Saga Guðrúnu Óskar Þórudóttur frá paradísareyjunni Tenerife vakti mikla athygli á DV í gær. Þar lýsti hún hræðilegri reynslu sinni af leigusala ytra sem hafði leigt Guðrúnu Ósk og fjölskyldu hennar íbúð sem leit vel út á myndum og virtist fá ágætis einkunn á bókunarsíðunni Booking.com. Þegar á hólminn var komið reyndist íbúðin hins vegar vera nánast óíbúðarhæf og í engri líkingu við það sem auglýst var. Þegar betur var að gáð voru aðeins fimm umsagnir á bak við hina góðu dóma. Hópurinn neyddist því til að finna sér nýja gistingu og óvíst er hvort að 300 þúsund króna kostnaðurinn við gistinguna muni endurheimtast og því ákvað Guðrún Ósk að segja frá hörmungunum til þess að vara aðra ferðalanga við.
Ýmislegt hefur gengið á í lífi Guðrúnar Óskar sem hefur meðal annars stigið fram í viðtali við DV og rætt opinskátt um áskoranir sínar.
Um leið og viðtalið varðandi Tenerife-ferðina birtist fóru að streyma inn neikvæðar umsagnir frá nettröllum sem gagnrýndu Guðrúnu Ósk, sem er einstæð þriggja barna móðir, fyrir að hafa skellt sér í frí til eyjunnar fögru í ljósi þess að hún hefur óskað eftir fjárhagsaðstoð á samfélagsmiðlinum Twitter.
Guðrún Ósk svaraði nettröllunum hins vegar fullum hálsi og benti á ótrúlega ástæðu þess að hún gat skellt sér út í sólina. Í lok mars greindi 433 frá því að einn íslenskur tippari hafi verið með 12 leiki rétta á evrópska getraunaseðlinum og fengið rúmar 3 skattfrjálsar milljónir í sinn hlut á seðil sem kostaði aðeins 832 krónur.
Sagði í fréttinni að vinningurinn hafi komið sér mjög vel þar sem vinningshafinn er einstæð móðir og gat nýtt fjárhæðina til að borga niður skuldir og gert eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni.
Upplýsti Guðrún Ósk að hún væri umræddur vinningshafi og hefði meðal annars deilt vinningnum með öðrum í neyð. Þar með kvað hún gagnrýnisraddirnar í kútinn.
Samkvæmt gögnum sem DV hefur undir höndum þá getur miðillinn staðfest að Guðrún Ósk er umræddur vinningshafi og að greitt var fyrir gistingu og flug eftir að greiðsla var lögð inn frá Íslenskum getraunum.