Hjónin Katrín Edda Þorsteinsdóttir, verkfræðingur og Markus Wasserbaech eru stödd á Íslandi, þar sem þau hyggjast gifta sig og það í annað sinn.
Hjónin eru búsett í Stuttgart í Þýskalandi ásamt dóttur sinni og giftu sig 21. janúar í fyrra við litla athöfn í ráðhúsinu þar þegar tíu manna samkomutakmarkanir voru í gangi vegna kórónuveiruheimsfaraldurs.
„Mikið verður gaman að fagna ástinni aftur eftir rúmar tvær vikur og núna í faðmi enn fleiri ástvina með yndislegri kirkjuathöfn og alvöru brúðkaupsveislu. Get ekki beðið,“ sagði Katrín Edda í færslu á Instagram 6. júlí.
Á laugardag komu vinkonur Katrínar Edda henni rækilega á óvart með gæsun. Vinkonurnar buðu upp á heljarinnar dagskrá og skemmtun. Dagurinn hófst í World Class þar sem Katrín Edda var látin klæðast sem Na’vi kona úr Avatar kvikmyndunum, en hún er mikill aðdáandi myndanna, þar fór Katrín Edda í kraftakeppni sem hún vann, næst var haldið í brunch, niður í miðbæ í leiki og skemmtun og næst í Kramhúsið þar sem vinkonurnar lærðu dansrútínu.
„Sem við masteruðum þrátt fyrir að ég sé hörmuleg að muna skref og sé með mjaðmahreyfingar á við hreyfihamlaðan flóðhest,“ segir Katrín Edda í færslu á Instagram.
Síðan var haldið í spa og dekur, og næst í kvöldmat og karókí.
„Ég viðurkenni að ég var gjörsamlega BÚIN á því klukkan 20:30, en lifði samt til miðnættis og fór þá heim og svaf í öðru herbergi, sem var mikill lúxus. Takk elsku bestu mínar fyrir skemmtilegasta dag lífs míns.“