fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

„Grimmdin er ólýsanleg“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 24. júlí 2023 13:00

Óskar Hallgrímsson Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óskar Hallgrímsson ljósmyndari og listamaður segist varanlega breyttur eftir hörmungarnar sem hann hefur séð með eigin augum í Úkraínu. Óskar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar hefur verið í Úkraínu alveg síðan stríðið byrjaði og hefur ítrekað ljósmyndað á stöðunum sem urðu verst úti. 

Hann lýsir í þættinum þeirri ákvörðun sinni að verða um kyrrt þegar árásirnar byrjuðu:

,,Auðvitað er enginn búinn undir að það byrji stríð og árásir rétt hjá heimili þínu. En besta ákvörðunin hjá mér og konunni minni var að panikka ekki fyrstu dagana. Við íhuguðum auðvitað að fara, en við sáum bara endalausa bílalest og að það var allt í panik og þá varð okkur ljóst að það væri ekki endilega sniðugt að vaða af stað. Að vera föst í einhverjum bíl heillengi eða að fara í lest og komast kannski eða kannski ekki. Lestarstöðin gæti verið strategískt skotmark og það getur verið stórhættulegt að vera á svoleiðis stöðum. Fyrsta hugsunin er auðvitað að fara strax, en það getur bara verið stórhættulegt. Þetta var aldrei spurning um að vera alveg örugg, heldur bara hvar við værum öruggust. Þannig að við ákváðum að vera áfram á heimili okkar í Kiev, en ef annað okkar myndi virkilega vilja fara strax yrði það niðurstaðan. En við náðum að byrgja okkur upp af mat fyrir einhverja daga og smám saman fundum við að við vildum vera áfram,” segir Óskar og heldur áfram:

,,Fólk var auðvitað að panikka í búðunum og þurrmaturinn kláraðist strax, en við náðum að komast yfir hrísgrjón og fleira sem gerði okkur aðeins rólegri. Svo fór maður bara í símann og byrjaði að fylgjast með því hvað væri að gerast. Svo auðvitað fór síminn hjá mér bara að hringja og hringja og ég varð fréttaritari Íslands í Úkraínu án þess að það hafi verið planað. Það var skrýtið að heyra stanslausar sprengingar og ekki síst þegar maður heyrði hríðbyssubardagaa sem virtust bara vera í næstu götum.”

Stríðið hefur haft varanleg áhrif á Óskar

Óskar ákvað snemma að gera það sem hann gæti til að taka þátt í að skrásetja atburðarrásina, bæði fyrir íslenska og erlenda fjölmiðla. Það hefur haft varanleg áhrif á hann:

,,Ég hef í raun elt uppi stríðið og farið inn í borgir og bæi sem eru annað hvort nýfrelsaðir eða enn undir árás. Ég kalla ekki allt ömmu mína og hef ljósmyndað mjög erfiða hluti um allan heim í gegnum tíðina. En það sem ég hef séð í þessu stríði er eitthvað sem hefur breytt mér. Maður trúði því ekki að það væri til svona mikil grimmd. Fyrsta stóra verkefnið sem ég fór í var í borginni Bucha, tveimur dögum eftir að hún var opnuð. Þar sá ég lík á götum og í bílum. Aftökur á almennum borgurum sem voru að reyna að flýja og það stendur meira að segja ,,börn” á sumum bílunum. Þarna áttaði ég mig á því hversu slæmt þetta væri og hvað grimmdin væri rosaleg. Að horfa upp á fjöldagrafir til dæmis er rosaleg upplifun sem maður hristir ekkert af sér svo glatt. Ég var búinn að undirbúa mig undir það að sjá lík, en að horfa upp á holu og fullt af látnu fólki er óraunverulegt. Annað sem var gríðarlega erfitt var að fara inn íbúðir í nýlegu fjölskylduhúsi þar sem maður sá að venjulegt ungt fjölskyldufólk hafði búið. Það voru ný barnaföt inni í íbúðunum, nýtt sjónvarp, en búið að stinga í gegnum myndir og mannaskítur á gólfinu og fleira. Maður er einhvern veginn með hugmynd um að sjá eitthvað yfirgefið, en ekki eitthvað sem var heimili ungs fjölskyldufólks nokkrum dögum áður,” segir Óskar og bætir við:

,,Ég er búinn að ganga í gegnum margt og hef verið innan um mjög erfiða hluti, en þetta er það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu að fara inn á þessi svæði og skrásetja.”

Líður betur í Kiev en á Íslandi

Óskar segir það hafa verið erfitt að koma fyrst til Íslands, þar sem honum hafi liðið eins og allir væru hættir að hugsa um stríðið:

,,Það var erfitt að upplifa það að finnast fólki vera nánast sama um það sem maður var búinn að horfa upp á með berum augum. Það er saklaust fólk í Evrópu sem er verið að slátra og þegar maður er svona nálægt þessu finnst manni að allir eigi að hugsa aðeins um þetta frekar en hluti sem skipta engu máli. En svo auðvitað skilur maður það að lífið heldur áfram hjá fólki í öðrum löndum og þegar fréttaflutningur minnkar. En þegar maður veit hvað er ennþá í gangi í Úkraínu og er búinn að vera í miðjunni þá finnst manni að athyglin ætti ekki að fara svona glatt,” segir Óskar, sem líður samt þrátt fyrir allt best í Úkraínu:

,,Mér finnst betra að vera í Kiev en á Íslandi. Ég veit að það hljómar fáránlega núna, en líf mitt er í Úkraínu, konan mín er frá Úkraínu og eins og staðan er núna ætlum við að byggja upp líf þar.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Óskar og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024