Arnar Gauti Sverrisson er spenntur fyrir nýjasta verkefni sínu, að endurlífga veitingastaðinn Punk við Hverfisgötu 20 í Reykjavík.
„Stórfengilega gaman að vinna að þessu verkefni með 2 vinum sem nýlega festu kaup á Punk Restaurant. Þetta er áhugavert ferðalag og þessi frábæri veitingastaður er búinn að vera gjörsamlega smekkfullur alla helgina og ég hefði ekki getið fundið sæti til að tilla mér og fá mér eins og einn Egils Kristal. Þetta snýst alltaf jú um upplifun fyrir gesti. Það er gaman að vera orðinn Punk ari,“ segir Arnar Gauti um nýja verkefnið.
Ásgeir Kolbeinsson fjölmiðlamaður opnaði Punk árið 2019, en nýir eigendur eru Guðmundur Andri Guðmundsson og Guðbergur Erlendsson. Punk er ekki fyrsti veitingastaðurinn sem Arnar Gauti tekur í gegn, fyrir nokkru tók hann sem dæmi American Style í Skipholti í gagngerar endurbætur og veitingastaðinn Lilbrary i Reykjanesbæ.
„Tveir góðir vinir mínir eignuðust Punk á Hverfisgötu frekar óvænt nýlega og nálguðust mig með það í huga að hjálpa þeim að þróa verkefnið og staðinn áfram. Fyrri eigendur höfðu misst staðinn í þrot en ástæða þess var tvíþætt,“ segir Arnar Gauti í viðtali við Mbl.is, en framkvæmdir við götuna og heimsfaraldur höfðu sín áhrif. Staðurinn fór því í gjaldþrot og lokaði í tvær vikur en nýir eigendur keyptu staðinn.
„Þrátt fyrir að hafa hannað og komið að nokkrum öðrum veitingastöðum þá er ég meira tengdur Punk og eigendum staðarins og er því í essinu mínu þessa dagana. Ég fer fyrir nýjum eigendahóp og mínar hugmyndir um staðinn fara afar vel saman við hugmyndir þeirra svo þetta er mjög skemmtilegt verkefni. Það tókst að ráða allt starfsfólkið aftur og nú er verið að gera vinsælan veitingastað ennþá betri, þróa matseðil, drykki, stemningu og hönnun áfram. Staðurinn fylltist aftur strax eftir að hann opnaði sem við erum ákaflega þakklát fyrir en það kom okkur ekki á óvart því hann er hreint út sagt frábær“ segir Arnar Gauti. Hann hrósar yfirkokki staðarins, Bjart Elí Friðþjófssyni, og segir hann hafa búið til geggjaðan matseðil sem viðskiptavinir hafi verið ánægðir með.
Lesa má viðtalið við Arnar Gauta í heild sinni hér.