Guðmundur Fylkisson eða Gummi Fylkis eins og flestir þekkja hann er maður með stóra nærveru, góðlegur og með smitandi hlátur. Hann er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.
Guðmundur er lögreglumaður sem kenndur er við strokubörn en hefur tekið þátt í hinum ýmsu verkefnum um allan heim sem lögreglumaður og með friðargæslunni. Frá 1. nóvember 2014 hefur hann starfað við það að leita að börnum sem hafa strokið að heiman.
„Markmiðið er að halda þessum krökkum á lífi og koma þeim heim á meðan þeir eru ennþá börn samkvæmt lögum.“
Guðmundur hefur sýnt fram á að hans vinna sé búin að skila árangri. Hann skilar af sér tölum í hverjum mánuði og hefur fjölda leitarbeiðna snarfækkað síðastliðið ár og árið 2023 fer rólega af stað segir hann.
„Með tilkomu einkarekinna úrræða eins og Vinakots, Klettabæjar og Heilinda hefur einnig tekist að taka utan um þessa krakka og svokallaðir sístrokukrakkar komnir í betri úrræði sem henta þeim.“
Starfið getur verið erfitt og tekið á. Guðmundur á sjálfur fjögur börn og segist ekki hlynntur því að foreldrar ali börn upp í of miklum bómull, til þess að börn læri verði þau að fá að reka sig á og læra af reynslunni. Gummi er einstakur karakter og það er magnað að horfa á hann tala um krakkana sem lenda á hans borði.
Aðspurður um það hvernig hann hefur náð að nálgast þennan hóp krakka og öðlast traust þeirra segir hann: „Ég setti mér reglur strax í upphafi. Ég ákvað að koma hreint fram við krakkana, segja þeim satt, ekki plata þá í eitthvað og leyfa þeim alltaf að tala við mig. Ég var alltaf með þeim og laug aldrei að þeim, virðing er áunnin.“
Ein af ástæðum þess að þetta tilraunaverkefni var sett af stað, til eins árs, fyrir tæpum níu árum, var að 14 ára stúlka úr hópi strokubarna lést af völdum ofskömmtunar heima hjá sér. Guðmundur fékk símtal og var beðinn um að taka þetta tilraunaverkefni að sér. Á þessum árum hafa engin börn dáið á hans vakt en eins og hann orðar það sjálfur: „Það styttist alltaf, á þessum árum hafa fjórir dáið úr þessum hópi eftir að hafa náð 18 ára aldri en þá eru þeir ekki lengur í mínum hópi. Einn náði bara sex dögum eftir 18 ára afmælisdaginn sinn, það er mjög erfitt. Það breytist ekkert á þessum degi. Ég er hræddur um að það komi að því að einhver úr mínum hópi finnist látinn, annað hvort úr sjálfsvígi eða ofskömmtun en ég vona að það gerist ekki.“
Það má hlusta á viðtalið við Guðmund Fylkisson í heild sinni í hlaðvarpinu Sterk saman.