Það var páskadagur í borginni Hamilton í Ohio árið 1975. Samkvæmt bandarískum hefðum skoppuðu börn um úti í leit að földum eggjum á meðan foreldrar stóðu vaktina heima við að undirbúa páskasteikina. Þannig átti dagurinn líka að vera, samvera með fjölskyldu. En hjá Ruppert fjölskyldunni átti þetta eftir að snúast upp í andhverfu sína.
Um kvöldið barst lögreglunni símtal. Sá sem hringdi, Jimmy Ruppert, tautaði setninguna: „Skotárás átti sér stað“.
Lögreglan flýtti sér að heimili Jimmys en þeim óraði þá ekki fyrir því sem beið þeirra. Ruppert tók á móti þeim, klæddur í spariföt og páskalega gula skyrtu, fatnaður sem hefði verið snyrtilegur ef ekki væri fyrir blóðsletturnar. Þegar lögreglan kom inn á heimilið gerðu þeir sér grein fyrir að hér væri ekki um skotárás að ræða heldur blóðbað.
_____________________
Jimmy, eða James Urban Ruppert, fæddist í mars árið 1934 og var rétt rúmlega fertugur þennan blóðuga páskadag. Hann hafði ekki átt sjö daganna sæla. Móðir hans, Charity, var dugleg að minna hann á að hann væri „mistök“ þar sem hana hefði dreymt um að eignast dóttur. Faðir hans, Leonard, var ofbeldisfullur og skapstór og hafði litla þolinmæði fyrir Jimmy og eldri bróður hans, Leonard yngri.
Þegar Leonard eldri féll frá olli það fjölskyldunni engri sérstakri sorg. Hans var ekki saknað. En þrautagöngu Jimmy lauk þó ekki þá þar sem Leonard yngri hafði gaman að því að leggja yngri bróður sinn í einelti, enda lá Jimmy vel við höggi, ef svo óheppilega má komast að orði. Jimmy var minni en bróðir sinn, átti fáa vini og stóð sig illa í skóla.
Hann flosnaði upp úr háskólanámi eftir bara tvö ár á meðan Leonard kláraði rafmagnsverkfræði og skaraði frammúr í íþróttum. Jimmy hataði eldri bróður sinn og ekki batnaði ástandið þegar Leonard giftist einni af þeim fáu konum sem hafði litið við yngri bróður hans og átti með henni átta börn.
Leonard hafði allt. Konuna, stóru fjölskylduna, frábæra vinnu og var vinamargur. Leonard var hins vegar, árið 1975, atvinnulaus og bjó enn með móður sinni. Hann þurfti að reiða sig á móður sína og eldri bróður fyrir framfærslu og varði kvöldum sínum á barnum í hverfinu þar sem hann drekkti sorgum sínum.
Í aðdraganda páskanna hafði móðir hans fengið nóg. Hún skipaði Jimmy að taka sig saman í andlitinu og flytja að heiman. Þetta lagðist illa í Jimmy sem hafði alla tíð glímt við ofsóknarbrjálæði. Hann fór að trúa því að móðir hans og bróðir væru að segja alríkislögreglunni að hann væri samkynhneigður kommúnisti og eins óttaðist hann sem dæmi að bróðir hans hefði komið fyrir gildrum í bíl hans sem var að gerðinni Volkswagen.
Hann hataði að hafa alla tíð verið í skugga eldri bróður síns.
Daginn eftir fór hann að vanda á barinn. Þar spurði barþjónninn hvort Jimmy væri búinn finna út úr þeim erjum sem hann átti í við móður sína. „Ekki sem stendur,“ var svarið.
Hann ráfaði heim um þrjú leytið um nóttina og vaknaði timbraður á páskadag um fjögur þegar bróðir hans mætti með fjölskyldu sína til að fagna páskunum. Móðir Jimmy hafði undirbúið páskeggjaleit fyrir barnabörnin sem vörðu næsta klukkutímanum í garðinum að leita.
Um fimm dröslaði Jimmy sér á fætur til að heilsa upp á fjölskylduna. Móðir hans stóð við eldavélina. Leonard spurði Jimmy þá einfaldrar spurningar: „Hvernig er Volkswagen-inn?“
Jimmy starði á bróður sinn áður en hann rauk aftur upp í herbergi sitt.
Klukkan sex voru öll átta börn Leonards aftur komin inn. Fullorðna fólkið og nokkur barnanna komu saman í eldhúsinu á meðan restin lét fara vel um sig í stofunni.
Þá kom Jimmy aftur, vopnaður fjórum byssum.
Hann fór fyrst inn í eldhús og byrjaði strax að skjóta. Leonard féll fyrstur, síðan kona hans og því næst móðir hans. Næst voru það þrjú barnanna, Ann-12 ára, David-11 ára og Theresa sem var 9 ára.
Næst fór Jimmy í stofuna. Þar skaut hann fyrst elsta frænda sinn, hinn 17 ára Leonard, og síðan settist hann á sófann á meðan hann skaut restina af börnunum. Michael-16 ára, Tommy-14 ára, Carol-13 ára og John-4 ára.
Jimmy beitti þeirri aðferð að skjóta fyrsta skoti til að fella þau niður og því næst gekk hann að hverju og einu og skaut í höfuð eða hjartastað. Síðan slappaði hann af í þrjár klukkustundir áður en hann hringdi í lögregluna.
Lögregla og viðragðsaðilar fengu áfall við aðkomuna. Ellefu látnir, þar af átta börn.
Jimmy var handtekinn og kærður fyrir ódæðið. Hann bar því við að hann væri ósakhæfur vegna andlegra veikinda, nokkuð sem saksóknarar börðust hart gegn þar sem ef dómari kæmist að þeirri niðurstöðu, að Jimmy væri ósakhæfur, þá myndi hann erfa fjölskyldu sína.
Að lokum var Jimmy sakfelldur fyrir 11 morð og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann áfrýjað dóminum og árið 1982 var hann sakfelldur fyrir að myrða móður sína og bróður en hins vegar sýknaður af hinum morðunum vegna ósakhæfis. Þetta breytti þó ekki refsingunni sem áfram var fangelsi til lífstíðar. Jimmy var neitað um reynslulausn árið 2015 og situr enn, nú á níræðisaldri, í fangelsi.
Þeir sem sáu vettvang ódæðisins áttu erfitt með að gleyma því. Einn þeirra var saksóknarinn John Holcomb sem greindi frá því hvernig blóðið lak milli þilja og niður í kjallara. Hann sagði í samtali við blaðamann morðingjann vera „óskammfelldin heigul“ og að ef réttlætinu yrði fullnægt þá myndi maðurinn sem eyðilagði páskana deyja í fangaklefa.
Ári eftir blóðbaðið var húsið opnað almennningi og innbúið selt á uppboði. Teppi voru lögð yfir blóðugt gólfið eftir að tilraunir til að afmá ummerkin báru ekki árangur. Húsið var svo leigt út til fjölskyldu sem var nýflutt á svæðið. Þeim var ekki greint frá því hvað hefði átt sér stað.
Þau fluttu fljótlega aftur út. Þau greindu í kjölfarið frá því að hafa heyrt óútskýranleg hljóð og raddir. Ljósin áttu það til að blikka, hurðir skelltu sér og svo heyrðist fótartak frá stiganum án þess að nokkur væri þar.
Þau voru ekki fyrst til að flýja húsið. Fjöldi annara fjölskyldna áttu eftir að koma og fara, og entist engin þeirra lengi. Allar greindu frá dularfullum hljóðum og röddum sem ekki var hægt að útskýra.
Húsið stóð svo autt í þó nokkur ár. Næsta fjölskylda sem flutti inn tók ekki eftir neinu óeðlilegu og telja þeir sem trúa á hið yfirnáttulega að Ruppert fjölskyldan hvíli nú loks í friði.