Handritshöfundur sem vann með leikaranum Tom Cruise í erótísku dramamyndinni Eyes Wide Shut fer ófögrum orðum um leikarann í nýjustu bók sinni, Last Post, þar sem höfundur beinir skjótum sínum að Cruise, mislukkuðu hjónabandi hans og tengsl hans við vísindakirkjuna.
Frederic Raphael er ekkert unglamb lengur, kominn á tíræðisaldur, en það kom ekki í veg fyrir að handritshöfundurinn héldi áfram að þyrla upp ryki eftir reynslu sína í Hollywood við gerð Eyes Wide Shut. Áður hefur Raphael skrifað endurminningar sem komu út árið 1999 þar sem hann gagnrýndi leikstjóra myndarinnar, Stanley Kubrick, harðlega, en útgáfa bókarinnar varð til þess að handritshöfundinum var meinað að mæta á frumsýninguna.
Í nýju bók sinni hjólar Raphael aftur í Kubrick og sakar eiginkonu leikstjórans, Christiane Harlan, og bróður hennar, Jan Harlan, um að hafa staðið fyrir ófrægingarherferð á alfræðimiðlinum Wikipedia sem hafi málað handrishöfundinn upp í slæmu ljósi.
Ekki nóg með það heldur hafi Tom Cruise vitað um þessa herferð .
„Ég hef aldrei verið kallaður lygari jafn mikið og ég hef verið af Harlan-hópnum og Tom Cruise, sem er sjálfhverfur með stjórnunaráráttu og við hvern ég hef aldrei talað,“ sagði Raphael í bók sinni. Hann segir að Cruise hafi boðið honum vinnu í tilraun til að stjórna honum í kjölfar þess að tökum á Eyes Wide Shut lauk.
„Það væri betra að hafa mig í ólinni, hugsaði hann líklega. Þegar á sama tíma hann þarfnast þeirrar stjórnunar sem hann finnur í vísindakirkjunni.“
Raphael veltir svo fyrir sér ákvörðun Cruise að ráða þáverandi eiginkonu sína, Nicole Kidman, í hlutverk í myndinni.
„Hélstu í einhverjum barnaskap að með því að ráða gift hjón í hlutverk giftra hjóna þá gætirðu birt „sannleikann“ á skjánum?,“ skrifar Raphael.
„Eitt geturðu þó verið öruggur með: hvað sem gift par gefur opinberlega upp um samband sitt, þá hleypa þau engum bitastæðum ketti úr sekknum. Haldið þið virkilega að Cruise og Kidman hafi gift sig í einlægri ástríðu, frekar en að taka höndum saman í samruna sem væri hagstæður ferli þeirra?“
Raphael segir að Kubrick hafi dreift þeirri sögu að Raphael hafi lítið lagt til myndarinnar og hafi jafnvel reynt að fjarlægja hann af lista yfir þá sem unnu við kvikmyndina.
Hann hjólar líka í Kidman sem hann segir óeftirminnilega. „Kidman er búin að vera stjarna árum saman í augum margra, en getið þið í alvörunni nefnt eina einustu mynd með henni sem ykkur langar að sjá aftur?“