fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Blóðug saga trukkabílstjórans sem sagði sig tala við guð

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 9. júlí 2023 22:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lífið var mörgum afar erfitt í miðvesturríkjum Bandaríkjanna á níunda áratug síðust aldar. Fjöldi bænda neyddist til að bregða búi og atvinnuleysi, gjaldþrot og fátækt átti sér engan líka frá Kreppunni miklu. Örvænting rak suma til að leita sér huggunar í trú, aðra til að stunda glæpastarfsemi og enn aðrir leituðu að blóraböggli.

Michael Ryan gerði allt þrennt, með skelfilegum afleiðingum. 

Predikari hatursins

Ryan var fæddur árið 1948. Hann datt snemma úr námi og vann sem vörubílstjóri þar til bakmeiðsli urðu til þess að hann missti vinnuna og sá enga leið að framfæra Ruth, konu sinni, og þremur börnum. Tók hann til þess ráðs að leggja leið sína á samkomur hjá manni að nafni James Wickstrom, stofnanda Posse Cometatus safnaðains, sem er með sterk tengsl Christian Identity hreyfinguna. Sú ku enn vera nokkuð áhrifamikil á sumum svæðum innan hins svokallaða Biblíubeltis Bandaríkjanna. Wicstrom hafði séð sér  leik á borði og flutt til Nebraska, þar sem efnahagsástandið var sem verst, og predikaði þar af miklum móð um yfirburði hvíta kynstofnsins sem beinna afkomenda spámanna Biblíunnar. Reyndar fór stærstur hluti ræðuhaldanna í að predika hatur á öllu og öllum milli himins og jarðar. Yfirvöldum, sköttum, gyðingum, öðrum kynþáttum, samkynhneigðum, og innflytjendum svo fátt eitt sé nefnt og hvatti hann fylgismenn sína óspart til ofbeldis og morða á ofangreindum hópum.

Lærifaðir Ryan, James Wickstrom

Allir heimsins erfiðleikur væru nefnilega þeim um að kenna. 

Ryan, sem ku aldrei hafa verið trúhneigður fyrr, gerðist hægri hönd og  trúnaðarvinur Wickstrom sem kenndi honum ,,handleggsprófið” sem átti eftir að spila stóran þátt í atburðunum sem síðar urðu. Handleggsprófið gekk út á að láta meðlim rétta út handlegginn um 90 gráður. Ryan lagði síðan vinstri hönd á hægri öxl meðlimarins og þá hægri um úlnlið hans. Síðan var meðlimurinn spurður spurningar og ef guð vildi heyra ,,nei” myndi handleggurinn falla niður en haldast uppi ef svarið átti að vera ,,já”.

Aftur á móti hefur sá sem haldið hefur algjöra stjórn á handlegg viðkomandi og getur auðveldlega látið hendina falla eða haldast uppi með réttum þrýstingi til að ná fram æskilegu svari. 

Lóðrétt til andskotans

Ekki leið á löngu þar til Ryan gaf út að hann væri í beinu talsambandi við guð eða Yahweh en þrátt fyrir botnlaust hatur á gyðingum notaði Ryan ávallt hebreska orðið yfir guð. Auk þess kvaðst hann búa yfir anda Mikaels erkiengils, sá hinum sama og mun stjórna her drottins gegn skrattanum og hans púkum þegar heimsendir skellur á, samkvæmt Opinberunarbók Biblíunar. Hann hóf að kalla sig ,,Konunginn”, sagðist hafa fengið nýjar fyrirskipanir að ofan og skipaði fylgismönnum sínum að stela búfénaði, bílum, tækjabúnaði, byggingarefni og hverju öðru sem unnt væri, ellegar fara lóðrétt til andskotans.

Smám saman aflaði Ryan sér saman litlum dyggra fylgjenda sem trúðu í blindni á Ryan sem talsmann æðri máttarvalda og einu vonarinnar til vistar í himnaríki þegar yfirvofandi dómsdagur kæmi . Þeir fyrstu voru Jim Haverkamp, John Andreas og James Thimm, allt ungir menn í blóma lífsins. 

Allir átti þeir eftir að spila sögu í atburðum næstu mánaða. 

Örvænting og hótanir

Á einum af samkomum Wickstrom hitt Ryan hjónin Rick og Sondra Stikes sem áttu 80 ekru svínabú við smábæinn Rulo. Sondra var afar veik af Hodgins sjúkdómi og án sjúkratrygginga höfðu þau flakkað á milli heilara og predikara í örvæntingarfullri leit að lækningu. Það var á samkomu hjá Wicstrom þar sem þau kynntust Ryan og bættust í hóp áhangenda hans sem hittust í ,,Biblíutímum” á laugardögum. Biblíutímarnir fóru að að mestu leiti í túlkanir Ryan á biblíunni, skilaboð hans frá Yahweh og kannabisneyslu.

Býlið þar sem söfnuðurinn bjó

Meðlimirnir flökkuðu um Kansas, Missouri og Nebraska og stálu öllu steini léttara en ágóðann notaði leiðtoginn meðal annars til gríðarmikilla vopnakaupa til undirbúnings dómsdegi. Þegar þarna er komið við sögu höfðu systur Jim Haverkamp, Cheryl og Lisa, bróðir hans Timothy og móðir hans Maxine Haverkamp, bæst í laugardagshittingana. Eftir einn biblíutímann í ársbyrjun 1984 dró Michael Cheryl til hliðar og tjáði henni að ef hún yfirgæfi ekki eiginmann sinn og flytti til hans myndu þau öll deyja hryllilegum dauðdaga í slysi. Yahweh hafði sagt honum það. Cheryl varð skelfingu lostin og flutti með fimm börn sín inn á Michael, Ruth og þrjú börn þeirra. Og þar sem Yahweh hafði bætt því við í einu af samtölum sínum við Ryan að honum bæri skylda til fjölkvænis ,,giftist” hann Cheryl þá um vorið. 

Lester, eiginmaður Cheryl, fékk mikið áfall þegar þegar hann kom heim einn daginn og sá að fjölskylda hans var horfin. Hann átti eftir að eyða gríðarlegu fjármagni og tíma í að leita hennar og barnanna næstu mánuði, án árangurs. 

Fjölkvæni, þjónar og misnotuð geit

Í júní 1984 hafði Sondra Stikes látist af veikindum sínum og eftir handleggspróf bauð Rick hópnum að taka upp búsetu á jörð þeirra. Í þakklætisskyni leyfði Ryan honum að giftast hinni 15 ára gömlu Lisu Haverkamp sem fæddi fljótlega barn.

Michael Ryan, Ruth Ryan, Haverkamp fjölskyldan, John Andreas og James Thimm höfðu loksins fundið sér höfuðstöðvar sem samanstóðu af spámanninum, fimm ,,drottningum“ hans, 20 þjónum, fjölda barna og kynferðislega misnotaðri geit.

Hver einasta ákvörðun, allt frá hvað ætti að vera í matinn til giftinga eða refsinga, var ákveðin af handleggsprófinu sem Ryan stundaði sí og æ.

Michael og Dennis sonur hans gengu undir nafninu Konungurinn og Prinsinn

Fljótlega sannfærði Ryan höfuð Haverkamp fjölskyldunnar, Maxine, að það væri guðsvilji að hún yrði þriðja eiginkona hans sem hún umsvifalaust samþykkti. Næstu mánuði fjölgaði hópnum upp í 25 manns sem fengu titla dyggð sinni við leiðtogann. Svínaræktin hafði verið bönnuð að kröfu Yahwe og héldu meðlimirnir í sér lífinu með þjófnuðum og allri þeirri félagslegu aðstoð sem þeir gátu nælt sér í.

Nema Ryan sem eyddi próðurparti sólarhringsins við sjónvarpsáhorf á milli þess sem hann þrumaði skipanir Yahweh yfir söfnuði sínum.

Giftist öllum systrunum og móður þeirra

Svo fór þó að Rick missti býlið til bankans í árslok en Haverkamp fjölskyldan hljóp undir bagga og keypti það. Ryan var ekki sáttur, svipti Rick titli æðsta prests svo og eiginkonunni og ,,giftist“ Lisu síðan sjálfur, rétt áður en fimmta eiginkonan bættist við, Deborah Haverkamp. Þá var hann giftur öllum Haverkamp systrunum auk móður þeirra plús sinni fyrstu, og einu löglegu eiginkonu, Ruth. Lisa var í uppáhaldi, fékk titilinn ,,drottning” og hafði víst líka náð beinu sambandi við drottinn að sögn leiðtogans.

Ryan sagði öllum frjálst að yfirgefa söfnuðinn, en þó bæri að hafa það í huga að ef einhver fengi þá hugmynd yrði viðkomandi eltur, drepinn og myndi brenna um alla eilífð í helvíti. Sumir voru þó farnir að efast og í ársbyrjun 1985 tjáði James Thimm sig um efasemdir um leiðtogann og beinlínusamband hans við almættið. Sömuleiðis sagðist hann hafa misst trúna á handleggprófið. Rick Stice lýsti sig sammála. Rick átti 5 ára gamlan dreng, Luke, frá hjónabandi sínu við Sondru sáluga og eðli málsins samkvæmt hafði barnið engar skoðanir á málinu. En Ryan fylltist gríðarlegri bræði í garð Rick og James svo og litla Luke sem var með ,,raddir Satans í höfðinu”. Eða svo sagði spámaðurinn sem hafði jú getu til hugsanalesturs. 

Pyntingar, misnotkun og barnsdráp

Rick og James var í kjölfarið þrælkað út við vinnu og æfingar og fengu titlana ,,þræll” og ,,hundur”. Þeim var synjað um svefn, hótað að skera af þeim kynfærin og flá og brenna lifandi. Luke litli var látinn ganga í gegnum hræðilegar pyntingar. Hann var látinn borða sígarettuösku, hrækt á hann, hann var hýddur með svipu og jafnvel skotinn í handlegginn. Hann fékk lítið sem að borða og varð þá að borða á fjórum fótum af gólfinu auk þess að vera settur í ísbað og látinn húka klukktímum saman klæðalaus úti í nístandi kuldanum. 

Í mars 1985 tilkynnti Michael að herða yrði á refsingunum þar sem sem þremenningarnir hefðu ekki lært sína lexíu og voru James og Rick ítrekað píndir til að eiga mök við geit. En Ryan sagði Yahweh ekki sáttan, herða þyrfti á, og skipaði James að nauðga Rick fyrir framan allan hópinn. Því næst skipaði hann Rick að fremja kynferðisníð á 5 ára syni sínum, Luke.  Skelfingu lostnir, hlýddu báðir mennirnir. Ekki löngu síðar lést Luke litli þegar Michael henti honum í vegg í bræðiskasti. Rick og James voru neyddir til að grafa hann í ómerktri gröf. 

Flóttinn og afleiðingarnar

Þegar Ryan fór með sína yngstu brúður, Lisu, í frí til Kansas, skildi hann 16 ára son sinn, Dennis, almennt kallaður ,,Prinsinn“, og Timothy Haverkamp eftir við stjórntaumana. Þeir höfðu ekki sömu stjórn á söfnuðinum og leiðtoginn og tókst Rick að flýja en varð að skilja tvö eftirlifandi börn sín eftir, 7 og 9 ára. Ryan hreinlega sturlaðist við heimkomuna og hlekkjaði James við veröndina í refsingarskyni. Einhverjum varð jú að refsa. Rick var aftur á móti farin að hræðast svo yfirvofandi dvöl í helvíti að hann sneri aftur á býlið og var umsvifalaust hlekkjaður við hlið James. Hann var á endanum losaður en aðeins til þess að Timothy gæti fylgt honum inn í þorpið til að skipta ávísun frá félagsmálayfirvöldum. Þá hafði Rick endanlega gefist upp og náði að flýja undan Timothy og fara í felur. 

James Thimm dó aðeins 26 ára að aldri.

Flótti Ricks hleypti illu blóði í Ryan sem tók alla sína reiði út á James. Hann var hlekkjaður við veröndina allan sólahringinn, fékk aðeins smáfugla sem hópurinn skaut til matar. Hinn 16 ára Dennis Ryan skaut hann meira að segja í andlitið sem hann þó lifði af. 

Skelfileg örlög James Thimm

Nokkrum dögum síðar fékk Ryan nýja skipun af himunum ofan; það myndi gleðja Yahweh ef James gæti lifað af pyntingar í 5 daga. James var hlekkjaður nakinn í hlöðunni og barinn svo að segja til óbóta af Michael, Dennis, Timothy, Jim og John. Honum var ítrekað nauðgað með handangi af skóflu og síðan handfangi af öxi þar sem spámaðurinn taldi skófluhandfangið ekki nógu breitt.

Því næst var James hengdur nakinn upp á höndunum og mönnunum sagt að Yahweh hefði fyrirskipað hýðingu. James hýddur 75 svipuhöggum áður en það var tekið hlé til að láta James skrifa upp á nýtt eignahald á bifreið sinni.

Ryan átti nefnilega afmæli og vildi bílinn í afmælisgjöf.

Dennis Ryan var aðeins 16 ára gamall þegar hann myrti að skipan föður síns

Neyðaróp James heyrðust svo klukkustundum skipti áður en hann var skilinn eftir á gólfi hlöðunnar. En þjáningar James áttu eftir að aukast þar sem mennirnir sneru aftur morgunin eftir, hengdu upp aftur og hýddu yfir 200 sinnum til viðbótar.  Þegar þarna var komið við sögu var jafnvel hörðustu stuðningsmönnunum hætt að standa á sama og báðu James griða, hágrátandi, enda pilturinn nær dauða en lífi.  Því var neitað og þess í stað voru þeir látnir skjóta af honum fingurnar, einn af fætur öðrum. Ella myndi Yahwe refsa þeim jafnvel enn meira en James. Hann hafði sagt Ryan það og hverjir voru þeir að efast um vilja almættisins?

Michael Ryan við réttarhöldin

Þegar þarna var við sögu komið var komið að hádegi og hlé tekið á pyntingunum til að snæða hádegisverð. Þá tilkynnti Ryan að James yrði að deyja þennan sama dag, það væri guðsvilji, og var John sendur út að grafa gröf.  Svo var  aftur haldið úr í hlöðuna þar sem Ryan sagði við James að nú skyldi hann húðflettur. Ryan handleggsbraut James áður en hann tók rakhníf, skar af stóran bita af húð hans, reif af með töng og veifaði framan í James til að sanna mál sitt. Dennis fékk það hlutverk að fótbrjóta James sem hann og gerði með spýtu og tókst, þótt hægt gengi. Því næst var James settur í svefnpoka, borinn út að gröfinni sem hafið verið tekin um morgunin, og fékk loksins fékk hvíldina þegar Timothy skaut hann í höfuðið. Hann var 26 ára gamall. 

Handtaka og dómar

Í júní sama ár voru þeir Jim og John handteknir fyrir þjófnað á landbúnaðartækjum í Kansas og hófu umsvifalaust að segja frá atvikunum á býlinu. Þegar Rick Stice frétti af handtökunni kom hann úr felum og sagði lögreglunni sögu sína. 

Fjöldi lögreglumanna ásamt FBI fór þegar á býlið og handtók hópinn með snarhasti. Grafir Luke og James fundust daginn eftir. Við húsleit fannst gríðarlegt magn skotvopna og þýfis.

Timothy Haverkamp vitnaði gegn hópnum

Réttarhöld hófust í mars 1986. Aðspurðir um ástæðuna fyrir pyntingum og morðum var svarið ávallt hið sama hjá öllum fimm: ,,Það var vilji Yahweh“.

Michael Ryan var dæmdur til dauða í október sama ár, Dennis Ryan fékk lífstíðardóm en sat aðeins af sér 12 ár, Jim Haverkamp og John Andreas fengu báðir 26 ára dóm. Timothy Haverkamp gerði samning við yfirvöld og vitnaði gegn vitorðsmönnum sínum gegn 10 ára dómi. 

Michael Ryan var aldrei tekinn af lífi en dó úr krabbameini 66 ára gamall árið 2015. Hann sýndi aldrei iðrun og hélt því fram til dauðadags að allar hans gjörðir hefðu verið að vilja Yahweh. 

 

Sjá einnig: Sögur af sértrúarsöfnuðum: Trúarleiðtoginn sem hjó af útlimi fylgjenda sinna

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“