fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Pálmi segir allt sett að veði vegna græðgi – „Borguðu skít og ekkert fyrir þetta“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 17. júlí 2023 15:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við þekkjum langflest Pálma Gunnarsson tónlistarmann sem hefur spilað og sungið sig inn í hjörtu okkar síðustu hálfu öldina eða svo. Færri okkar þekkja Pálma umhverfispönkara sem lætur sér afar annt um náttúru jarðar og sjálfbæra auðlindanýtingu. Hann hefur til að mynda afar sterkar skoðanir á laxeldi í opnum sjókvíum og vill það allt upp á land. Pálmi er nýjasti gesturinn í Kalda Pottinum frá sviðinu á Gömlu Borg í Grímsnesi, en þar ræðir hann við Mumma Þórarinsson um pólitíkina og stjórnsýsluna í kringum grænu málin og er umræðan ekki tekin neinum vettlingatökum.

Stórgróði fyrir kúk og kanil

Pálmi rakti að hér áður fyrr, þegar sjókvíaeldi nam hér fyrst land, hafi regluverkið ekki verið neitt og þeir sem voru snöggir til gátu sótt um leyfi fyrir sjókví og fengið samþykkt bara með auðveldum hætti.

„Til að byrja með var það þannig að ég gat bara, ef ég áttaði mig á því- sjitt, nú ætla ég að vera með ég ætla að sækja um alveg í hvelli að setja niður 20 kvíar þarna. Bara úllen dúllen doffa einhvers staðar á kortinu.“

Fólk hafi hlaupið til og sótt um með hraði og fengið leyfin sín. Pálmi kallar þá sem voru þarna fremst í flokki lukkuriddara, en þeir fengu þessi leyfi fyrir nánast ekki neitt.

„Bara mjög auðveldlega fyrir kúk og kanill. Borguðu skít og ekkert fyrir þetta. En, þeir aftur á móti, þegar þeir voru komnir með leyfin í hendurnar, komnir með leyfi fyrir því að setja niður 10 kvíar hér, sex kvíar hér, fimm kvíar hér, þá gátu þeir farið að moða með leyfin.“

Þá gátu þessir aðilar selt þessi leyfi fyrir mikinn hagnað og hafi margir makað krókinn ríkulega.

„Það eru náttúrulega margir af þessum strákum orðnir helvíti vel efnaðir á því að selja þessi leyfi dýrum dómum til þessara risafyrirtækja frá Noregi og eignast og eignast og eignast svo stóran hlut jafnvel í fyrirtækjunum og annað eftir því.“

Skitið ruglað upp á bak

Víkur þá talinu að hinum unga Gustav Witzoe yngri, sem er stærsti eigandi Arnarlax á Bíldudal í gegnum norska félagið Salmar AS. En Gustav er aðeins þrítugur að aldri og einn af yngstu milljarðamæringum heimsins, og einn ríkasti maður Noregs. Hann hefur líka starfað sem áhrifavaldur og fyrirsæta. Arnarlax er stærsta laxeldisfyrirtæki landsins, en fyrirtækið var meðal annars sektað í nóvember vegna slysasleppinga og fyrir vítavert aðgæsluleysi, en sektarákvörðunin er sem stendur í áfrýjunarferli. Arnarlax hafa sótt í sig veðrið á síðustu árum og tekið yfir mörg önnur laxeldisfyrirtæki og þar með aukið hlut sinn í markaðinum á Íslandi gífurlega.

Pálmi segir í raun lítið að sakast við þessi norsku fyrirtæki sem eigi hér stóran hlut í fiskeldi. Vissulega séu fyrirtækin stór, rík og óforskömmuð í störfum sínum en hér hafi þau séð viðskiptatækifæri og ekkert óeðlilegt að þau hafi gripið það færi. Stærra málið sé að þegar fiskeldi hafi farið af stað hér á landi þá hafi verið byrjað á vitlausum enda. Menn hafi hlaupið til og fengið leyfin, þó svo að ekki væri búið að setja neina reglur um þessa framkvæmd. Reglurnar hafi komið síðar. Vissulega sé betra seint en aldrei en í fullkomnum heimi þá hefði verið byrjað á því að horfa til nágrannaríkja þar sem sjókví hafi verið komið upp, til dæmis Kanada og Noregs, meta hvernig gengið hafi þar og út frá því semja lög og reglur. Seinasta skrefið hefði átt að vera að opna fyrir leyfin.

„Allt eftirlit – hefur verið í djöfulsins mýflugumynd. MAST hefur skitið alveg ruglað upp á bak í þessu. Skýringin er sú að þeir hafa ekki mannskap, og það er alltaf verið að finna einhverjar svoleiðis afsakanir fyrir hlutunum. heldurðu að við hefðum ekki getað lært af sjókvíaeldi í Kanada? Í Chile? í Noregi?“

Hefðu hlutirnir verið gerðir í réttri röð þá sé góður möguleiki á að framkvæmdin hefði orðið önnur og jafnvel að metið hefði verið sem svo að sjókvíaeldi hreinlega borgi sig ekki. Pálmi telur beinast liggja við að eldislax verið alinn uppi á landi í framtíðinni. Þá sé hægt að hafa betra eftirlit með framkvæmdinni, farið sé betur með fiskinn og muni þetta skila sér í betri vöru. Þar að auki sé hægt að vernda hér villtan lax. Eins og staðan sé nú fylgi sjókvíaeldi rosalega mikil umhverfismengun sem hafi skaðleg áhrif. Svo sleppi fiskar úr kvíum og komist í villta stofna þar sem eigi sér stað blöndun. Fóðrið sem eldisfiskum sé gefið sé líka ekki framleitt með umhverfisvænum hætti.

Öllu fórnað fyrir gróða

Pálmi þykist vita hvers vegna þetta sé engu að síður látið viðgangast. Það séu peningarnir, eins og með svo margt annað.

„Áhuginn fyrir því að græða ofboðslega mikla peninga,“ segir Pálmi og bendi á að það skipti engum sköpum hvaða áhrif þessi gróði hafi á auðlindir landsins. Þó svo að gefa þurfi sýklalyf í massavís, lúsaeitur og ryðja heilu fótboltavellina af gróðri til að útbúa fóður. Öllu sé fórnað á altari gróðans.

Pálmi segir móðir náttúru eiga undir högg að sækja, sem og þá sem minna eiga sín, en öllu sé fórnað þegar menn eygja gróðavon.

„Ég hugsa stundum til þess, ok ef ég hefði fæðst ríkur, með silfur skeið í kjafti. Þá hryllir mig stundum við þessari tilhugsun. Er manneskjan kannski bara þannig að ef hún er sett í einhverja ákveðna stöðu, mótar þá þessi staða karakterinn for ever, gerir þig að einhverju?“

Ef Pálmi ætti töfrasprota myndi hann breyta heiminum svo að öllum gæðum yrði skipt jafnt á milli fólks. Þá væri engin þörf á græðgi, öfund, stríðu og slíku. En vissulega séu þetta draumórar, en draumórar sem Pálmi ætlar þó að eiga áfram, enda trúir hann á betri heim.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima allskonar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.
Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi. Þættina má nálgast hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar