fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Sigurlaug varð fyrir einelti af hálfu heils bæjarfélags – „Við fengum hótanir og ég var bæði útilokuð og lamin“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 14. maí 2023 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurlaug Steinunn Steinarsdóttir varð fyrir gríðarlegu einelti sem barn og unglingur, einelti sem heilt bæjarfélag tók þátt í. „Afleiðingar eineltisins fylgja mér enn og koma til með að vara alla ævi. Þær lýsa sér í sjálfsniðurbroti og sjálfsvígshugsunum og ég er öryrki í dag eftir langvarandi ofbeldi.

Einelti hefur áhrif á þolandann alla ævi.

Kerfið vissi ekki þá hvað átti að gera við börn í þessum aðstæðum og í raun hefur það engu meiri vitneskju um hvað gera eigi við börn í þessum aðstæðum í dag,“ segir Sigurlaug.

„Þetta hefur hefur ekkert breyst, maður vonaði það, en það breytist ekkert.“

Einelti, andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi hefur litað líf Sigurlaugur frá barnæsku og hún var innan við 12 ára gömul þegar hún hóf að íhuga sjálfsvíg.

Sigurlaug sem barn.

Var hótað með byssu

Það er ekki mjög langt síðan Sigurlaug fór að tala um það ofbeldi sem hún hefur orðið fyrir.

Meðal þess var kynferðisleg misnotkun af hópi manna í heimabæ hennar, Þorlákshöfn, frá níu ára aldri.

Sigurlaug var einnig í hjónabandi með manni sem beitti hana miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Þrátt fyrir að ofbeldið, en hann miðaði til að mynda tvisvar byssu á Sigurlaugu, fékk hann fulla forsjá yfir þremur börnum þeirra. Þessi sami maður var tvisvar sinnum kærður fyrir að misnota stjúpdóttur sína, elstu dóttur Sigurlaugar, auk þess að vera ákærður fyrir að misnota son sinn sem hann átti áður en samband hans og Sigurlaugar hófst.

Hann var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir alvarleg og endurtekin kynferðisbrot gagnvart drengnum en Landsréttur sneri þeim dómi við.

Grét af heimþrá

Sigurlaug ólst upp í Þorlákshöfn, eins og fyrr segir.

„Pabbi var á sjó og mamma var veik eftir langvarandi einelti og fór inn á geðdeild þegar ég var um fimm ára aldurinn. Og þá vorum við systurnar settar inn á sambýli fyrir fatlaða á Selfossi því það vissi enginn hvað átti að gera við okkur.

En ég var þar í stuttan tíma. Ég og bróðir minn vorum svo send í sveit í Gaulverjabæ og þar hóf ég mína skólagöngu.”

Fyrir Sigurlaugu er stór hluti þessa tíma í móðu.

„Ég man að mér leið illa á bænum en það skrítna er er að ég sótti alltaf í að fara þangað aftur. Það var eitthvað sem kallaði á mig þótt ég átti mig ekki á hvað það var. Kannski var það út af því að það voru börn á bænum og maður fékk að leika við krakkana, fara í Barbie og upplifa sig sem venjulegt barn.

Maður saknaði náttúrulega mömmu og pabba og ég grét af heimþrá. En það held ég að sé hverju barni eðlilegt undir slíkum kringumstæðum,“ segir Sigurlaug.

Sigurlaug á táningsárum.

Allt samfélagið tók þátt

Hún man ekki nákvæmlega eftir því hvenær eineltið byrjaði.

„Í minningunni byrjaði það smátt og smátt, sennilega um 8 ára aldurinn. Fyrst kom stríðni sem svo jókst, ég fór þá að að rífa kjaft á móti og þá fór eineltið virkilega á flug og ágerðist með árunum.

Og allt samfélagið tók þátt í því, bæði börn og fullorðnir.“

Sigurlaug segir stríðnina og eineltið hafa hafist út af foreldrum hennar. „Mamma mín hafði sjálf þurft að þola erfiða æsku og uppeldi og fékk aldrei þá aðstoð sem hún þurfti. Þegar engin aðstoð fæst, færist þetta oftar en ekki á milli kynslóða.

Pabbi var mikið úti á sjó en hann sagði mér það síðar að hann hefði lagt fram óformlega kæru á hendur skólanum.

Hann hafði heyrt af því að maður, sem var að ná í dóttur sína í skólann, sparkaði í höfuðið á systur minni. Hann talaði við skólastjórann sem sagði þetta allt í lagi, það væri verið að vinna að því að koma barninu í annan skóla. En kæran hefur aldrei fundist.“

Sigurlaug bætir við að faðir hennar hafi meint vel með kvörtuninni en því miður gert illt verra.

„Í kjölfarið varð allt brjálað í samfélaginu og það hófu allir að taka þátt í eineltinu, bæði fullorðnir og börn. Við fengum hótanir og ég var bæði útilokuð og lamin.“

Sigurlaug Steinunn

Var í leit að væntumþykju

Sjálf vissi Sigurlaug ekkert um hvernig bregðast skyldi við, enda barn að aldri.

„Ég fór til dæmis að stela. Ég held að ég hafi verið að leita að samþykki, væntumþykju og vinskap. Reyna að vera barnið sem maður vildi vera, kaupa sér vini og reyna að falla inn í hópinn.

Ný skólastjórn í Þorlákshöfn reyndi síðar að gera sitt besta en það vantaði, og vantar enn, svo mikið fjármagn inn í skólakerfið að það getur ekki virkað eins og það á að virka, þrátt fyrir góðan vilja.“

Sigurlaug segist vilja sjá sama lag haft á og tíðkast hjá grönnum okkur á Norðurlöndum. „Það á að vera sálfræðingur og námsráðgjafi í hverjum skóla og þau börn sem hafa greiningar þurfa einstakling sem aðeins sinnir þeim í stað þess að þeim sé skipt á milli barna með ólíkar þarfir.“

Sigurlaug Steinunn

Illa barin í rútunni

Sigurlaug var í 8. bekk þegar hún svo að segja alfarið hætti að mæta í skólann.

„Ég tók rútuna til Reykjavíkur og stoppaði yfirleitt á Rauðarárstíg og keypti mér sígarettur, þar nefnilega var eina sjoppan þar sem hægt var að kaupa sígarettur í lausu,“ rifjar Sigurlaug upp og hlær.

Sigurlaug byrjaði að reykja í kringum 12 ára aldurinn en hefur aldrei komið nálægt fíkniefnum.

„Einn daginn settist ég aftarlega í rútuna á heimleið, tyllti mér hjá stelpu sem ég kannaðist við, þegar að það réðist á mig hópur krakka úr Hlíðardalsskóla og barði mig afar illa. Allt út af einhverri unglingakjaftasögu. Pabbi og mamma vildu kæra og fara í skólann en ég neitaði.“

Aðspurð um af hverju hún hafi ekki vilja kæra segir Sigurlaug sig alltaf hafa getað horfst í augu við hlutina.

„Ég vildi reyndar fara í Hlíðardalsskóla, hef aldrei veigrað mér við að horfast í augu við hættur og var reyndar bara barinn þar einu sinni. Ég er bara þannig, get til dæmis ekki labbað á jafnsléttu ef ég get farið upp á við og þá helst klifið fjöll og firnindi.“

Hún bætir við að hún hafi reyndar verið rekin úr Hlíðardalsskólanum fyrir að reykja og rífa kjaft en verið slétt sama. Hún var andlega búin á því.

„Ég lifði en lifði ekki. Ég var eins og árabátur sem flýtur um án áranna. Það var hægt að  gera og segja allt við mig. Ég bara var.“

Sigurlaug Steinunn

Kynferðisleg misnotkun af hópi manna

Sigurlaug lenti líka í mjög alvarlegri kynferðislegri misnotkun sem hófst þegar hún var níu ára gömul.

„Þetta var hópur manna í Þorlákshöfn en ég sagði aldrei neinum frá. En foreldrar mínir tóku stundum eftir því að ég var oft með töluvert magn peninga á mér sem þessir menn létu mig fá.

Þegar að pabbi spurði út í þessa peningaeign sagði ég að þessi eða hinn maðurinn hefði gefið mér pening. Pabbi átt það til að fara og tala við viðkomandi til að fá skýringar en þeir lugu sig auðveldlega út úr því með að segja að ég hafi verið verið að hjálpa til við eitthvað eða annað slíkt.“

Sigurlaug segir að að sumu leyti hafi hún verið að leita í einhverja umhyggju, þótt sjúk væri

„Ég sótti í orðin sem ég þurfti að heyra, þessa blíðmælgi. Og bara faðmlög og snertingu, öll börn þurfa slíkt, en ég var ekki að upplifa þvílíkt heima hjá mér. Ég sótti líka í peningana og gjafirnar frá þessum mönnum, því þá gat ég stundum keypt mér félagsskap yngri barna með nammi.

Svo gáfu þeir mér oft að borða, mjög góðan mat sem ég elskaði, það var einhver huggun í honum.“

Sigurlaug Steinunn

Ólétt 16 ára

Misnotkunin hætti stuttu áður en Sigurlaug varð ófrísk, aðeins 16 ára gömul. Barnsfaðirinn var ári eldri og sambandinu í raun lokið.

Hún var 16 ára gömul þegar hún fæddi dóttur sína.

„Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara út í og fyrstu árin var tilfinningin eins og hún væri frekar systir mín en dóttir. Ég á mjög erfitt með að tengjast fólki og hef í raun alltaf átt erfitt með að tengjast jafnvel eigin börnum.“

Sigurlaug hefur þó aldrei formlega verið greind með tengslaröskun.

„Ég get verið með fólki en bara í smá tíma, þá dreg ég mig inn í skel mína.“

Vonaðist til að deyja í áreksti

Sigurlaug var 16 ára með nýfætt barn á miklu flakki fyrstu árin.

„Ég veit ekki hver ég var á þessum tíma og held ég hafi verið lengi mjög illa skemmd allt þar til ég fór á námskeið á Hvítabandinu fyrir um þremur til fjórum árum síðan og byrjaði að vinna úr þessu.“

En hún segir fyrstu tímana hafa verið mjög erfiða. Það hafi verið erfitt að rífa af plásturinn.

„Ég bý á Selfossi og þurfti því að keyra á milli. Það kom fyrir að ég fór úr öryggisbeltinu og ók á 120-130 kílómetra hraða í von um að einhver myndi missa stjórn á sínum bíl, væri kannski í sömu hugleiðingum og ég, og lenda á mér.

Sársaukinn við að opna sig var það mikill að mig langaði ekki til að takast á við hann.“

Sigurlaug bætir við að hún hafi beitt sjálfa sig ofbeldi til margra ára þegar henni leið illa en hún hafi ekki áttað sig á því fyrr en hún fór á Hvítabandið.

„Ef ég fékk tannpínu fór ég ekki til tannlæknis, ég fór og keypti mér nammi eða sætabrauð til að viðhalda tannpínunni og væri mér illt í maga eða höfði tók ég oft ekki verkjalyf heldur reyndi ég að viðhalda sársaukanum því hann var oft mun betri en þessi andlegi sársauki.

Það sem hjálpaði mér var Hvítabandið. Þar lærði ég að lifa án þess að lifa bara af.“

Sigurlaug Steinunn

Ofbeldið aldrei langt undan

Sigurlaugu þyrsti í ást og umhyggju og hélt að hún hefði fundið það þegar hún kynntist  fyrrverandi eiginmanni sínum, sem er henni 17 árum eldri. Hún var þá illa farin á sál og líkama.

„Þegar ég kynntist honum var ég afar illa farin og hann notfærði sér það hvað ég þráði að einhver elskaði mig. Hann hélt stundum utan um mig og sagði við mig fallega hluti, hluti sem enginn hafði sagt við mig áður. Ég hélt að loksins elskaði mig einhver.“

En ofbeldið var aldrei langt undan og hófst fyrir alvöru þegar hún varð ólétt að fyrsta barni þeirra af þremur. Það ágerðist síðan eftir því sem börnunum fjölgaði.

Hún segist ekki hafa tölu á skiptunum sem hann beitti hana ofbeldi eða hræddi hana með hótunum.

„Ofbeldið var bæði andlegt og líkamlegt. Hann ógnaði mér meðal annars með byssu og reyndi að keyra frænku mína niður sem var að reyna að hjálpa mér. Hann hótaði mér einnig alltaf með börnunum, að ég fengi aldrei börnin ef ég yfirgæfi hann, hefði ekkert við þau að gera.

En á þessum tíma fattaði ég ekki ástandið og var ekki tilbúin til að fara út úr þeim aðstæðum sem ég var í því ég taldi mig ekki eiga neitt annað skilið. Ég hélt ég hefði það gott.“

Sigurlaug Steinunn

Eins og að rétta alka flösku

Hjónabandið stóð í níu ár en þá sótti Sigurlaug um skilnað.

„Ég reyndi að fara í forsjármál við hann eftir dóminn og fór í viðtal hjá barnavernd. Ég sagði þeim að ég vissi að barnið svæfi uppi í hjá pabba sínum og konan sem ég talaði við svaraði með því að segja; „Já, við vitum það, og höfum beðið hann um að hætta því.“

„Það þótti mér þótti undarlegt svar og ég sagði við lögfræðinginn minn þegar við komum út að þetta væri eins og að rétta alka flösku og biðja hann um að drekka ekki. En lögfræðingurinn sem ég hafði sagði akkúrat ekki neitt við þessu öllu, ég var því miður ekki heppin með lögfræðinga.“

Svo fór að hann fékk forsjá barnanna árið 2007.

Maður sem er alkóhólisti, beitti mig grófu ofbeldi, niðurlægði mig, ógnaði mér með byssu.

Slíkur maður var talinn hæfari því hann var með betri lögfræðinga en ég og barnavernd trúði hverju orði sem hann sagði. Ég var líka skert og skemmd út af langvarandi ofbeldi,“ segir Sigurlaug.

„Reyndar hefur mamma hans að stórum hluta alið börnin upp, ekki hann,“ bætir hún við.

Fyrrverandi maður hennar var tvisvar kærður fyrir að misnota stjúpdóttur sína, dóttur Sigurlaugar, eins og fyrr segir, og dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn syni sínum. Landsréttur sneri þeim dómi síðan við.

Sigurlaug Steinunn

Eins og það væri mér að kenna að ég var lamin

Sigurlaug er aðeins i samskiptum við yngsta barnið sitt af þeim þremur sem hún missti.

„Hin tvö vilja ekki tala við mig því það er búið að segja þeim að það sé mér að kenna að pabbi þeirra var ákærður. Ég á líka víst að hafa valdið þeim Stockholm syndrome““ meðan þau voru hjá mér,” segir hún kaldhæðnislega.

Sigurlaug er einnig ósátt við lögfræðingurinn sem var lögfræðingur fyrrverandi manns hennar, hafi einnig verið að vinna að máli fyrir systur hennar.

„Það var hreinn og klár hagsmunaárekstur því hún notaði gegn mér gögn sem hún hafði undir höndum vegna máls systur minnar. Þessi lögfræðingur fer alltaf bakdyramegin í öllu sem hún gerir og minn lögfræðingur var dauðhræddur við hana.“

Sigurlaugu sárnar að hafa misst forræði yfir börnum sínum á þeim forsendum að vera of illa farin eftir langvarandi ofbeldi. Og það til mannsins sem beitti hana hvað mesta ofbeldinu.

„Mér leið eins og dómarinn væri að segja við mig að það væri mér að kenna að ég var lamin og ætti því ekki skilið að hafa börnin mín.“

Sigurlaug Steinunn

Andlegi sársaukinn hverfur aldrei 

Sigurlaug segir að persónulega finnist henni andlega ofbeldið sitja mun meira í sér en það líkamlega.

„Ég er í raun eins og pappaspjald sem er búið að hrækja á og rífa í sundur, búa til kúlu og kasta í skítinn. Líkamlegu sárin gróa en andlegi sársaukinn hverfur ekki. Og það kallar á þunglyndislyf og reyndar alls konar lyf, maður þarf til sálfræðings og leita sér allt kyns aðstoðar sem kostar stórfé sem maður situr uppi með sjálfur.

Ef þú vilt gera eitthvað til að fá hjálp þarftu að vera á mjög góðum launum, helst bankastjóralaunum, í heilbrigðiskerfinu okkar.“

Sigurlaug er í 30% vinnu. Hún segist ávallt setja upp grímu í vinnunni, þ.e. ekki vera hún sjálf.

„Ég get ekki verið ég því ég veit ekki hver ég er. Það var eyðilagt fyrir mér. Ég fékk aldrei að mótast sem einstaklingur og það eru bara þrjú eða fjögur ár síðan ég hætti að reyna sjálfsvíg.“

Sigurlaug Steinunn

Enginn tekur ábyrgð

„Í Ölfusi tók allt samfélagið þátt í ofbeldinu á mér. Ég veit að kennari hringdi í móður stúlku sem ég var stundum með og varaði hana við mér, sagði henni að halda dóttur sinni frá mér.

Ég átti víst að vera farin að reykja og drekka og því vondur félagsskapur. Svo allt samfélagið tók þátt í þessu, jafnvel skólinn.

En í dag er þetta allt fyrnt og mér sárnar að enginn þurfi að taka ábyrgð á hvernig komið var fram við mig. Mér finnst til dæmis að Ölfus skuldi mér alla þá sálfræðitíma sem ég hef þurft að fara i og öll þau lyf sem ég hef þurft á að halda en aðallega skulda þeir mér börnin mín.

Börnin mín þrjú sem sveitarfélagið tók af mér.“

Sigurlaug fór fram á að fá  gögnin um sjálfa sig en fékk aðeins brotabrot þeirra.

„Skýringin var sú að þar væri svo mikið rætt um systkini mín að ég mætti ekki fá þau vegna laga um persónuvernd. En ég á rétt á að fá gögnin, sé búið að strika út nöfn þeirra, en ég fékk þau samt ekki.“

Sigurlaug Steinunn

Sakna barnanna mikið

Sigurlaug á góðan eiginmann í dag sem styður hana og einnig hefur hún stuðning elstu dóttur sinnar og vinkvenna.

„En ég sakna hinna barnanna minna mikið og stundum fæ ég köst þar sem ég hata heiminn og allt sem í honum er. Þá daga er erfitt að fara fram úr.“

En Sigurlaug segist neita að vera hrædd lengur.

„Við þurfum að standa upp og setja hnefann í borðið. Bæði ég og fleiri sem ég þekki teljum rétt að fara í mál en við höfum verið of hrædd við kerfið auk þess það er útilokað fyrir venjulegt fólk að standa undir kostnaðinum.“

Hún vildi fara í mál við sveitarfélagið og talaði við lögfræðing. En sá sagði málið fyrnt og ætti hún frekar að tala við fjölmiðla eða skrifa bók.

„En það er búið að gefa út bók fyrir mína hönd, og það er saga Thelmu Ásdísardóttur því mín saga er afar keimlík hennar. Bara aðrir gerendur,“ segir Sigurlaug.

„Hafnarfjörður skuldar þeim systrum milljónir og Ölfus skuldar mér. Það vissu allir af þessu skelfilega ofbeldi en litu undan og þögðu. Og þetta er enn að gerast. Við erum ekki komin lengra en þetta.

Ég er svo reið út í kerfið því það virkar bara ekki.“

Sigurlaug Steinunn

Var kölluð þroskaheft

Það var barið inn í Sigurlaugu í gegnum alla hennar tíð að hún gæti ekki lært, væri of heimsk og vitlaus.

„Ég var kölluð  þroskaheft og ég veit ekki hvað og hvað. Eiginlega er makalaust að ég geti rataði ein til Reykjavíkur,“ segir hún og hristir höfuðið hlæjandi.

„En ég er í dag menntuð sem stuðningsfulltrúi, leikskólaliði og félagsliði. Ég fór í stuðningsfulltrúanámið rétt eftir að ég fékk slæmt taugaáfall, ég hreinlega hrundi, og skil stundum ekki hvernig ég komst í gegnum námið. En það tókst.“

Sigurlaug segir líka vera að finna fallegar sögur inn á milli. „Þegar erfiðleikarnir steðja að reyni ég að minnast þeirra. Maður horfir því miður of oft niður á sjálfan sig, talar sig niður.“

Hún segist í heildina á litið vera á mjög góðum stað en fá enn köst.

„Þau lýsa sér í stoðkerfisverkjum, sem sennilegast er gigt. Ég kemst að hjá gigtarlækni í næsta mánuði sem vonandi hjálpar. En þegar ég dett í þessa verki, sem standa frá þremur dögum og upp í viku, fæ ég líka þunglyndi.

Ég get ekki eldað mat né sinnt heimilinu, ég horfi bara á sjónvarp og lokast af í eigin heimi. Það sem er svo erfitt við svona andlega sjúkdóma er að maður ber þá ekki utan á sér og þá er kannski erfiðara fyrir annað fólk að skilja líðanina.“

Sigurlaug Steinunn

Vil frá réttlæti

En Sigurlaug neitar að gefast upp, neitar að sitja undir frekara ofbeldi og kallar eftir réttlæti.

„Við erum vel efnuð þjóð sem getum séð um fólkið okkar. Mér leiðist til dæmis þessi frasi um að við eigum að sinna eigin öryrkjum frekar en flóttafólki. Það er ekki hægt að bera þetta saman. Við, sem samfélag, getum vel hugsað prýðilega um báða þessa hópa. Við getum séð vel um allt okkar fólk en kjósum að gera það ekki og ójöfnuðurinn er ævintýralegur.“

Hverju kallar Sigurlaug eftir?

„Ég vil fá greiddan þann kostnað sem ég þurfti að greiða úr eigin vasa. Ég vil fá þær skaðabætur sem ég á rétt á og ég vil ekki að neinn þurfi að ganga í gegnum það sama og ég. Ég vil aukið fjármagn inn í skólakerfið til að það sé í alvöru komið í veg fyrir einelti og ég vil sjá kerfið taka ábyrgð á sínum gjörðum. Og síðast en ekki síst að fólk stígi fram með sögur sínar,“ segir Sigurlaug Steinunn Steinarsdóttir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nadine ekkert sérstaklega sátt við eiginmanninn sem gleymdi hvenær hún á afmæli

Nadine ekkert sérstaklega sátt við eiginmanninn sem gleymdi hvenær hún á afmæli
Fókus
Fyrir 3 dögum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Ég vissi alltaf að þetta væri ekki eðlilegt, það væri eitthvað að“

„Ég vissi alltaf að þetta væri ekki eðlilegt, það væri eitthvað að“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Jóhannes Þór fékk stórskrýtna sendingu frá Reykjavíkurflugvelli – „Hvar fær maður svona“

Jóhannes Þór fékk stórskrýtna sendingu frá Reykjavíkurflugvelli – „Hvar fær maður svona“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kári skrifar Ragnari skjálfta bréf – „Ef ég man rétt tókst okkur ekki að stöðva stríðið í Víetnam“

Kári skrifar Ragnari skjálfta bréf – „Ef ég man rétt tókst okkur ekki að stöðva stríðið í Víetnam“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Ellý segir gjaldþrotin og erfiðleika hafa gert sig sterkari – „ Ég vel að vera ljón og vera sterk“

Ellý segir gjaldþrotin og erfiðleika hafa gert sig sterkari – „ Ég vel að vera ljón og vera sterk“