Hönnunarhjónin Hafsteinn Júlíusson og Karitas Sveinsdóttir, sem eiga og reka HAF STUDIO og HAF STORE hafa sett glæsilegt einbýlishús sitt við Laufásveg 25 á sölu. Húsið er sögufrægt hús í hjarta miðbæjarins, 199 fm hús á tveimur hæðum með geymslulofti og bílskúr. Húsið var byggt árið 1916 af Einari Arnórssyni ráðherra. Nóbelsskáldið Halldór Laxness bjó í húsinu á árunum 1930-1939 en á þeim árum skrifaði hann Heimsljós, Sölku Völku og Sjálfstætt fólk.
Á fyrstu hæð er forstofa, hol, rúmgóðar stofur, borðstofa og eldhús. Tveir inngangar eru á aðalhæðinni, aðalinngangur en einnig inngangur þar sem komið er beint inn úr bakgarði í eldhúsið, Þingholtsstrætis megin. Á efri hæðinni er svefnherbergisgangur, þrjú svefnherbergi og baðherbergi með tengi fyrir þvottavél og þurrkara. Einnig eru rúmgóðar svalir á hæðinni, til norðurs og einkar gott geymsluloft. Bílskúr er á lóð með aðgengi frá Þingholtsstræti, er hann skráður 25,6 fm.
Hjónin hönnuðu allar innréttingar í húsið og í eldhúsinu eru eikarfrontar frá HAF STUDIO á eldhúsinnréttingunni. Einstakur ítalskur marmari er á borðum og á vegg við eldavél. Í húsinu eru skrautlistar og rósettur.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.