Skilnaðarskandall ársins er hugsanlega í uppsiglingu en svo virðist sem Britney Spears og Sam Asghari muni ekki skilja í góðu. Fjölmiðlar vestanhafs greina frá meintri fjárkúgun Sam og ásökunum hans um meint framhjáhald poppstjörnunnar.
Í gær bárust fregnir vestanhafs um að Sam Asghari hafi sótt um skilnað frá Britney. Hann sagði ástæðuna vera „óleysanlegan ágreining“.
Page Six greinir frá því að Sam vilji að Britney borgi honum hærra meðlag heldur en kaupmáli þeirra segir til um og sé að hóta að afhjúpa leyndarmál hennar ef hún verði ekki við ósk hans.
Heimildarmaður Page Six sagði í samtali við miðilinn að Sam sé að „reyna að semja um hærra meðlag og sé að hóta að opinbera virkilega vandræðalegar upplýsingar um Britney nema hann fái borgað.“
Það er óljóst hversu háa upphæð Sam vill eða hvers konar upplýsingar hann er að hóta að afhjúpa.
Annar heimildarmaður segir að teymi Britney sé að passa vel upp á söngkonuna og að „skilnaðurinn mun fara kurteisislega fram.“
„Þetta er fjárkúgun og mun aldrei gerast,“ sagði hann.
Britney og Sam gengu í það heilaga í júní 2022. Þau skrifuðu undir kaupmála og var greint frá því á sínum tíma að kaupmálinn hafi verið Britney í hag. Það sem hún hafði þénað fyrir brúðkaupið myndi vera hennar og Sam ætti ekki að geta snert þann pening, að sögn heimildarmannsins.
Samkvæmt heimildarmanni TMZ á Sam að hafa sótt um skilnað vegna meints framhjáhalds Britney.
Hvorki Britney né Sam hafa tjáð sig um málið. Britney birti færslu á samfélagsmiðlum í gær en nefndi ekki hjónaskilnaðinn, hún sagðist vera að hugsa um að kaupa sér hest en ætti erfitt með að velja milli tveggja hesta.