Leikkonan Sofía Vergara hefur loksins svarað beiðni eiginmanns hennar, leikarans Joe Manganiello, um skilnað. DV greindi frá því fyrir tveimur vikum að hann hefði sótt um skilnað, en hjónin hafa verið gift í átta ár.
Sjá einnig: Eitt heitasta par Hollywood tilkynnir um óvæntan hjónaskilnað
Samkvæmt frétt PageSix lagði Vergara sín gögn í málinu fram á mánudag og segir þar að „óásættanlegur ágreiningur“ sé ástæða skilnaðarins, sem er klassískt orðalag við skilnaði í Hollywood. Fer hún fram á að kaupmáli þeirra fyrir hjónaband verði virtur, og líkt og Manganiello fer hún fram á að framfærslulífeyrir verði ákvarðaður í samræmi við ákvæði kaupmálans, en kaupmálinn verður ekki gerður opinber.
Vergara fer fram á að „ýmsir skartgripir, listaverk og aðrir persónulegir munir,“ sem og allar tekjur sem hún aflaði fyrir, á meðan og eftir daginn sem skilnaðar var óskað, muni tilheyra henni. Sameiginlegum eignum þeirra hjóna verður skipt í samræmi við kaupmálann og hafa hjónin bæði samþykkt að hvort um sig greiði eigin lögmannsþóknun.
„Við höfum tekið þá erfiðu ákvörðun að skilja. Sem tveir einstaklingar sem elska og þykir mjög vænt um hvort annað, biðjum við vinsamlega um að virðing sé borin fyrir friðhelgi einkalífs okkar á þessum tíma þegar við tökumst á við næsta kafla í lífi okkar.“
Manganiello lagði fram kröfu um skilnað á sama tíma og Vergara var í fríi á Ítalíu, þar sem hún hélt meðal annars upp á 51 árs afmæli sitt. PageSix hefur það eftir heimildarmanni að Vergara njóti sín vel.
„Sofía lifir sínu besta lífi. Hún ver tíma með vinum sínum eftir að hafa verið í sambandi með maka sem styður hana lítið. Sofía var alltaf til staðar til að hugsa um Joe og það þrátt fyrir að ferill hans hafi dalað frá því þau hittust fyrst. Ég held að honum hafi staðið ógn af velgengni hennar og lífsgleði.“
Annar heimildarmaður sagði Manganiello leiðan yfir stöðu mála, sem væri þó rétta leiðin, því hann er staðráðinn í að eignast eigin börn, orðinn 46 ára gamall. Vergara á soninn Manolo, sem er 31 árs, með fyrrverandi eiginmanni sínum, Joe Gonzalez.