Írska söngkonan Sinead O’Connor er látin, 56 ára að aldri. Sinead gerði garðinn frægan á tíunda áratug síðustu aldar með ábreiðu sinni af laginu Nothing Compares 2 U, sem upprunalega var sungið af Prince. DailyMail greinir frá.
Hún vakti ítrekað athygli í gegnum feril sinn. Árið 1992 kom hún fram í Saturday Night Live sem tónlistargestur. Þar söng hún lag Bob Marley, War, án undirleiks, en markmið hennar var að mótmæla misnotkun kaþólsku kirkjunnar á börnum. Hún hélt á mynd af þáverandi páfa, Jóni Pál II, á meðan hún söng um illsku. Síðan reif hún myndina niður og bað áhorfendur um að berjast gegn raunverulega óvininum. Þetta átti sér stað níu árum áður en sami páfi viðurkenndi það barnaníðs sem hafði þrifist í skjóli kirkjunnar. Þessi uppákoma Sinead fór fram án vitneskju þeirra sem koma að þættinum og vakti upp mikla gagnrýni og umtal. Engu að síður hafði Sinead ítrekað tekið fram að hún sæi ekki eftir þessu.
Madonna fylgdi þessu eftir þegar hún kom fram í þáttunum en þá hélt hún uppi mynd af Joey Buttafuoco og sagði hann vera raunverulega óvininn. Madonna sagði að það væru til betri leiðir til að koma hugmyndum sínum á framfæri en að rífa niður myndir af aðila sem margir líta upp til. Þær voru litlar vinkonur, Madonna og Sinead, en sú síðarnefnda sagði eitt sinn í viðtali:
„Madonna er líklega helsta fyrirmynd amerískra kvenna. Kona sem fók lítur upp til fyrir að vera kona sem berst fyrir réttindum kvenna. Þetta er kona sem er ofbeldisfull gagnvart mér og segir mig líta út fyrir að hafa lent í sláttuvél og ég væri álíka þokkafull og rimlagardína. Nú er þetta kona sem Ameríka lítur upp til fyrir að berjast fyrir konur, sem er að ráðast á aðra konu fyrir að vera ekki kynþokkafull.“
Árið 2013 birti Sinead opið bréf til söngkonunnar Miley Cyrus þar sem hún varaði hina ungu söngkonu við því hvernig komið er fram við tónlistarkonur og hvernig kynferði spilar þar inn. Um var að ræða viðbrögð við myndbandi Miley við lagið Wrecking Ball, sem olli töluverðu fjaðrafoki.
„Skilaboðin sem þú sendir er að það sé einhvern veginn töff að vera seldur í vændi… það er ekki svalt Miley. Það er hættulegt. Konur ber að virða fyrir svo margt annað en kynferði þeirra. Við erum ekki bara hlutir til að þrá. Ég vil hvetja þig til að senda heilbrigðari skilaboð til jafningja þinna… skilaboð um að þau og þú séu meira virði en það sem er nú að eiga sér stað í ferli þínum.“
Árið 2014 greindi Sinead frá því að hún hafi ekki fengið leyfi frá Prince til að gera ábreiðu af Nothing Compares 2 U. Þegar lagið hafi komið út hafi tónlistarmaðurinn boðað hana á sinn fund og hafi þeim ekki komið vel saman. Prince hafi gagnrýnt hana fyrir að vera orðljót í viðtölum og Sinead hafi brugðist við þeirri gagnrýni með því að segja honum að hoppa upp í rassgatið á sér. Prince hafi ekki tekið þeirri tillögu vel.
„Ég þurfti að flýja heimili hans klukkan fimm um morguninn. Hann kýldi fastar en ég.“
Seinna dró hún í land og sagði að ummæli hennar hefðu verið ýkt af fjölmiðlum og í raun hefði Prince verið indæll. Hún ítrekaði þó fyrri frásögn í endurminningum sínum þar sem hún fór ítarlega í þennan fund hennar með Prince. Þar hafi henni ítrekað verið boðin súpa, þó hún hefði enga löngun til að borða slíkt. Síðan hefði Prince barið hana með hlutum sem hann setti í koddaver eftir að hafa beðið um koddaslag og síðan hafi hann elt hana á bíl sínum eftir að hún yfirgaf heimili hans.
Sinead hafði lengi glímt við andleg veikindi sem hún rakti til erfiðrar æsku, þar sem hún mátti þola bæði líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi. Það varð ákveðið einkenni hennar að vera með höfuðið snoðað, en hún talaði ítrekað gegn feðraveldinu og þeim hlutverkum sem samfélagið vill neyða upp á konur. Hún eignaðist fjögur börn og átti að baki fjögur hjónabönd. Elsti sonur hennar Jake er 36 ára, dóttir hennar Brigidine er 27 ára, og fjórða barnið hennar er Yeshua Francis sem er 17 ára. Þriðja barnið hennar var Shane, sem féll fyrir eigin hendi í janúar á seinasta ári. Það var söngkonunni verulega þungbært að missa son sinn og gagnrýndi hún barnavernd og heilbrigðiskerfið í Írlandi harðlega í kjölfarið. Þá sóttu á hana sjálfsvígshugsanir og lagðist hún inn á geðdeild.
Hún hefur verið greind með flókna áfallastreituröskun og jaðarpersónuleikaröskun. Sjálf hélt hún því fram að andleg veikindin mættu rekja til þess að læknar neituðu henni um hormónameðferð þegar hún fór í gegnum tíðahvörf. Hún hafi verið að glíma við mikið hormónaójafnvægi sem hafi rænt hana geðheilsunni. Hún glímdi einnig við víðáttufælni og kannabisfíkn.
Árið 2017 deildi hún myndbandi á Facebook þar sem hún rakti að hafa verið svipt forsjá sonar síns, Shane. Í kjölfarið mætti hún í viðtal til Dr. Phil til að ræða opinskátt um geðsjúkdóma, en hún taldi nauðsynlegt að opna þá umræðu.
Hún var tvíkynhneigð og átti í gegnum lífið bæði í ástarsamböndum við karlmenn og konur. Ævisaga hennar Rememberings kon út sumarið 2021 og hlaut hún góða dóma. Það seinasta sem hún birti á Twitter var minning um son hennar, Shane. Færslan birtist fyrr í þessum mánuði og þar sagði söngkonan að hún hafi verið sem vofa um nótt síðan sonur hennar féll frá. Hann hafi verið ástin í lífi hennar, ljós sálarinnar. Þau hafi verið sem eitt og hann eina manneskjan sem hafi elskað hana skilyrðislaust. Hún væri hreinlega vængjalaus og týnd án hans.
😭😭😭😭😭😭😭😭😭😭#lostmy17yrOldSonToSuicidein2022.
Been living as undead night creature since. . He was the love of my life, the lamp of my soul. We were one soul in two halves. He was the only person who ever loved me unconditionally. I am lost in the bardo without him pic.twitter.com/aC8BOmLQ9N— Sinead Marie-Bernarde Aoibheann O’Connor (@786OmShahid) July 17, 2023
Sinead kom til Íslands og mætti þá að sjálfsögðu til Gísla Marteins þar sem hún söng með John Grant, Pétri Hallgrímssyni og Róisín Waters.
_____________________
Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.