Einu sinni, fyrir langa, langa löngu, var uppi greifynja í Rússlandi. Greifynjan hét Darya Nikolayevna Saltykova, en var kölluð Saltichikha.
Saltichikha, sem tilheyrði rússneska aðlinum, fæddist 3. nóvember árið 1730 en árið 1757 umbreyttist þessi hefðarfrú svo um munaði og verður það reifað hér síðar.
Víkjum fyrst örlítið að forsögunni. Ættarnafn Daryu var Ivanova og fjölskylda hennar var vel tengd inn í efstu stéttir Rússlands þess tíma. Ung að aldri giftist Darya Gleb nokkrum Saltykov sem vissi ekki aura sinna tal.
Þegar Darya var 26 ára féll Gleb frá og varð hún þá auðugasta ekkjan í Moskvu. Á meðal þess sem féll Daryu í skaut var Troitskoe, ægifagurt óðal ekki langt frá Moskvu, og þar bjó greifynjan ásamt tveimur ungum sonum sínum. Undir hæl hennar voru yfir 600 leiguliðar.
Greifynjan varð auðugasta ekkja Moskvu 26 ára að aldri.
Um svipað leyti varð þessi auðuga greifynja að blóðþyrstum og miskunnarlausum morðingja.
Ungur elskhugi
Áður en eiginmaður Daryu safnaðist til feðra sinna hafði hún í sjálfu sér ekki vakið mikla athygli, en eftir því var tekið að hún virtist niðurdregin flestum stundum. Hún var afar trúuð og hafði látið heilmikið fé af hendi rakna til hvort tveggja kirkja og klaustra.
Einn góðan veðurdag hitti Darya ungan og myndarlegan mann, Nikolay Tyutchev, og tóku þau upp samband. Léttist þá brúnin á greifynjunni sem hafði fundið til einmanaleika og að auki fundist sem aldurinn væri að færast yfir hana.
En Nikolay var ekki allur þar sem hann var séður því innan skamms komst Darya að því að hann hafði hitt aðra, og yngri, konu og gott betur, því þau höfðu gengið í hjónaband á laun.
Reið og smáð ekkja
Nú, Darya hreinlega trompaðist og gekk nánast af Nikolay, þeim ótrygga elskhuga, dauðum. Hann slapp með lífstóruna og ungu hjónin flúðu til ættingja sinna í Moskvu. Sennilega fannst þeim þau þó ekki nógu langt frá Daryu því þau biðu ekki boðanna og yfirgáfu landshlutann. Ljóst var að Darya gat ekki látið bræði sína bitna á þeim þaðan í frá.
Einhvers staðar varð ekkjan smáða að fá útrás og hún leitaði ekki langt yfir skammt. Leiguliðar Daryu fóru nú margir hverjir að finna fyrir reiði hennar og sérstaklega konur. Því yngri sem konurnar voru þeim mun meira hataði greifynjan þær.
Engrar miskunnar var að vænta af hálfu Daryu sem leit á allar konur sem keppinauta sína.
Barsmíðar og beinbrot
Jafnvel börn kvennanna fóru ekki varhluta af takmarkalausu hatri Daryu. Hún pyntaði börn og barnshafandi konur til dauða með barsmíðum. Bein voru brotin og konum og börnum hent nöktum út í brunagadd. Darya hellti sjóðandi vatni á fórnarlömb sín og virtist sem hugmyndaauðgi hennar varðandi pyntingar engin takmörk sett.
Karlmenn virtust hólpnir því Darya, nánast fyrir slysni, varð aðeins þremur að bana. Þeir voru þó einnig útsettir fyrir pyntingum og áttu helst á hættu að missa konur og börn sem þeir elskuðu. Segir sagan að einn leiguliði hafi misst þrjár eiginkonur sínar, eina af annarri, í gegnum tíðina.
Pyntingar og dauði
Erfitt var að henda reiður á Daryu og grimmd hennar og hvað hugsanlega myndi trylla hana. Til að byrja með virtist henni nægja að kasta eldivið í þjónustustúlkurnar og ástæðan var kannski sú að hún var óánægð með hvernig þær sinntu vinnu sinni, við þrif eða annað.
Svipan á lofti Konum og stúlkum úr röðum leiguliða Daryu varð ekki öllum lífs auðið.
Síðan færðist vonska Daryu upp á annað stig og hún greip til svipunnar og pyntaði stúlkur og konur til dauða. Virtist hún fá mikla ánægju út úr því að beita taumlausu líkamlegu ofbeldi.
Vissulega bárust yfirvöldum fréttir af tíðum dauðsföllum á setri Daryu og leiguliðar lögðu fram kvartanir. Það eina sem þeir sem kvörtuðu höfðu upp úr krafsinu var refsing þeim sjálfum til handa, enda var greifynjan vel tengd valdhöfum.
Katrín mikla grípur í taumana
Sumarið 1762 flúðu tveir leiguliðar, Sakhvely Martynov og Ermolay Ilyin, og komust til St. Pétursborgar. Ermolay Ilyin var einmitt sá leiguliði sem misst hafði þrjár eiginkonur vegna grimmdar Daryu, eins og drepið er á framar í greininni.
Þeim tókst að koma umkvörtunum sínum á framfæri við Katrínu II keisaraynju, gjarna nefnd Katrín mikla, sem skoraðist ekki undan því að láta rannsaka málið. Þetta sama ár var Darya Saltykova handtekin og var í haldi í um sex ára skeið á meðan yfirvöld fóru í saumana á því sem hafði gengið á á setri hennar.
Engin iðrun
Rannsóknin var þungur róður fyrir þá sem sáu um hana því leiguliðar Daryu voru of hræddir til að tjá sig, en rannsakendur gáfust ekki upp. Strax var talið ljóst að Darya var ekki veik á geði, en hún iðraðist ekki gjörða sinna og jafnvel prestur einn sem átti að fá hana til að játa á sig glæpina fékk ekki orð upp úr henni.
Á öllu fasi Daryu var ljóst að hún var þess fullviss að henni yrði ekki refsað. Þegar upp var staðið var Darya ákærð fyrir morð á aðeins 38 konum og stúlkum.
Reyndar var það niðurstaða rannsakenda að Darya hefði á sex til sjö ára tímabili myrt með hinum ýmsu aðferðum 139 manns, þar af þrjá karlmenn. Yngstu fórnarlömbin voru 10–12 ára stúlkur.
Alræmt klaustur
Réttarhöldin yfir Daryu voru opin enda vildi Katrín mikla undirstrika að lög og réttur voru henni mikilvæg. Þegar upp var staðið var Darya sakfelld fyrir 38 morð þrátt fyrir að víst væri að þau hefðu verið 100 fleiri.
Ivanovski-klaustrið. Dyflissa í klaustrinu var prísund Daryu.
Katrínu miklu var þó vandi á höndum því dauðarefsing hafði verið afnumin í landinu 1754 og hún, sem nýbúin var að taka við stjórnartaumunum, þarfnaðist stuðnings aðalsins. Niðurstaðan var að Darya Saltykova fékk lífstíðardóm sem hún skyldi afplána í Ivanovsky-klaustrinu í Moskvu, sem reyndar var alræmt enda oft notað sem prísund fyrir konur úr aðalstétt, sem höfðu vakið athygli leyniþjónustunnar fyrir óæskilegar stjórnmálaskoðanir eða glæpi. Voru þær þá sendar í klaustrið undir því yfirskini að þær væru geðsjúkar. Naut klaustrið góðs af þessu hlutverki enda létu ættingjar umræddra kvenna ríkulegar gjafir renna til þess fyrir vikið.
Eilíft myrkur
Í kjölfar dómsuppkvaðningar var greifynjan færð út á Rauða torg þar sem hún var hýdd og hánuð. Um háls hennar hékk skilti sem á stóð: Þessi kona hefur pyntað og myrt.
Síðan var farið með Daryu í klaustrið og dvölin þar var enginn dans á rósum. Henni var úthlutuð gluggalaus dýflyssa í iðrum klaustursins og var hennar gætt allan sólarhringinn. Henni var færður matur og fékk að njóta tíru frá logandi kerti á meðan hún mataðist en að máltíð lokinni tók myrkrið við á ný.
Í prísund. Darya Saltykova fékk harðan dóm.
Í dómnum var einnig tekið fram að heimilt væri að færa hana úr dýflissunni þannig að hún gæti hlýtt á messu, en þó þannig að hún stigi ekki fæti inn í kirkjuna. Þannig liðu nú ellefu ár.
33 ára einangrun
Árið 1779 var Darya Saltykova flutt í eina af byggingum klaustursins og höfðu nýju híbýlin glugga. En Darya var þegar þarna var komið sögu heillum horfin. Hún hrækti á fólk sem gekk fram hjá glugganum, jós það fúkyrðum og otaði að því priki.
Darya dó í klefa sínum 27. nóvember, 1801, 71 árs að aldri og hafði þá verið í einangrun í 33 ár.