Breski söngvarinn og tónlistarmaðurinn Morrissey gagnrýnir, í pistli á heimasíðu sinni, harðlega fólk sem hefur lofað írsku söng- og tónlistarkonuna Sinead O´Connor, eftir að tilkynnt var um andlát hennar í gær, en veitti henni ekki þann stuðning í lifanda lífi sem hann segir að hún hafi þurft á að halda.
Hann segir O´Connor ekki hafa getað gefið meira af sjálfri sér. Útgáfufyrirtæki hennar hafi slitið samstarfi við hana þrátt fyrir að hún hafi selt 7 milljónir platna fyrir það:
„Hún brjálaðist vissulega en varð aldrei óáhugaverð. Hún gerði ekkert rangt.“
Morrissey segir að O´Connor hafi verið stolt í viðkvæmni sinni. Hann segir að innan tónlistariðnaðarins sé visst hatur í garð söngvara og söngkvenna sem falla ekki í hópinn, en hann segist sjálfur kannast vel við það, og að þetta fólk hljóti ekki lof fyrr en eftir dauða sinn þegar það getur ekki svarað fyrir sig.
Hann segir að nú sé Sinead O´Connor hlaðin lofi með hinum hefðbundu hálfvitalegu merkimiðum „goðsögn“ og „táknmynd“ en þetta beri vott um hugleysi:
„Þið lofið hana núna bara af því það er of seint. Þið þorðuð ekki að styðja hana á meðan hún lifði og var að leita að ykkur. Fjölmiðlar kalla listamenn plágur út af því sem þeir greina ekki frá og þeir sögðu Sinead vera sorglega, feita og sjokkerandi geðveika en ó nei ekki í dag.“
Morrissey segir stjórnendur útgáfufyrirtækja sem hafi hafnað O´Connor með brosi á vör kalli hana núna feminíska tákmynd. Fólk sem hafi aflað sér frægðar í 15 mínútur, púkar úr helvíti og útgáfufyritæki sem standi fyrir gervilegan fjölbreytileika troðist nú fram með þvaður á Twitter. Hann segir að þetta sé fólkið sem hafi sannfært Sinead O´Connor um að gefast upp af því hún neitaði að láta setja á sig merkimiða. Hún hafi verið nídd eins og títt sé um þau sem hreyfa við heiminum:
„Af hverju kemur það einhverjum á óvart að Sinead O´Connor sé dáin? Hverjir höfðu nógu mikin samhug til að bjarga Judy Garland, Whitney Houston, Amy Winehouse, Marilyn Monroe eða Billie Holliday? Hvert ferðu þegar dauðinn getur verið besta útkoman? Var þetta tónlistarbrjálæði jafn mikils virði og líf Sinead? Nei, það var það ekki? Það var áskorun að nálgast hana og það var ekki hægt að setja hana í kassa og hún hafði hugrekki til að tala á meðan aðrir sátu í öruggu skjóli þagnarinnar.
Hún var áreitt fyrir að vera einfaldlega hún sjálf. Augu hennar lokuðust endanlega í leit að sál sem hún gat kallað sína eigin.“
Morrissey segir að áðurnefndir hópar sem kalli Sinead O´Connor nú heimskulegum orðum eins og goðsögn skilji ekki um hvað málið snýst. Brátt muni þetta fólk halda áfram með sín skítlegu skrif á internetinu, notalega menningu sína sem hann líkir við krabbamein, siðferðislegt yfirlæti sitt og minningargreinar sínar sem séu fullar af ælu sem það hermi hvert eftir öðru eins og páfagaukar. Sinead þurfi hins vegar ekki á svona innantómu drasli að halda.