fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Fókus

Ungfrú ósökkvandi – Ævintýraleg ævi stúlkunnar sem lifði af skelfilegustu sjóslys sögunnar

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 23. júní 2023 20:00

Violet Jessup. Skjáskot/YouTube.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Violet Jessop fæddist í Argentínu árið 1887, dóttir írskra innflytjenda. Líf fjölskyldunnar var erfitt og aðeins sex af átta systkinum Violet náðu fullorðinsárum. Violet lifði samt sem áður af sjúkdómana sem hröktu systkini hennar í gröfina, jafnvel alvarlega berkla sem voru taldir verða henni örugglega að aldurtila.

Hún var 15 ára þegar faðir hennar lést og flutti niðurbrotin móðir hennar til Englands með Violet og tvær yngri systur hennar.

Leist illa á

Móðir Violet fékk vinnu sem skipsþerna en varð að draga sig í hlé sökum veikinda þegar Violet var 21 árs. Hún varð því að hætta í námi og verða fyrirvinna fjölskyldunnar. Violet ákvað að stíga í fótspor móður sinnar og sótti um starf skipsþernu.

Violet Jessup.

Á þessum árum voru flestar skipsþernur miðaldra, af ótta við að ungar og fallegar stúlkur myndu valda of mikilli truflun á meðal áhafnar og farþega á hafi úti. Violet vissi vel af þessari reglu og gerði sig eins óaðlaðandi og unnt var þegar hún fór í viðtalið. Það gekk upp og árið 1908 var Violet ráðin sem skipsþerna hjá Royal Mail Line og tveimur árum síðar hjá skipafélaginu White Star Line.

Violet vildi í fyrstu ekki vinna fyrir White Star Line. Henni  leist henni illa á veðurskilyrðin úti á hina ískalda Atlantshafi og hafði heyrt að hinir efnuðu farþegar, sem White Star höfðaði sérstaklega til, væru erfiðir og kröfuharðir. En vinir hennar fullyrtu að um ævintýri væri að ræða og árið 1910 hóf Violet störf sem þerna á hinu glæsilega Olympic, stærsta farþegaskipi heims á þeim árum.

Annað og stærra var þó í byggingu, systurskipið Titanic.

Fyrsti skipsskaðinn – Olympic

Líf skipsþernu var erfitt, sautján stunda vinnudagur á lágmarkslaunum. En Violet kunni vel við lífið á hafi úti og var glaðlega og gullfallega þernan, með rauðbrúna hárið og sterka írska hreiminn, vinsæl meðal samstarfsfólks og farþega.

Reyndar er vitað til þess að Violet hafi fengið að minnsta kosti þrjú bónorð frá farþegum meðan á störfum hennar sem þerna stóð.

Þann 20. september 1911 lenti Olympic í árekstri við breskt herskip fyrir utan Skotland. Bæði skipin skemmdust mikið en sem betur fer varð ekki mannfall. Violet slapp ómeidd frá árekstrinum og var nokkru síðar boðið annað þernustarf, nú á hinu nýbyggða Titanic.

Violet steig um borð í Southampton þann 10. apríl, 1912. Þegar lagt var frá höfn voru 2224 manns um borð, þar af lifðu 705 ferðina.

Annar skipsskaðinn – Titanic

Violet kunni vel við starfið, aðstaða starfsmanna var góð, og hún naut þess að labba um skipsdekkið fyrir svefninn og anda að sér fersku sjávarloftinu. Að kvöldi 14. apríl var Violet að undirbúa sig fyrir svefninn þegar hún fann þýdda hebreska bæn sem gömul írsk kona hafði gefið henni fyrir ferðina.

Violet hafði ekki lesið bænina en sem strangtrúaður kaþólikki las hún hana þetta örlagaríka kvöld. Bænin var um vörn gegn vatni.

Violet komst frá sökkvandi skipinu með barnið óþekkta í fanginu. Málverk eftir Willy Stoewer/Getty Images.

Hún var við að sofna þegar fréttir bárust af árekstrinum og hún kölluð upp á dekk og gert að sýna farþegum sem ekki töluðu ensku hvernig bera skyldi sig að við björgunarbátana.

Barnið sem hent var

Violet horfði á konur og börn halda grátandi í eiginmenn sína og feður, margar þeirra hikandi við að stíga um borð í björgunarbátana. Violet var því látin fara fyrst um borð til að sýna að bátarnir væru öruggir, taka á móti börnum og aðstoða konurnar. Björgunarbáturinn fylltist og var látinn síga. En rétt áður en hann snerti vatnið heyrði hún nafn sitt kallað og  leit upp Violet upp. Hún sá þá einn af yfirmönnum skipsins og hafði hann eitthvað sem virtist böggli í fanginu.

Hann kastaði bögglinum niður til hennar með orðunum: „Hérna, ungfrú Jessop. Passaðu þetta barn.”

Violet greip barnið og hélt því  að brjósti sér næstu átta klukkustundirnar eða þar til skipbrotskonunum var bjargað um borð í skipið Carpathia sem hafði komið til hjálpar.

Þegar hún steig um borð í Carpathia, ísköld og dofin, rauk kona upp að henni, greip barnið úr fangi hennar og hljóp í burtu. Hún sá hvorugt þeirra framar. Síðar frétti hún að móðir hefði lagt frá sér barn á dekkið í hinu sökkvandi Titanic og snúið við eftir einhverju en barnið verið horfið þegar hún sneri til baka. Gerði Violet einfaldlega ráð fyrir að um þetta barn hefði verið að ræða.

Hún átti ekki eftir að segja söguna fyrr en áratugum síðar og lét hún þá hafa eftir sér að hafa alltaf verið hissa á að fá aldrei svo mikið sem þakkarbréf frá móðurinni.

Þriðji skipsskaðinn – Brittanic

Margir hefðu nú haldið að Violet myndi finna sér starf í landi eftir að hafa upplifað tvo skipsskaða með skömmu millibili. Svo var aldeilis ekki og Violet réði sig á Brittanic fljótlega eftir að ná heilsu eftir Titanic slysið. Brittanic var einnig farþegarskip í eigu White Star en talið mun öruggara en systurskip sín eftir breytingar sem höfðu verið gerðar á því eftir örlög Titanic.

Brittanic var breytt í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar og var ætlað að flytja særða breska hermenn heim af vígstöðvunum.

Violet hóf störf á hjúkrunarskipunu Brittanic eftir Titanic slysið.

Brittanic sigldi á þýska sprengju í Eyjahafinu þann 21. nóvember 1916. Violet fann hvergi björgunarbát og lokaði því augunum og stökk fyrir borð. Reyndar samt ekki áður en að snúa við eftir tannbursta. En straumarnir drógu hana undir kjölinn, þar sem lausamunum og brotum úr skipinu rigndi yfir hana, svo að litlu mátti muna. Violet náði með herkjum að koma sér undan brakinu og var bjargað úr sjónum skömmu síðar.

Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar, þegar að Violet leitaði til læknis vegna slæmra höfuðverkja, að í ljós kom að hún hafði höfuðkúpubrotnað þessa nótt. Hún taldi það fullvíst að þykkt hárið hefði bjargað lífi hennar og voru læknar á sama máli.

Brittanic sökk á 55 mínútum og var stærsta skipið sem fórst í fyrri heimsstyrjöldinni. Af þeim 1066 einstaklingum sem í skipinu voru létust 32.

Um heimsins höf

Þegar þarna var komið við sögu hafði Violet lent í þremur skipssköðum á fimm árum, þar af tveim afar mannskæðum. Hún var samt sem áður hvergi bangin og réði sig til starfa á farþegaskip þegar þau hófu aftur siglingar eftir fyrri styrjöldina.

Violet átti eftir að sigla um öll heimsins höf næstu áratugina, án þess þó að lenda aftur í skipsskaða. Hún gekk í skammlíft hjónaband og eignaðist aldrei börn. Violet starfaði á farþegaskipum til 63 ára aldurs, fór þá á eftirlaun og settist að í 300 ára smáhýsi í Suffolk á Bretlandi. Fyllti hún húsið af minjagripum frá fjögurra áratuga ferðum sínum um heiminn og undir sér vel.

Violet skrifaði endurminningar sínar áður en hún lést árið 1971, 84 ára að aldri.

Ungfrú ósökkvandi

Saga Violet hefði fallið í gleymskunnar dá ef ekki hefði verið fyrir kvikmyndina ,,A Night To Rembember“ sem kom út árið 1958 og fjallar um nóttina örlagaríku þegar Titanic sökk. Myndin vakti gríðarlegan áhuga á slysinu, áhuga sem enn lifir, en á þessum árum var Titanic slysið að mestu leiti gleymt.

Blaðamenn fengu veður af Violet sem var fús til að segja frá ævintýrum sínum og fékk hún í kjölfarið viðurnefnið ,,Miss Unsinkable” (Ungfrú ósökkvandi).

Ódagsett mynd af Violet Jessup.

,,Það var ég“

Því má bæta við að nokkrum árum eftir að Violet fór á eftirlaun hringdi síminn hjá henni kvöld eitt. Þegar hún svaraði spurði ókunnug rödd hvort hún væri konan sem bjargað hefði barninu af Titanic og játti Violet því. Viðmælandinn hló þá og sagði;  ,,það var ég” og skellti á. Hún sagði vini sínum síðar frá atvikinu. Sá gerði lítið úr því og kvað sennilegast að um hrekk hefði verið að ræða. Violet sagði aftur á móti að það gæti ekki staðist, símtalið hefði borist áður en hún sagði nokkrum manni söguna af barninu sem hent var í fangið á henni.

Hvort sem um hrekk eða ekki var að ræða hefur ráðgátan um barnið, sem Violet hélt í fangi sér átta erfiða klukkutíma á hafi úti, aldrei verið leyst.

Greining var áður birt í mars 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“
Fókus
Í gær

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kom að yfirmanninum í vandræðalegri stöðu – „Ég get ekki gleymt þeirri sjón sem blasti við mér“

Kom að yfirmanninum í vandræðalegri stöðu – „Ég get ekki gleymt þeirri sjón sem blasti við mér“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sara Lind telur ólíklegt að hún snúi aftur heim – „Mér finnst bara næstum því allt betra í Danmörku“

Sara Lind telur ólíklegt að hún snúi aftur heim – „Mér finnst bara næstum því allt betra í Danmörku“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ragnheiður yrkir um fíkn dóttur í nýrri bók

Ragnheiður yrkir um fíkn dóttur í nýrri bók
Fókus
Fyrir 5 dögum

19 ára stúlka dó í svefni eftir að hafa kvartað undan slæmum höfuðverk

19 ára stúlka dó í svefni eftir að hafa kvartað undan slæmum höfuðverk