Samkvæmt heimildum DV er bandaríska leikkonan Keri Russell stödd hér á landi. Að sögn dvelur hún á Reykjavík Edition hótelinu. Ekki er vitað hvort eiginmaður hennar og kollegi, Matthew Rhys, er með í för eða hvað Russell hyggst taka sér fyrir hendur á meðan hún dvelur hér á landi.
Russell skaut fyrst af krafti á upp stjörnuhimininn þegar hún fór með aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum Felicity sem framleiddir voru á árunum 1998-2002, en hafði þá unnið við leiklist síðan 1991.
Í þáttunum fór Russell með hlutverk samnefnds háskólanema sem tekur þá skyndiákvörðun að fara í háskóla í New York til að fylgja eftir stráknum sem hún er skotin í, en þorir ekki að segja honum það, eftir að hann lýsir því yfir að hann hafi áhuga á að kynnast henni betur.
Fyrir hlutverkið hlaut Russell Golden Globe verðlaunin árið 1999.
Á árunum 2013-2018 lék hún sovéskan njósnara sem kemur sér fyrir í Bandaríkjunum, á dögum kalda stríðsins, í sjónvarpsþáttunum The Americans. Fyrir hlutverkið hlaut hún tilnefningar til m.a. Golden Globe og Emmy verðlauna.
Auk hlutverka í sjónvarpsþáttum hefur Russell farið með hlutverk í fjölda kvikmynda. Þar má til dæmis nefna Mission Impossible III, Dawn of the Planet of the Apes, Star Wars: The Rise of Skywalker og Cocaine Bear.
Nýjasta hlutverk hennar er í Netflix-þáttunum The Diplomat, sem frumsýndir voru fyrr á þessu ári, en þar fer hún með hlutverk sendiherra í bandarísku utanríkisþjónustunni. Fyrir hlutverkið er Russell tilnefnd til Emmy verðlauna en afhending þeirra átti að fara fram í september næstkomandi en hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna yfirstandandi verkfalls leikara í bandaríska sjónvarps- og kvikmyndageiranum.