fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fókus

Ágústa Ýr stefndi á heimsmeistaratitil þar til hún lenti í alvarlegu slysi – „Ég ætlaði bara að gera allt sem ég þurfti til að ná bata“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 17. júní 2023 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ágústa Ýr Sveinsdóttir,  34 ára gömul sveitastelpa sem ólst upp við Breiðafjörðinn, lenti í alvarlegu slysi fyrir tveimur árum þar sem hún var við keppni á Íslandsmóti í paragliding eða svifvængjaflugi, íþrótt sem hún stefndi á að komast í fremstu röð í heiminum.

Um tíma var óvíst hvort að hún myndi geta gengið aftur en með aðdáunarverðri jákvæðni og bjartsýni hefur Ágústa Ýr náð undraverðum bata og hún hreinlega neitar að gefast upp á draumnum um að svífa um loftin blá að nýju.

Ágústa Ýr naut þess að alast upp í sveit.

Magnað lífshlaup

Í viðtali við DV fer Ágústa Ýr yfir magnað lífshlaup sitt en hún er menntaður rafvirki og vann meðal annars í tvö ár á Grænlandi, umkringd íslenskum og erlendum karlkyns iðnaðarmönnum sem sumir rifu upp myndavélar því þeim fannst svo óvenjulegt að sjá konu að vinna dagleg verk þeirra. Þá hefur hún ferðast um allan heim, til að keppa og njóta, meðfram vinnu og námi. Hún útskrifaðist nýlega sem markþjálfi og miðlar bjartsýninni, jákvæðninni og dugnaðinum til annarra á meðan hún sjálf glímir við stærsta verkefni lífs síns hingað til, að ná heilsu að nýju.

Ágústa með bróðir sínum í æðavarpinu.

„Án þess að fara í Pollýönnuleik þá þarf ég að sýna mér mildi þegar ég fer í gegnum verkjaði daga og reyna að brosa. Það þarf að fara í gegnum erfiðu tímana líka en góðu stundirnar koma líka. Við þurfum að vilja, tilfinningar og tengsl. Við komust ákveðið langt á hnefanum en erum þá eins og hamstur á hjóli,“ segir Ágústa Ýr um stöðu sína í dag.

Ýmislegt brallað í sveitinni

Ágústa Ýr átti þægilega og kærulausa barnæsku sem í minningunni einkenndist af miklu frelsi.  Hún er alin upp á bænum Skálanesi og er næst elst fjögurra systkina.

„Ég fékk að gera alls konar hluti sem krakkar upplifa kannski ekki í dag eins og sitja aftan á heyvinnsluvagninum, keyra dráttarvélar og allskonar spennandi hluti. Maður hljóp út á morgnana og brasaði eitthvað allan daginn. Við systkinin höfum gaman af því í dag að segja foreldrum okkar hvað við vorum í raun stundum að bralla því það hefði örugglega ekki verið leyft,“ segir Ágústa Ýr brosandi.

Systkinin eru þéttur hópur sem standa saman og hittast reglulega til að taka til hendinni í sveitinni, hvort sem það er sauðburður eða smalamennska.

Náttúrubarni Ágústa.

Dreymandi barn í rafvirkjun

Hún lýsir sér með dreymandi barni sem alltaf hafi verið að horfa upp í skýin og að æskan hennar hafi heilt yfir verið draumkennd og æðisleg.

„Auðvitað komu erfiðir dagar inn á milli en neikvæðni og erfiðleikar hafa svolítið kastast af mér í gegnum árin, auðvitað hefur það gerst að maður taki hluti inn á sig í gegnum lífið og neikvæðari hlutar lífsins tekið yfir. En jákvæða hugsunin hefur alltaf verið sterkari,“ segir Ágústa.

Í fjallgöngu með Tobba

Ágústa fór til Reykjavíkur í framhaldsskóla og það með látum. Hún tók stúdentspróf í fjölmiðtækni auk grunnnám í rafvirkjum samhliða á aðeins fjóru og hálfu ári, og það með vinnu auk þess að sinna áhugamálum á borð við við leiklist og tónlist. Lífið var bara svo spennandi.

Aðspurð hvers vegna hún hafi skellt sér í rafvirkjun með skóla segir Ágústa að það hafi komið til þegar hún sá auglýsingu RIFF,  Reykjavík International Film Festival, eftir sjálfboðaliðum. Hún fór að vinna í móttökunni og fékk mikinn áhuga á sýningarstjórnun, sem kallar á grunnnám í rafvirkjun.

Systkinin skemmta sér í snjónum heima.

Fann sig í rafvirkjun

Hún skráði sig því í kvöldnám í faginu. „Ég átti alveg félagslíf líka og stalst á djammið eins og hinir krakkarnir, auk þess að vera að vinna. Kannski fór maður stundum aðeins fram úr sér. Ég hef alltaf verið góður námsmaður þrátt fyrir að nenna ekki að læra, er smá óþolandi að því leyti.“

Ágústa var þó aldrei sýningarstjóri því henni fannst gaman að vera rafvirki og fór á samning hjá Ísal eftir skóla. Hún tók sveinsprófið vorið 2011, með hæstu einkunn, og naut starfsins í botn.

Með Hafdísi að kafa á Great Barrier Reef í Ástralíu

„Mig langaði að verða háspennuverkfræðingur hefði ég haldið fókus en ekki alltaf fundið eitthvað nýtt og spennandi að gera. Mig langaði alltaf að skilja og prófa meira og því vildi athyglin fara út um allt. En þannig er bara lífið og gaman að því. Það eru ekki margir sem ákváðu sex ára hvað þeir vildu vera og eru það í dag. Meðan maður er að vaxa í gegnum lífið og læra af mistökum sínum og nýta lífsreynslu sína er lífið bara ansi gott.“

Á leið í Indverskt brúðkaup með Hafdísi og Gunnhildi

Paragliding hið fullkomna frelsi

Ævintýraþráin tók þá yfir og Ágústa Ýr ákvað að skella sér í heimsreisu með vinkonu sinni. Ferðin byrjaði reyndar á októberfest í Þýskalandi sem var við hæfi enda var hún þaulreynd í spila þýska marsa í lúðrasveit í Hafnarfirði.

Þaðan var förinni heitið til Asíu þar sem vinkonurnar ferðuðust víða og dvöldu meðal annars tvo mánuði í Indlandi.

„Við fundum fljótt út að við vorum ekki ferðamennirnir sem tékka í boxin við að sjá merkilegustu ferðamannastaðina. Við vorum meira að spjalla við fólkið og kynnast menningunni og kynntumst fólki sem ég er enn í sambandi við í dag. Mér fannst það meira gefandi að taka við mann sem malaði hveiti en að tékka í túristaboxin.

Á flugi í Frönsku ölpunum – ég er á fjólubláa og appelsínugula vængnum

Það var síðan í Nepal örlagarík uppgötvun átti sér stað en þar kynntist  Ágústa paragliding, eða svifvængjaflugi, og féll fyrir því. Og þar sem Ágústa, og reyndar flestir, nota enska orðið höldum við því. Þegar heim var komið, vorið 2012, fór Ágústa Ýr á frekari námskeið í íþróttinni sem hún var kollfallin fyrir.

„Það var svo magnað að kynnast frelsinu sem er í loftinu og læra að nýta kraft nátturinnar til að vera ein með fuglunum, ögra sjálfum sér, ná sinni getu. Mér finnst þetta hið fullkomna frelsistilfinning. Það er ekkert að trufla, maður skilur vandamálin eftir á jörðinni, og er bara í stund og stað. En það var auðvitað mín upplifun, sumir upplifa þetta allt öðruvísi. En það er mitt, að ögra sjálfri mér, ná markmiðum og njóta náttúrunnar í hrárri upplifun.“

Eitt ár í Grænlandi

Ágústa fékk vinnu hjá Rafmiðlun um svipað leyti árið 2012, aðeins 24 ára. Fyrirtækið hafði þá fengið verkefni í Grænlandi og vann þar í úthöldum í tæp tvö ár.

„Grænland var rosalega lærdómsríkur tími. Við vorum staðsett í óbyggðum dal, og ég kvenkyns iðnaðarmaður, sem var ekki mjög algengt á þessum tíma. Ég var svolítið ein með hundrað strákum en á þessum tíma leit ég ekki endilega svo á, ég var ein af hópnum og mjög heppin með vinnufélaga sem litu bara á mig sem einn af rafvirkjunum.

Með mömmu og pabba í Taj Mahal á Indlandi

Hún segist alveg þurft að standa á sínu sem kvenkyns iðnaðarmaður í karlægri grein. „En ég var að vinna með flottum hóp sem var frekar í að reka mig áfram.  En það komu þarna líka erlendir karlmenn að vinna, þeir voru með annan kúltúr og með þeim komu skrítnir hlutir og  áreiti svo ég þurfti stundum að geta svarað fyrir mig. Það var aldrei vandamál fyrir mig, ég gat alltaf staðið í fæturna án þess að vera með læti. Ég lærði mikið um sjálfa mig á þessum tíma auk þess að bæta mjög við mig sem rafvirki.“

Við Grænlandsjökul – Mynd Gísli Kristján Birgisson

Ágústa segist hafa verið ung og að prófa sig áfram. „Ég fékk alls kyns skemmtileg verkefni. Eitt atvik var mjög minnisstætt en þá var ég að nota steinbor, sem var mér býsna auðvelt, enda margoft gert það áður. Ég var inni á skrifstofu með nokkrum verkfræðingum og einn þeirra, ágætis maður, vildi endilega taka mynd af mér við borunina því honum fannst það virkilega merkilegt að kona væri að meðhöndla verkfærið. Mér fannst það stórfurðulegt svo ég tók upp á því að taka mynd af öllum karlmönnum sem ég sá með sóp, “ segir Ágústa og skellihlær. Skilaboðin voru skýr.

Vel dúðuð í miklu frosti á Grælandi

Hungruð í að fljúga

Þegar að Grænlandsævintýri Ágústu lauk var hún orðin svolítið þreytt enda búið að vera mikið álag í vinunni.

„Ég hafði enn gaman af rafvirkjuninni en fann að ég var aðeins að missa drifkraftinn og áhugann. Ég var líka kominn á fullt í paragliding og var alltaf í útlöndum einhvers staðar að fljúga. Ég var þrjá mánuði í Makedóníu sumarið 2013, sem var frábært sumar þar sem ég lærði heilmikið og náði gríðarlegum framförum, enda Ísland kannski ekki alveg besta landið fyrir þetta sport.

Ég hafði verið að ferðast mikið ein áður en fékk frábæra þjálfun hjá góðum vini mínum þarna í Makedóníu. Ég fann að þetta var það sem mér þótti skemmtilegast að gera og var hungruð í að fljúga enn meira og ná eins langt og mér var unnt. “

Á Indlandi með dætrum vinafólks

Bjó í bakpoka

Næst tóku við nokkur ár þar sem Ágústa segist svo að segja búið í bakpoka. „Ég ferðaðist þegar ég gat en kom heim til Íslands í nokkra mánuði í einu og vann þau störf sem ég fann, oftast sem rafvirki en en eitt haustið gat ég ekki hugsað mér það og fór að vinna sem uppvaskari í mötuneyti. Sem var rosa gaman. Í alvöru,“ segir Ágústa og hlær þegar blaðamaður lýsir yfir vantrú á gleðina við uppvask.

Auk þess að keppa og ferðast um allan heim skráði Ágústa sig líka í BA fjarnámi fjölmiðlafræði. „Ég sat á einhverju flugvöllum um heiminn eða vaknaði eldsnemma fyrir keppnir og hlustaði á fyrirlestra, sem var gaman en það var líka mjög erfitt á köflum að standa við sitt og skila verkefnum.“

Gefa öpum banana á vegi á Indlandi

Hún bætir við að keppnisstaðir fyrir paragliding séu ekki á ferðamannastöðum heldur upp í sveit í litlum þorpum þar sem fáir eða enginn talar ensku og upp og ofan með netsamband sem reyndi oft á.

Haustið 2017 var komin bakpokaþreyta í Ágústu sem langaði að stoppa og koma sér fyrir á ákveðnum stað. Hún flutti á Reykhóla og hóf störf í þörungaverksmiðjunni á milli þess að ferðast, einkum til Suður og Mið-Ameríku. En þrátt fyrir þetta álag kláraði Ágústa BA-námið á fjórum árið og útskrifaðist árið 2018.

Píramídarnir í Egyptalandi með Hafdísi

Dauðsfall félaga mikið áfall

Á þessum árum varð Ágústa fyrir miklu áfalli þegar einn félagi hennar lést í keppni árið 2016. „Þetta er partur af lífinu og partur af því að stunda svona sport, fólk slasast og deyr. Sem er partur af svo mörgu sem við gerum reyndar. Það höfðu átt sér stað nokkuð mörg slys þetta sumar en þetta var samt mjög erfitt. Ég var nýlent því mér líkaði ekki við aðstæðurnar og var ein úti í einhverri fjallshlíð með þessum vini mínum því allir aðrir voru farnir.“ Ágústa horfi upp á vin sinna falla. Hann lést strax við höggið, flæktur í böndin og tré.

„Það var lengi að koma aðstoð, það var engin þyrla send, aðeins sjúkrabíll sem var mjög lengi á leiðinni. Það var ekkert sem ég gat gert annað en að bíða eftir hjálp.“

Á flugi í Nepal

Hún segir það vonda tilfinningu að bíða alein í klukkustund ein og reyna að sætta sig við að félagi hennar væri dáinn. „Ég endaði á að labba niður á veg til að kanna hvort sjúkrabíllinn hefði farið fram hjá. Ég vildi frekar bíða þar en hjá honum enda vissi ég að ég gæti ekkert gert.“

Slysið átti sér stað í Makedóníu þar sem hugsunin er allt öðruvísi og mikill menningarmunur. Ágústa Ýr var til dæmis spurð af því af hverju hún væri leið, því hún, sveitastelpan, væri jú vön að slátra kindum.

Á flugi í Makedóniu

Á krossgötum

„Ég þurfti að mæta fyrir dómara sem ekki talaði ensku en var með túlk. En túlkurinn kunni ekki tækniorðin það þurfti að kalla til annað til annan túlk fyrir þau. Þetta var allt mjög skrítið og sat lengi í mér. Slysið átti sinn þátt í að ég vissi alveg hvað ég myndi gera næst, ég vildi hægja á en samt ekki hætta. Ég var svolítið á krossgötum á þessum tíma en hélt þó áfram á hnefanum. Ég átti mig ekki á því fyrr en seinna hvað þetta hafði mikil áhrif á mig og leitaði þá mér hjálpar.“

Ágústa hafði nú lokið meistaragráðu í verkefnastjórnun, hana langaði aðhjálpa fólki að ná sínum markmiðum og skipuleggja sig. Á þeim tíma vann hún skrifstofustarf sem hún áttaði sig á að hentaði henni ekki vel. En mig langaði til að breyta til, fá frelsi.

Á leiðinni í flug í Makedóníu

„Það er munur á frelsi frá hlutunum og frelsi til hlutanna og það var það frelsi sem ég leitaði eftir.  Daglegur rekstur og endurtekning, litla breytingar, hentar mér ekki og ég fæ leið á því, þótt ég sé góð í því þegar ég þarf þess. Ég hef meiri þörf yfir sköpun, breytingar og finnst ótrúlega  gaman að sjá fólk ná sínum markmiðum eða sinna því sem það er að gera betur. “

Fræjunum var sáð

Ágústa íhugaði að fara í jógakennaranám en vildi halda áfram að stunda paragliding, enda stefndi hún að heimsmeistaratitlinum.

Hún fór þá að skoða markþjálfunarnám . „Mér fannst rétt og eðlilegt að allir fengi þjónustu í sinni heimabyggð. Þetta var fyrir Covid og aðeins örfáir farnir að tipla stóru tánni ofan í fjarráðgjöf, ólíkt því sem þekkist í dag. Ég leitaði að þessu frelsi til að geta látið gott af mér leiða, að geta nýtt prófgráðurnar mínar en jafnframt haft frelsi. Ég vildi fara meira inn í þennan heim. Fyrri lífsreynsla hafði sáð fræjunum, ég var ekki viss, en það heillaði mig að fara í þessa sjálfsþekkingarvinnu.“

Á ferðalagi með bakpokann í Víetnam 2011

Ágúst fór í grunnþjálfunina meðan á Covid var í gangi. „Fólk var að kynnast þessu en ég vildi að fólk fengi þessi þjónustu án tillits til staðsetningar,  ég er til dæmis með fólk í markþjálfun út um allan heim í dag og þótt það sé örlítið betra að vera með fólki er ekki það mikill munur að fjarþjálfa. Það er frábært að nota tæknina í þetta.“

Ágústa segir námið hafa verið erfitt, krefjandi, gefandi og frábært og hafði hún hugsað sér að flytja út að því loknu og sameina starf markþjálfa og áframhaldandi paragliding.

„Í maí var var ég nýhætt í vinnunni, bjó heima hjá mömmu og pabba og var að hjálpa til við sauðburðinn. Ég fór síðan út á land með nokkrum flugstrákum og þaðan á Íslandsmótið, um miðjan júní 2021. Og það var þá sem að allt breyttist. “

Unnið við að tengja rafmagnsskáp í Noregi

Slysið

Þann 20. júní 2021 lenti Ágústa Ýr í alvarlegu slysi í fluginu.

„Ég slasaðist á hálsi, fékk vægan heilaskaða, braut á mér bakið og skaddaði mænuna. Það þurfti að spengja bakið mitt og batahorfur voru í fullkominni óvissu, til dæmis hvort ég myndi geta notað fæturna aftur. Það var meira að segja umræða um hvort að þvagblaðran myndin nokkru sinni virka eins og áður og mér leist ekkert á þá hugsun að vera til dæmis uppi á fjalli og þurfa að setja í mig þvaglegg,“ segir Ágústa Ýr.

Viku eftir slys, nýkomin á Grensás úr Fossvoginum og Ágústa farin að átta sig á hvað sé í gangi

Þrátt fyrir að útlitið hafi verið svart þá er Ágústa Ýr á því að jákvætt hugarfar hennar hafi skipt miklu.

„Vinkonur mínar heimsóttu mig á spítalann daginn eftir aðgerð sem ég undirgekkst. Þær voru óskaplega stressaðar, enda segi ég alltaf að það er auðveldara að lenda í slysi en vera aðstandandi. Þær voru í sjokki en ég bara hlæjandi og reitandi af mér brandarana þótt ég væri hrikalega verkjuð og pumpuð upp af verkjalyfjum. Ég var alveg raunsæ á möguleikana en þetta hefði verið erfiðara ef ég væri sorgmædd og vonlaus yfir þessu öllu,“ segir Ágústa Ýr.

Á Grensás í göngugrind 3 vikum eftir slys

Hún segist vissulega hafa upplifað niðursveiflur en að þær hafi komið síðar.

„Maður fær ekki miklar upplýsingar í byrjun og ég tók eitt skref í einu. Hvenær er aðgerð? Og þegar hún var búin fór ég að spá hvenær ég fengi að komast inn á Grensás eða komast í sturtu.“

Eitt skref í einu

Strax eftir aðgerðina var hún tekin fram úr rúminu til að standa, tvisvar eða þrisvar á dag.

„Það var ógeðslega sárt en ég var ákveðin í að geta staðið sjálf og þrátt fyrir sársaukann bað ég um að fá að vera látin standa einu sinni enn á dag. Hugsunin á þessu tímapunkti náði ekki mikið út fyrir það hrikalega erfiða sem er í gangi á þeim tímapunkti. Maður var ekkert að hugsa ár fram í tímann. Ég ætlaði bara að gera allt sem ég þurfti til að ná bata og aðeins betur en það“

Á hækjum í búð 2 mánuðum eftir slys

Ágústa Ýr var loks lögð inn á Grensás og gekk þá á lækni um hverjar horfurnar væru fyrir hana.

„Hann sagði að ég myndi að öllum líkindum geta gengið en þá  með aðstoð hjálpartækja. Ég tók ekki illa í þá tilhugsun, það er alltaf hægt að finna leið til að ganga á fjall með hækju. En svo bætti hann við að í lengri gönguferðum gæti ég þurft hjólastól, eins og að fara í Kringluna. Mér fannst það hræðileg tilhugsun því ég hata að versla og það er ekki möguleiki  að ég væri á leið í Kringluna, hvað þá í hjólastól. Svona er hausinn á manni skrítinn,“ segir Ágústa og hlær.

Í upphafi var því álitið að Ágústa myndi ekki ná þeim bata sem hún hefur náð í dag.

Erna vinkona Ágústu kom 2 vikum eftir slys og hjálpaði henni að finna grasið á milli tánna. Göngugrindin er fyrir aftan og þessi mynd er mjög uppstillt

„Mér var sagt að ég gæti fundið mína íþrótt og jafnvel keppt á ólympíuleikum fatlaðra. En ég hef svo mikið keppnisskap að ég ákvað að þangað ætlaði ég ekki að fara. En svo hringdi ég hágrátandi í vinkonu mína og átti erfiða næstu daga í sjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfarinn minn spurði af hverju ég væri þetta leið og ég sagði henni frá samtalinu við lækninn en hún gaf lítið fyrir það og sagðist ekki hafa neina trú á að ég yrði þetta slæm. Og eftir það hætti ég svolítið að hugsa um þetta,“ segir Ágústa Ýr.

Útskriftin erfið

Ágústa segir að sér hafi reynst auðvelt að venjast því að vera á sjúkrastofnun eins og Grensás en þar dvaldi hún í fjóra og hálfan mánuð. Það hafi verið erfiðara að útskrifast því allt  í einu þurfti hún að fara í sjúkraþjálfun út í bæ sem er stórt stökk og krefst mikillar aðlögunar.“

Útskrift_úr framhaldsnámi hjá Profectus_30.apríl.2022.

Þrátt fyrir hinar upphaflegu hrakspár þá hafði Ágústa Ýr náð undraverðum bata og gekk útaf endurhæfingardeildinni með aðeins eina  hækju sér til stuðnings. Og í janúar 2022 var losaði hún sig alfarið við hækjuna.

„Það er alveg nóg vinna eftir í að ná fullum bata en þeir sem sjá mig öðru hvoru eða hluta úr degi átta sig ekki á því að ég er ennþá í endurhæfingu. Það opnaði augu mín fyrir hvað faldar fatlanir, sem maður heldur að maður viti eitthvað um, eru stór, en ósýnilegur, partur af lífinu. Maður áttar sig ekki á umfanginu fyrr en maður lendir í þessu sjálfur.”

Aldrei átt langan tíma í niðursveiflu

Sem dæmi nefnir Ágústa að fólk eigi það til að flauta á hana í óþolinmæði þegar hún sé lengi út úr bílnum sínum. „Annað get ég ekki gert, ég er lengi að. Það er ótrúlega þroskandi og gefandi að lenda í svona, mikið vaxtarferli. Auðvitað á maður sína erfiðu daga en ég held ég hafi aldrei átt langan tíma í niðursveiflu,“ segir hún.

Verðlaunapallur í Kólumbíu 2018.

Þó hafi komið vika um haustið eftir slysið þar sem hún var alveg tóm og gat ekki einu sinni grátið og eflaust eigi hún eftir að upplifa enn verri daga og vikur.

„En maður lærir einhvern veginn að fara í gegnum það. Það er erfitt fyrir ofvirka manneskju, eins og mig, sem þarf að alltaf að vera að gera eitthvað, og helst aðeins of mikið, að þurfa að velja um hvort ég fari í sjúkraþjálfun eða hitta litlu frænku mína. Allt í einu þarf maður að raða lífinu á orkuskala sem manni finnst fáránlegur þegar miðað er við að maður gerði alltaf það sem maður vildi. Ég er enn að læra á þetta og ætla mér stundum alltaf of mikið.“

Að spila á Indverska fiðlu

Ekki gáfulegt en nauðsynlegt

Ágústa hafði skráð sig í framhaldsnám  í markþjálfun sem átti að hefjast aðeins þremur mánuðum eftir slysið. Þrátt fyrir að vera í miðri endurhæfingu var hún ákveðin í að kýla á það.

„En mér var bent á þetta væru langir dagar og þrátt fyrir að ég væri lengi vel viss um að ég gæti þetta kom einhver rökhugsun í gegn sem sagði mér að sennilega væri gáfulegra að fresta þessu. “

Ágústa frestaði því náminu um eina önn en settist svo á skólabekk aðeins sjö mánuðum eftir slysið.

„En það að var mikill munur á mér frá byrjun námsins og þar til ég útskrifaðist í maí. Að fara í gegnum þetta stífa nám í miðju endurhæfingarferli var mjög gefandi. Þetta var kannski ekki það gáfulegasta en einmitt það sem ég þurfi. Þarna var ég stöðugt bæði að markþjálfa og fá markþjálfun, öll þessi vinna kallar á djúpa sjálfsskoðun sem gaf mér byr undir báða vængi að halda áfram, gefast ekki upp. Þetta er langhlaup og tími til að endurspegla sig.“

Hún útskrifaðist síðan sem markþjálfari og hefur hægt að rólega verið að taka við skjólstæðingum.

Á flugi í Frönsku ölpunum – Ágústa á fjólubláa og appelsínugula vængnum

„Ég hef ekki mikið verið að auglýsa mig og hef leyft hlutunum að gerast hægt og rólega. Eins og með allt, maður þarf að leyfa hlutunum að gerast. Þetta hefur gefið mér ákveðna ró en nú er ég með fólk með markþjálfun út um allan heim.“

Orðið nákvæmlega sama

Ágústa segist hafa lært mikið af slysinu og ferlinu öllu. „Eitt af þessu leiðinda kvótum, eins og mér leiðast klisjur, er samt svo rétt. Ég heyrði þetta alltaf á Grensás, hvort ég ætlaði að fara í gegnum þetta eða vaxa í gegnum þetta. Ég geri fátt í lífinu án þess að ætla að læra af því og þarna kviknaði lærdómsfíknin innra með mér. Ég vildi vaxa í gegnum þetta. Til þess þurfti ég að læra mikið um sjálfa mig og læra að skilja ýmislegt um sjálfa mig.“

Ágústa nefnir nokkur dæmi. „Ég þurfti að horfa í eigin barm um hvernig sjúklingur ég væri og hvernig ég bæði um aðstoð.“

Hún nefnir sem  dæmi um fyrsta skiptið sem hún keypti sér sundbol eftir slysið.

„Mér fannst mjög mikilvægt að örið á bakinu á mér sæist til að fólk vissi af hverju ég væri að labba svona asnalega.  Ég vildi að það vissi að það var eitthvað að mér. En það var ákveðið óöryggi, ég var að tryggja mig á einhver hátt með að sýna örið á bakinu. En nokkrum mánuðum seinna var mér orðið nákvæmlega sama, það skiptir mig engu máli hvað fólk hugsar.“

Ágústa elskar paraglide og ætlar sér einn góðan veðurdag upp í himininn

Stærsti lærdómurinn æðruleysi

Ágústa segir þetta hafa kennt sér, og sé enn að kenna sér, hver hún sé og hvað hún geti gert.

„Einn stærsti lærdómurinn hefur verið æðruleysi, hvernig skal halda ró sinni á erfiðum tímum. Hvernig maður hindrar að láta erfiða hluti fylgja sér. Þetta æðruleysi sem maður þarf á að halda þegar lífið er að gerast. Ég er enn að tékka mig af, halda aftur af mér og er búin að læra að vera ekki að svekkja mig ekki á hvað ég gerði ekki í dag heldur gleðjast yfir því sem ég gerði. Eins og flestir sem hafa gengið í gegnum stór áföll geta sagt þér, þá breytir þetta ásýnd manns á lífið. En það þarf ekki eitthvað stórt að gerast til að við lærum það.“

„Ég held að ég hefði aldrei lagt þetta mikið í síðustu tvö ár og komist jafn vel í gegnum þau nema af því að ég var búin að leggja inn vinnuna. Ég var búin að vera í sjálfsþekkingarvinnu í nokkur ár áður, var vakandi og farin að hugsa hlutina bæði vegna þess sem ég hafði lært, vegna sálfræðiaðstoðar og námsins. Ég var ekki lengur þessi áhyggjulausa 24 ára stelpa.“

Ágústa segist oft sitja og hlusta, spekúlera í hlutunum.

„En þessi síðustu tvö ár hafi sett ákveðin kraft í þetta sjálfsþekkingarferli.“

Sauðburður viðmiðið

„Lífið þarf ekki að vera í rugli til að fólk geri allt sitt til að leita sjálfshjálpar og sjálfsþekkingar. Lífið getur verið geggjað en það þarf alltaf að leggja inn vinnunna til að ná því besta fram.“

Hvernig er heilsufar Ágústu í dag?

„Ég er bærileg í dag . Ég fór á trampólín um síðustu helgi en komst reyndar að því að jafnvægið er enn í rugli. Ég geng mikið, hundinum mínum til mikillar ánægju, en styrkur, orka og almenn heilsa er ekki sú sama og ég get ekki gert sömu hluti fyrir slysið. Ég notaði reyndar sauðburðinn sem mælistiku. Ég fór í sauðburð vorið 2022 og svo aftur núna og það er svakalegur munir hvað ég hafði meiri orku og gat gert meira en árið áður. Nú er bara að sjá hvernig sauðburðurinn verður næsta vor,“  segir Ágústa og brosir.

Himnarnir kalla en

Hvað er fullur bati?

Hún segist oft spurð að því hvort hún muni ná fullum bata.

„Hvað er fullur bati? Ég get aldrei orðið annað en 100% ég. Þarf ég að hugsa öðruvísi um  heilsuna en áður? Já klárlega, en þetta er eins og með allt annað. Stöðug vinna upp á við. Án þess að fara í einhvern Pollýönnuleik, þá þarf ég að sýna mér mildi þegar ég fer í gegnum verkjaða daga og reyna að brosa. Það þarf að fara í gegnum erfiðu tímana líka en góðu stundirnar koma líka. Við þurfum að hafa vilja, tilfinningar og tengsl. Það er hægt að komast ákveðið langt á hnefanum en þá erum við eins og hamstur á hjóli.“

Flugtak á heimsmeistaramóti 2019. Ágústa stefndi á titilinn.

Kraftur í náttúrunni

Draumur Ágústu Ýrar er að komast aftur upp í háloftin og stunda aftur íþróttina sem hún elskar.

„Líkaminn er ekki nógu góður eins og er, ég er með verki í hálsi og baki en tek þetta skref fyrir skref. Ég hef verið að gröndla eins og það er kallað, að vera á jörðinni og lyfta vængjunum En ég ætla að fljúga aftur, hvort það verður jafn mikið eða hvort ég næ einhvern tíma að keppa verður að koma í ljós, en þangað til geri ég mitt besta.“

Hvaðan telur Ágústa að þessi kraftur og jákvæðni komið?

„Ég held að stórum hluta sé uppeldinu um að þakka, þessa nánu við náttúruna. Ég finn alltaf kraftinn koma þegar ég er úti í náttúrunni. Svo á ég góða fjölskyldu að auk þess að hafa bara verið alltaf svona. Ætli þetta sér ekki einhvers konar blanda að þessu,“ segir Ágústa.

Núna vil ég nota þennan kraft til hjálpar fólki, gera mitt í að breyta heiminum með því að þekkja fólki að þekkja sjálft sig. Og þótt það hjálpi jafnvel bara einni manneskju, þá er það þess virði,“ segir Ágústa Ýr Sveinsdóttir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Af hverju eigum við svona erfitt með að einbeita okkur?

Af hverju eigum við svona erfitt með að einbeita okkur?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ferðaðist til allra landa og var hrifinn af Íslandi – „Allt virkar og vegirnir eru í frábæru ástandi“

Ferðaðist til allra landa og var hrifinn af Íslandi – „Allt virkar og vegirnir eru í frábæru ástandi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kökusmakkari TikTok nýtur lífsins hérlendis – „Ég fokking elska þetta land“

Kökusmakkari TikTok nýtur lífsins hérlendis – „Ég fokking elska þetta land“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er ólög að fólk sem finnur einu leiðina til að bjarga lífi sínu sé að gera ólöglega hluti“

„Það er ólög að fólk sem finnur einu leiðina til að bjarga lífi sínu sé að gera ólöglega hluti“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Magnús vandar Vigdísi ekki kveðjurnar – „Heilt yfir verður serían þó að teljast vonbrigði“

Magnús vandar Vigdísi ekki kveðjurnar – „Heilt yfir verður serían þó að teljast vonbrigði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslenskir Eurovision-aðdáendur bregðast við útspili Ísraels – „Allt til að láta fólk gleyma því hver raunverulegu fórnarlömbin eru hérna“

Íslenskir Eurovision-aðdáendur bregðast við útspili Ísraels – „Allt til að láta fólk gleyma því hver raunverulegu fórnarlömbin eru hérna“