Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens segir að ópíóðafaraldur geisi hér á landi. Hann birti tilfinningaþrungna mynd og færslu á samfélagsmiðlum í gær sem vakti mikla athygli.
„Ég hef sungið á einu ári yfir 11 einstaklingum sem allir hafa fallið frá vegna fíknisjúkdóms. Allir alltof ungir,“ sagði hann.
„Það geisar ópíóða faraldur hér á landi og það er alger þögn hjá yfirvöldum. Ef þetta væru einstaklingar sem hefðu látist í náttúruhamförum væru yfirvöld og landsmenn búin að bregaðst við. Á þessu ári einu eru það 6 sem ég hef sungið yfir. Við hljótum að geta gert betur en að láta sem ekkert sé, við verðum að vakna,“ sagði Bubbi í færslu sinni.
Hann ræddi málið svo frekar við mbl.is í gærkvöldi.
„Sumir þessara einstaklinga sem ég hef sungið yfir, þeir bara sviptu sig lífi vegna þess að þeir sáu ekki fram á að bara komast í gegn,“ sagði hann.
Hann veltir fyrir sér hvers vegna engin umræða sé um málið á meðal stjórnmálamanna og þingmanna, þeirra sem hafa getu og vald til að stíga inn í.
„Nú má enginn misskilja mig. Ef þetta væri snjóflóð þá væru allir búnir að bregðast við og það væri landssöfnun ef við værum að missa svona mikið af fólki út af náttúruhamförum.
Þetta eru ekki ólögleg efni skilurðu mig. Þetta er ekki heróín eða eitthvað sem verið er að flytja inn. Þetta er eitthvað sem við köllum góðu nafni læknadóp. Við hljótum að geta sagt sko, heyrðu nú þurfum við að bregðast við.“