Áður en Inga Sæland, alþingismaður og formaður Flokks fólksins, lagði fyrir sig stjórnmálin spreytti hún sig um tíma á sönglistinni m.a. með þátttöku í sjónvarpsþáttunum X-Factor á Stöð 2.
Undanfarið hefur hún endunýjað kynnin við að syngja opinberlega. Fyrr í sumar söng hún eitt af þekktustu lögum söngkonunnar Tina Turner, Simply the Best, þegar hún var gestur í þætti á Rás 2.
Um liðna helgi steig hún mun stærra skref og flutti lagið, ásamt m.a. Sigurði Flosasyni saxófónleikara, á tónleikum á Fiskideginum mikla á Dalvík. Var Inga þar í fríðum hópi ýmissa tónlistarmanna sem fluttu alls kyns tónlist.
RÚV greinir frá því að góður rómur hafi verið gerður að flutningi Ingu og hefur eftir Júlíusi Júlíussyni, framkvæmdastjóra Fiskidagsins:
„Já, hún tók Tinu Tuner og gjörsamlega rústaði því.“
Inga er sjálf ansi sátt við eigin frammistöðu og þakkar á Facebook síðu sinni fyrir ógleymanlegt ævintýri. Hún þakkar einnig Rúrik Gíslasyni, fyrrverandi landsliðsmanni í knattspyrnu, fyrir samveruna og frábær kynni. Rúrik söng einnig á tónleikunum en hann flutti lagið Þig dreymir kannski engil, eftir Björgvin Halldórsson.
Inga deilir á síðu sinni myndbandi af flutningnum sem Kristinn Magnússon birti upphaflega á sinni Facebook síðu. Færslu Ingu með myndbandinu má sjá hér fyrir neðan: