Kvikmynda- og tónlistarmaðurinn Jamie Foxx veiktist illa þann 12. apríl síðastliðinn og hefur legið á spítala síðan. Foxx var við tökur á Netflix-kvikmyndinni Back in action ásamt leikkonunni Cameron Diaz þegar veikindin komu upp. Ekki liggur fyrir hvers eðlis þau eru en fjölskylda hans hefur varist fregna af því frá fyrsta degi.
Bandaríski slúðurmiðillinn TMZ birti í gær nöturlega frétt þar sem haft var eftir ónefndum aðilum tengdum Foxx að aðdáendur hans og vinir þyrftu að leggja á bæn vegna ástands hans.
Nokkrum klukkustundum síðar birti Foxx, eða aðili honum tengdur, yfirlýsingu á Instagram-síðu leikarans þar sem hann þakkaði fyrir allan hlýhuginn frá aðdáendum og að hann væri lukkunnar pamfíll.
Foxx hefur verið kynnir leikjaþáttarins Beat Shazam á sjónvarpsstöðinni Fox en dóttir hans, Corinne, hefur starfað sem plötusnúður þátttanna. Í tilkynningu frá Fox á dögunum var greint frá því að tónlistarmaðurinn Nick Cannon myndi leysa Foxx af hólmi sem kynnir þáttanna og að söngkonan Kelly Osbourne myndi taka við sem plötusnúður.