Það voru miklar tilfinningar í spilunum þegar stórstjarnan Elton John kvaddi tónleikagesti á tónleikum í Stokkhólmi,s em auglýstir voru þeir síðustu sem hann hygðist halda á ferlinum, og lauk nú fyrir stundu.
Tónleikaröðin bar yfirskriftina Farewell Yellow Brick Road og því var við hæfi að hann lyki tónleikunum á því lagi. Hann þakkaði áhorfendum sem hafa stutt við bakið á honum á sviði á meira en 330 tónleikum.
Að loknu síðasta laginu sagði Elton: ,,Hvert einasta skref á ferlinum hafa aðdáendur mínir verið til staðar fyrir mig. Þeir hafa haldið tryggð við mig, þeir hafa stutt mig, þeir hafa sýnt mér þolinmæði og haldið áfram að mæta á tónleikana mína,“ sagði Elton meyr. ,,Kvöldið í kvöld hefur verið töfrandi. Ég er að reyna að melta þetta og ég held að það muni ekki síast inn í bráð að ég sé hættur að fara í tónleikaferðalög. Ég get ekki sagt ykkur hvað ég mun sakna aðdáenda og hvað þeir hafa stutt mig – það fyllir mig auðmýkt og mun ylja mér um hjartaræturnar að eilífu,“ sagði stjarnan.Þannig vildi til að breska hljómsveitin Coldplay var að halda tónleika á sama tíma í Svíþjóð og skyndilega birtist Chris Martin, söngvari sveitarinnar og góðvinur Elton, í beinni útsendingu frá sínum tónleikastað og þakkaði Elton fyrir allt sem hann hefur afrekað og kvaddi hann með hjartnæmum hætti.