Ég er staddur í Kyoto – höfuðborg Japans í meira en 1000 ár. Borgin er öðruvísi en núverandi höfuðstaður landsins, Tokyo, og það finnst á andrúmsloftinu.
Kyoto er nafli japanskrar menningar með öll sín hof, kastala, lystigarða og handverksmuni. Tokyo er hins vegar stærri og þéttbýlli. Hún er nútímalegri og að mínu mati er hraðinn almennt meiri í Tokyo þar sem allir virðast vera á leiðinni einhvert en staldra lítið við til að hugsa sig um.
Hýbýli Yoko Ono og John Lennon
Ég er sem sagt á ferðalagi með fjölskyldunni um Japan. Við byrjuðum á að heimsækja baðhúsbæinn Hakone sem stendur við rætur fjallgarðanna rétt fyrir utan Tokyo. Ofar í fjöllunum stendur sögufrægt hótel, Fujiya, sem hefur hýst bæði erkihertogann Franz Ferdinand af Austurríki sem og hjónin Yoko Ono og John Lennon.
320 km/klst.
Næsti áfangastaður var Kyoto en þangað tókum við hina frægu Shinkansen hraðlest sem nær hámarkshraða upp á 320 km/klst. Kyoto tók á móti okkur með leigubílstjóra í fararbroddi sem átti mjög erfitt með að skilja framandi hreim okkar, enda þótt konan mín sé nú fædd og uppalin í Japan, og við urðum sjálf að leiðbeina honum að hótelinu.
En á endanum komumst við á leiðarenda og gátum byrjað að skoða borgina.
Eitt það fyrsta sem við sáum var áin Kamogawa sem rennur í gegnum austurhluta borgarinnar. Þar var fólk í lautarferðum, aðrir að skokka eða hjóla, sumir voru að spila á hefðbundin japönsk hljóðfæri og enn aðrir einfaldlega að hugleiða við árbakkann.
Persónulega finnst mér eins og fólkið í Kyoto sé rólegra en margur Tokyobúinn.
Þó hef ég líka tekið eftir því að Kyotobúar eru stoltir af borginni og sögunni sem henni fylgir. Þau eru alls ekki ókurteis en þau eru ákveðin, sérstaklega við útlendinga.
Það er kannski ekki skrýtið þar sem Kyoto tekur á móti um 5 milljónum ferðamanna í hverjum mánuði, samanborið við Ísland með sína 150.000 ferðamenn á mánuði. Við tókum eftir þessu líka.
Hofin í Kyoto eru gullfalleg og stórbrotin en þau eru vissulega yfirfull af aðkomufólki sem þyrstir í sjálfur með Búddha.
Götumenning og partýbúllur
Á eftir Kyoto varð Osaka fyrir valinu og þrátt fyrir að borgirnar tvær séu vissulega borgir tvær, þá eru þær samfellt tengdar inn í Keihanshin höfuðborgarsvæðið sem telur um 20 milljónir íbúa.
Osaka er nútímalegri en Kyoto og þar stendur háhýsaþyrping sem gefur Tokyo ekkert eftir.
En Osaka er líka ákveðinn miðpunktur götumenningar, hvort sem það er götumatur á borð við okonomiyaki og takoyaki eða litlar partýbúllur og almennt hresst fólk sem borgin er þekkt fyrir. Það er nefnilega þannig að stærstur hluti uppistandara og grínleikara í Japan kemur einmitt frá Osaka.
Við gengum um göturnar, smökkuðum japönsku pizzuna okonomiyaki og heimsóttum kastalann í Osaka sem er talinn einn sá flottasti í Japan.
Sól og pálmatré
Næst er ferðinni heitið til Okinawa sem er eyja suður af meginlandi Japans. Þar er menningin öðruvísi og fólkið sömuleiðis. Eyjan er heila 1536 km frá Tokyo sem er meiri vegalengd en allur hringvegurinn um Ísland. Þar bíður okkar sólarströnd og pálmatré í bland við stærstu herstöð Bandaríkjanna í Asíu. Hvort okkur verði hleypt þangað inn er svo annað mál.
Öll þessi ferðasaga og lýsing á borgunum Kyoto og Osaka er heiðarleg tilraun til að tengja saman núverandi staðsetningu mína við umfjöllunarefni síðasta þáttar af hlaðvarpinu Heimsendir.
Gestur vikunnar er nefnilega Ída Pálsdóttir sem bjó með fjölskyldu sinni í Kyoto síðastliðið ár. Við eigum gott spjall um menningarsjokkið sem fylgir því að flytja til Japan, kyrrðina í Kyoto og samanburðinn við Tokyo.
Meira um það í þættinum sjálfum en hann er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum, þar á meðal á Spotify og Apple Podcasts, sem og á Patreon.