnaðurinn tröllríður öllu er frelsið á undanhaldi og ég held að alvöru Sjálfstæðisfólk verði að finna sér annan stað ef flokkurinn ætlar að stoppa umræðu. Við tölum mikið um að fagna fjölbreytileikanum, sem er frábært. En fjölbreytileikinn hlýtur að þýða að allir megi tjá sinn sannleika og við raunverulega viljum fjölbreytileika og fjölbreyttar skoðanir,“ segir Arnar og heldur áfram:

„Það ger­ast ein­hverj­ir töfr­ar þegar maður fer í þá veg­ferð að feta sína eig­in braut og þora að vera trúr sjálf­um sér. Þegar maður sleppir örygginu og eltir hlutverk sitt gerast fallegir hlutir. Það verður líka til annars konar tenging við fólk af því að gríman fellur. Ég hef fengið mjög mikið af þögl­um stuðningi fyrir að þora að tjá skoðanir sem fæst­ir þora að tjá op­in­ber­lega. Ég hef ekki tölu á stuðnings­skila­boðum frá fólki sem er sam­mála mér, en segist ekki vilja tjá sömu skoðanir opinberlega. Þegar ég lít til baka vil ég geta sagt með hönd á hjarta: „Ég gaf allt í þetta!“. Ef það þýðir að ég verð sviptur einhverju eða verð óvinsæll, þá tek ég því.“

Segir hjarðhegðun ráða ríkjum

Arnar segir hjarðhegðun mjög oft ráða ríkjum hjá fólki og sagan sýni okkur hvernig stjórnvöld og önnur ráðandi öfl nýti sér það. Við séum komin á mjög undarlegan stað í réttrúnaði sem hafi farið sem bylgja um Vesturlönd á undanförnum árum:

„Pældu í því hvert við erum komin þegar þrettán ára nemendur eru ávíttir og verða fyrir aðkasti af því að þeir vilja ekki gangast við því að samnemandi þeirra sé köttur! Þetta er raunverulegt dæmi frá Bretlandi sem varð að fjölmiðlamáli þar. Kennararnir þora ekki öðru en að ávarpa nemendur sem ketti af ótta við að missa vinnuna. Ef maður samþykkir það ekki að viðkomandi skilgreini sig sem kött og ávarpi sem slíkan er maður þröngsýn og vond manneskja sem kann ekki að aðlaga sig að breyttum veruleika. Þetta væri brandari ef þetta væri ekki svona sorglegt. Þetta er hugmyndafræði sem krefur fólk um að afneita sannleikanum eða annars vera fordómafullt og vont fólk. Það dynur á okkur alla daga áróður þar sem er í raun verið að krefja okkur um að afneita dómgreind okkar og afneita því sem við vitum að er satt og rétt.“

Arnar segir að réttrúnaður samtímans sé á ákveðinn hátt eins og kirkjan var í gamla daga:

„Við höfum í gegnum tíðina verið mjög skilyrt af kristn­um siðaboðskap, sem væri kannski allt í góðu eitt og sér. En þegar það er búið að taka guð, fyr­ir­gefn­ing­una, alla mildi og náð út erum við komin á furðulegan stað. Í rétt­trúnaðar­kirkju sam­tím­ans erum við með sömu hluti og hafa fylgt kirkj­unni í gegn­um tíðina. Við erum með kredd­una, æðstu prest­ana, rann­sókn­ar­rétt, ákæru­vald, dóma og fólk er meira að segja pínt til að setja í skrift­ar­stól­inn og iðrast. Semsagt öll stofnanaum­gjörðin er til staðar, en sál­in er horf­in, af því að það vant­ar guð, mildi og fyr­ir­gefn­ingu. Við verðum að spyrja okk­ur hvort þetta sé það sem við raun­veru­lega vilj­um.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Arnar og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“