Hödd Vilhjálmsdóttir, almannatengill og lögfræðingur, og Saga Ýrr Jónsdóttir, lögfræðingur, eru fórnarlömd netsvindsl sem DV sagði frá fyrir helgi.
Netsvindlið lýsir sér með þeim hætti að tölvuþrjótar eru að nota myndir af íslenskum konum til að stofna gervi Instagram-síður undir þeirra nafni, síðurnar leiða síðan á gervi-klámsíður, sem líta út eins og síða á OnlyFans, og þar geta grunlausir klámkaupendur sett inn kreditkortaupplýsingar.
„Jæja…þá erum við Saga Ýrr loksins komnar með sameiginlegan Instagram account og OnlyFans síðu sem við vissum reyndar bara ekkert af. En ó well, öll markaðssetning er víst af hinu góða, og aldrei að vita nema fylgjendur okkar fái að taka eins og einn (golf)hring með okkur stöllum í nánustu framtíð,“ segir Hödd í færslu á Facebook.
Nína Richter fjölmiðlakona á Torg lenti í sambærilegu netsvindli í síðustu viku. Ræddi hún málið við DV á föstudag og sagði að henni liði eins og ráðist hefði verið inn í einkalíf hennar.
Nína tilkynnti síðuna og fékk vini sína á samfélagsmiðlum til að gera slíkt hið sama. Það vakti mikinn óhug hjá Nínu að tölvuþrjóturinn byrjaði að fylgja öllum karlkyns vinum Nínu á Instagram og sumir þeirra fylgdu síðunni til baka.
„Það voru einhverjir menn þarna, sem ég þekki persónulega, að fylgja þessum klámaðgangi. Ég sendi þeim skilaboð og bað þá vinsamlegast um að fylgja ekki þessum aðgangi, þetta væri ekki ég og bað þá um að tilkynna. Þetta var allt mjög óþægilegt, svo ekki sé meira sagt,“ segir hún.