Gamla mjólkurstöðin við Snorrabraut 54 í Reykjavík mun fá nýtt hlutverk á næstunni en til stendur að breyta húsinu í íbúðahótel. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur heimilað umsækjanda, Rökkurhöfn ehf., að láta vinna breytingu á gildandi deiliskipulagi sem heimilar hótel á lóðinni og því gerir skipulagsfulltrúi ekki athugasemd við að húsinu verði breytt í íbúðahótel.
Fjallað var meðal annars um málið í Morgunblaðinu í dag.
Húsið var byggt af Mjólkurfélagi Reykjavíkur árið 1929, sem mjólkurstöð með smjör- og ostagerð, eftir teikningum Einars Erlendssonar, húsameistara. Einar var aðstoðarmaður Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Húsið sem er 986,8 fm er hannað í fúnkísstíl með klassískum áhrifum, steinsteypt, á tveimur hæðum með kjallara.
„Húsið nýtur verndar í grænum flokki samkvæmt Húsverndarskrá Reykjavíkur um verndum 20. aldar bygginga. Um er að ræða reisulegt hús sem setur svip sinn á götumynd Snorrabrautar en því miður hefur viðhald vantað undanfarið og ásýndin því nokkuð hrörleg í dag,“ segir meðal annars í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.
Húsið er að hluta mjög illa farið og þarfnast algerrar endurnýjunar, Óskað er heimildar til að rífa skorstein og endurbyggja Ketilhúsið. Skipulagsfulltrúi fellst á endurbyggingu Ketilhúss og niðurrif skorsteins en hann verði að endurbyggja. „Ekki er fallist á að fjarlægja skorstein til frambúðar þar sem hann er orðinn að kennileiti í umhverfi sínu,“ segir verkefnastjórinn.
Fjölmörg fyrirtæki hafa verið með starfsemi í húsinu í gegnum árin og má nefna Osta- og smjörsöluna, útvarpsstöðina Bylgjuna, OZ og Söngskólann í Reykjavík, en í fasteignaskrá er lýsing hússins; skóli. Tölvufyrirtækið OZ keypti húsð á sínum tíma af Osta- og smjörsölunni og seldi til Söngskólans í Reykjavík, sem seldi húsið áfram árið 2017 til félagsins Sandhótels.
Framkvæmdir þegar hafnar
Framkvæmdir hafa staðið í nokkra mánuði á baklóðinni milli hússins og Sundhallarinnar. Þar mun rísa þriggja hæða fjölbýlishús með um 40 íbúðum og verslunar-/ þjónusturými í þeim hluta götuhæðar sem snýr að Snorrabraut. Það er því ljóst að þetta horn Snorrabrautar og Bergþórugötu mun taka stakkaskiptum í náinni framtíð.
Tæpum 100 metrum frá á Snorrabraut 62 er í byggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Atvinnurými verða á jarðhæð og 35 íbúðir á þremur hæðum.
Ein íbúða hússins vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum fyrir að vera hentug fyrir þá sem aðhyllast bíllausan og bóllausan lífsstíl, en engin sérmerkt bílastæði fylgja húsinu. Og í þessari íbúð er heldur ekki svefnherbergi.
„Upphaflega hönnuðum við þessa íbúð þannig að það væri svefnherbergi í henni en fengum svö svör frá skipulagsyfirvöldum að það væri ekki í boði þar sem einungis 60 prósent íbúða í húsinu mættu vera tveggja herbergja íbúðir,“ útskýrir Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Snorrahúss.
Íbúðin sem um ræðir er númer 212 og var teikningum af íbúðinni deilt á samfélagsmiðlinum Twitter. Hún er sú eina í húsinu sem ekki fylgir svefnherbergi. Íbúðin er 38 fermetrar að stærð og er uppsett verð 43,9 milljónir króna.