Nýjar myndir af söngkonunni fóru á flug um netheima í byrjun vikunnar og höfðu margir aðdáendur áhyggjur af breyttu útliti hennar og töldu hana hafa grennst hættulega mikið.
Umtalið fór ekki framhjá söngkonunni sem tjáði sig um málið á TikTok í gær.
„Ég veit að fyrir mig, persónulega, þá er líkaminn sem þið hafið verið að bera saman við líkamann minn núna, óheilbrigðasta útgáfan af honum,“ sagði Ariana um gamlar myndir af líkama hennar sem fólk hefur verið að bera saman við nýjar myndir.
„Ég var á mörgum þunglyndislyfjum, drakk áfengi og var að borða illa. Mér hefur aldrei liðið jafn illa og þegar ég var í þeim líkama sem þið lítið á sem „heilbrigðan.“ Því þetta var ekki heilbrigt fyrir mig,“ sagði hún.
@arianagrande♡
Hún sagði einnig að hún ætti ekki að þurfa að útskýra útlit sitt og að heilbrigðir líkamar líta misjafnt út á fólki.
„Þú veist aldrei hvað fólk er að ganga í gegnum,“ sagði hún og bað netverja um að sýna aðgát í nærveru sálar.
Myndbandið hefur fengið yfir 45 milljónir í áhorf og hafa yfir níu milljónir manns líkað við það síðan það var birt fyrir 14 klukkustundum.