fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Hinterkaifeck morðin voru full grimmdar og haturs – Hver faldi sig á bænum og slátraði heilli fjölskyldu?

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Þriðjudaginn 13. júní 2023 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hinterkaifeck býlið var afskekkt og hálf dapurlegt heimili Viktoriu Gabriel og tveggja barna hennar, hinnar 7 ára gömlu Cäzilia og 2 ára Josef. Með í heimili voru einnig foreldrar Viktoriu, þau Andreas og Cäzilia eldri. 

Bær fjölskyldunnar var staðsett utan við bæinn Gröbern, i um klukkutíma aksturfjarlægð frá Munchen, en fjölskyldan hafði lítið samband við bæjarbúa og hélt sig að mestu út af fyrir sig. 

Hluti Gruber fjölskyldunnar.

Sýnin sem enn ásækir Þýskaland

Samt sem áður þótti einkennilegt þegar að Cäzilia litla mætti ekki í skóla í apríl 1922 auk þess sem enginn fjölskyldumeðlima mætti í messu næsta sunnudag. Þrátt fyrir einangrunina mættu þau þó alltaf í kirkju auk þess sem Viktoria söng í kórnum. Og eftir fjóra daga, þegar enginn fjölskyldumeðlima hafði einu sinni mætt á pósthúsið þar sem dagblöð og annar póstur hrúgaðist upp, var ákveðið að kanna hvort ekki væri allt í lagi á Hinterkaifeck býlinu. Það var bóndi í nágrenninu, Lorenz Schlittenbauer, sem leiddi hópinn.

Og það sem mætti Lorenz og félögum hans átti ekki aðeins eftir að ásækja þá til dauðadags, heldur ásækir það Þýskaland enn þann dag í dag. 

Í hlöðunni fundust fjögur lík undir hrúgum af heyi og höfðu þau öll verið barin til óbóta. Inni í húsinu fannst líkið af hinum tveggja ára gamla Josef og vinnukonunni, Mariu Baumgartner.

Þetta var fyrsti vinnudagur Mariu en síðasta vinnukona hafði sagt upp stöðu sinni þar sem hún var þess handviss að húsið, og býlið allt, væri andsetið. 

Býlið.

Stjórnlaust ofbeldi

Í skýrslum læknis kemur fram að Cäzilia eldri hafði verið barin sjö sinnum í höfuðið, það kröftuglega að höfuðkúpan gekk inn í heila, svo og kyrkt. Andlitið á Andreas manni hennar var óþekkjanlegt, svo illa hafði hann verið barinn. Viktoria var einnig höfuðkúpubrotin vegna barsmíða auk þess að hafa níu stungusár. Cäzilia yngri var kjálkabrotin af völdum barsmíða og voru andlit hennar og háls þakin stórum, opnum sárum. 

Talið var að Cäzilia eldri, Andreas og Viktoria hefðu látist fljótlega af völdum högga frá jarðhaka, sem allir bændur geymdu í hlöðum sínum, en að Cäzilia litla hafi aftur á móti lifaði í allt að hálfan sólarhring eftir árásina. Hafði hún rifið af sér stóran hluta hársins í örvæntingu sinni. 

Maria hafi látist af völdum barsmíða og Josef að öllum líkindum verið sofandi í rúmi sínu þegar hann var myrtur með þungu höggi i andlit. Bæði voru þau hulin, laki hafði verið hent yfir lík Mariu en Josef hafði á sér einn af kjólum móður sinnar. 

Ekkert dýranna á bænum hafði aftur á móti verið skaðað. Nema síður sé. Einhver hafði komið daglega, fram að líkfundinum, gefið þeim að borða, og meira að segja mjólkað kýrnar. 

Var einhver á háaloftinu?

Eitthvað furðulegt á seyði

Lögreglu grunaði fyrst að umrenningur eða einhver smáglæpamanna bæjarins væri sekur en eftir að hafa fundið mikið magn peninga í húsinu þótti sú kenning ólíkleg. Auk þess var ekki að sjá að við neinu hefði verið hreyft í húsinu. Morðinginn hafði ekki bara gefið dýrunum, hann hafi augljóslega snætt sjálfur í húsinu, eldað sér mat og kveikt í arninum. 

Þegar að vinnukonan fyrrverandi var yfirheyrð hélt hún því staðfastlega fram að húsið væri eitt draugabæli. Sagðist hún hafa heyrt furðuleg hljóð frá háaloftinu og alltaf haft þá tilfinningu að fylgst væri með henni. 

Andreas hafði sagt slíkt af og frá en hafði samt sem áður trúað nágranna fyrir því, nokkrum dögum fyrir morðin, að eitthvað furðulegt væri á seyði í húsinu. Hann hafði fundið dagblað, sem hann var ekki áskrifandi að, og séð fótspor í nýföllnum snjó og lágu þau frá húsinu og út í skóg. Í ofanálag hafði annar af tveimur húslyklum horfið en þeir héngu ávallt við útidyrnar. 

Allt virtist benda til þess að einhver ókunnugur hefði tekið sér búsetu á heimili fjölskyldunnar, jafnvel fyrir morðin. 

Lík Mariu og Josefs fundust inni.

Hinir grunuðu

Svo að segja allir karlmenn, sem tengdust fjölskyldunni á einhvern hátt, voru yfirheyrðir í framhaldinu. 

Viktoria hafði verið ekkja, hafði hún misst mann sinn í fyrri heimsstyrjöldinni, en enginn veit með vissu hver var faðir Josef litla. Það er enn þann dag í dag ráðgáta. Hún átti í ástarsambandi við fyrrnefndan Lorenz Schlittenbauer, sem hún sagði föður Josef og tók Lorenz undir það. Þau höfðu meira að segja rætt hjónaband en Andreas var mjög á móti sambandinu og hafði sitt fram. Sleit dóttir hans trúlofuninni við nágrannabóndann sem stuttu seinna giftist annarri konu og átti með henni barn sem lést stuttu eftir fæðingu.

Lorenz var sterklega grunaður um morðin. Kenningin var sú að hann hefði, sturlaður af sorg eftir dauða barns síns og þjakaður af meðlagsgreiðslum vegna Josef, myrt alla fjölskylduna í brjálæðiskasti. Þeir sem höfðu verið í hópi þeirra er fundu líkin sögðu Lorenz einnig hafa verið furðulega rólegan, þrátt fyrir hryllinginn sem mætti þeim, auk þess sem hann þekkti Hinterkaifeck býlið út og inn. 

En hann neitaði öllu og sagði hegðun sína hafa stafað af losti. Hefði hann verið sáttur við slit trúlofunar svo og meira en reiðubúinn í að greiða meðlag með syni sínum og hefði enga ástæðu haft til að vilja sjá fjölskylduna myrta. 

Lögregla trúði Lorenz og fór að kanna hvort möguleiki væri á að eiginmaður Viktoriu, Karl Gabriel, hefði eftir allt saman ekki látist á vígstöðvunum heldur snúið heim og myrt fjölskylduna. En sú kenning var slegin út af borðinu eftir að félagar Karls í hernum staðfestu lát hans. 

Líkin fundust undir hrúgum af heyi. Til hægri má sjá jarðhakann.

Enn önnur kenningin var að Josef væri í raun barn Andreas, sem hefði gerst sekur um sifjaspell gagnvart dóttur sinni. Hefði annað hvort þeirra verið það óttaslegið um að hið skelfilega leyndarmál spyrðist út að þau hefðu myrt aðra fjölskyldumeðlimi og svo snúið jarðhakanum að sjálfu sér. 

Reyndar var það staðreynd að pískur um sifjaspell, og aðra misnotkun, hafði lengið loðað við Andreas. Var sagt að hann hafði eignast fleiri börn með Cäziliu en aðeins Viktoria lifað af misþyrmingar fjölskylduföðurins. Hefðu önnur börn einfaldlega horfið.

Og það sem meira er, leyndarmálið var ekkert leyndarmál og höfðu bæði Andreas og Viktoria verið ákærð fyrir sifjaspell nokkrum árum áður. Hafði Andreas setið inni í ár en Viktoria í mánuð. Því vildu bæjarbúar litil sem engin samskipti við þau.  

Auk þess sagði læknir útilokað að einhver hefði getað veitt sjálfum sér þá áverka sem urðu þeim feðginunum að bana. 

Fjölskyldan var jarðsett höfuðlaus.

Sumir vita en flestir ekki

Hver myrti fjölskylduna? Það var augljóslega einhver sem rataði vel um býlið og vissi hvar allt var geymt, einhver sem hataði þau af ástríðu, eins og grimmd morðanna bar vitni um. En lögregla fann ekki þann einstakling og gafst á endanum upp. Líkin voru afhöfðuð og grafin en höfuðin send til Munchen til nánari rannsóknar, sem ekkert nýtt leiddi í ljós. Þær glötuðust einhvern tíma á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Býlið var rifið niður ári eftir morðin.

Málið var margoft tekið upp næstu 95 árin og fóru meira að segja miðlar á svæðið í leit að svörum. 

Síðast var málið tekið upp 2007 og gaf þýska lögreglan á endanum þá yfirlýsingu að ítarleg rannsókn hefði ekki orðið til þess að unnt væri að nafngreina morðingjann án nokkurs vafa. Aftur á móti væri lögregla með kenningu sem hún væri viss um að væri rétt. Sögðust yfirvöld vita nafn morðingjans en útlokað væri að sanna það. 

En sökum afar strangra laga um persónuvernd í Þýskalandi hefur nafnið aldrei verið gefið upp, af tillitsemi við eftirlifandi ættingja. Munu þeir hafa verið látnir vita af hinum morðóða forföður en það má teljast ólíklegt að almenningur muni nokkru sinni vita nafn Hinterkaifeck morðingjans. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“