Þótt að fæstir hafi sennilega lesið bókina þá er Lolita nafn sem margir þekkja og tengja við barnaníð. Bókin sem einfaldlega heitir Lolita, sem var skrifuð 1955, fjallar um „ástarsamband“ unglingsstúlku við mun eldri mann.
Bókin þykir mikið meistarverk og vakti bæði aðdáun og hneykslun á sínum tíma enda fyrsta skáldsagan sem fjallaði um tælingu barnaníðings sem er málefni sem lítið var rætt á sínum tíma.
Hin raunverulega Lolita
En það sem færri vita er að bókin er að stórum hluta byggð á sönnum atburðum sem gerðust árið 1948 þegar hinni 11 ára gömlu Sally Horner var rænt að fyrrverandi fanga, kynferðisafbrotamanni að nafni Frank La Salle.
Sally bjó með móður sinni og eldri systur og manni hennar. Móðir Sally, Ella, var ekkja sem náði með naumindum að sjá fyrir þeim mæðgum með saumaskap. Eldri systir hennar var ófrísk og Sally hlakkaði mjög til fæðingu barnsins og sagði öllum sem vildu heyra að hún yrði heimsins besta frænka.
Sally var feimin stúlka, hún átti fáa vini og naut þess helst að lesa. Þegar að vinsælli bekkjarsystur hennar mönuðu hana til að stela úr búð í heimabæ þeirra í New Jersey ákvað Sally að láta slag standa, ekki síst í þeirri von um að verða meðtekin í hóp vinsælu stúlknanna.
Svo að í júní árið 1948 stal Sally hræódýrri stílabók. Hún var á útleið þegar að henni kom maður, sagðist vera alríkislögreglumaður og að hann yrði að handtaka hana fyrir þjófnaðinn.
Í raun hét maðurinn Frank La Salle, 53 ára glæpamaður, nýbúinn að afplána dóm fyrir kynferðisbrot gegn 12 og 14 ára stúlkum.
La Salle var allt sem foreldrar óttast.
„Lögreglumaðurinn“
Sally var skelfingu lostin, enda alin upp við að hlýða sér eldra fólki, hvað þá lögreglu. En „lögreglumaðurinn“ sagðist mundu sleppa henni í þetta skipti. En því fylgdu skilyrði.
La Salle sagði Sally að hann myndi fylgjast með henni og ef hann biði hana um eitthvað yrði hún að hlýða, annars myndi hann sjá til þess að hún færi í fangelsi.
Sally var létt og þakklát lögreglumanninum. Hún samþykkti skilmálana en ákvað að segja móður sinni og systur ekki frá atvikinu af ótta við að valda þeim áhyggjum.
En La Salle var komin með áætlun.
Hann beið fyrir utan skóla Sally daginn eftir, skipaði henni inn í bíl sinn og sagði að ríkisstjórnin hefði skipað honum að fara með hana til Atlantic City.
Hann sagði henni nákvæmlega hvað hún ætti að segja móður sinni. Hún ætti að segja henni að La Salle væri faðir bekkjarsystur hennar og væri hún boðin með fjölskyldunni í frí í strandhús þeirra.
Því má ekki gleyma að á þessum árum var lítil sem engin umræða um barnaníðinga og traust mun meira en við þekkjum í dag.
Kyssti dóttur sína bless og við tók tveggja ára martröð
Því var Ella himinlifandi að heyra að hennar fremur einmana dóttur væri boðið í frí með „fínu fólki“ enda kom herra Warren, faðir bekkjarsysturinnar afar vel fyrir – í síma.
Ella hitti nefnilega aldrei hinn kurteisa herra Warren sem sagði það bara ánægju að bjóða Sally að koma með, strandhúsið væri stórt og myndu þær skemmta sér vel, Sally og dóttir hans.
Svo Ella gaf blessun sína, hjálpaði dóttur sinni að pakka fyrir helgarferðina og kyssti hana bless.
Það sem Ella vissi ekki var að hún var að senda dóttur sína í martröð sem átti eftir að standa yfir í tvö ár.
Ljósmyndin
Að fyrirmælum herra Warner fylgdi Ella Sally að rútustöð og tók Sally rútu til Atlantic City.
Þann 14. júní leigði La Salle mótelherbergi, rétt við ströndina við Atlantic City, og kynnti Sally sem dóttur sína.
Hann lét Sally annaðhvort hringja eða senda móður sinni bréf fyrstu sex vikurnar til að segja henni hversu gaman væri og hefði því verið ákveðið að framlengja fríið.
Þann 31. júlí fékk Ella bréf frá Sally og í því stóð að hún væri á leið til Baltimore borgar og myndi Ella ekki heyra meira frá henni.
Það var í Balitmore sem kynferðisglæpir La Salle hófust.
Þá fyrst stóð Ellu ekki á sama og hringdi í lögregluna. Lögregla fann mótelherbergið en La Salle var horfin með Sally og höfðu þau greinilega yfirgefið mótelið í flýti því þar var að finna tvær ferðatöskur.
Svo og ljósmynd af Sally í rólu, ljósmynd sem móðir hennar hafði aldrei áður séð.
Þegar var lýst eftir La Salle og Sally og myndin af stúlkunni í rólunni birt í fjölda dagblaða án árangurs.
Kynnti Sally sem dóttur sína
Næstu tvö árin bjuggu þau í Baltimore og skráði La Salle Sally meira að segja í skóla sem dóttur sína, Madeleine La Plante.
Sagan hans var að hann hefði skilið við móður hennar vegna geðrænna vandamála hennar, til verndar dóttur sinni og til að veita henni öruggt heimilislíf.
Í raun byggðist heimilislífi á svo að segja endalausum kynferðisbrotum gegn Sally.
Í mars 1949 var ákærður, í fjarveru eða in absentia eins og það heitir á lagamáli, fyrir ránið á Sally. Beið hans 30 til 35 ára dómur ef hann næðist.
La Salle taldi rétt að láta sig hverfa og flutti með Sally til Dallas.
Þótt ótrúlegt megi virðast trúði Sally því enn að La Salle væri alríkislögreglumaður og flutningarnir henni til verndar.
Ruth og móðureðlið
Það voru liðin næstum tvö ár frá ráninu á Sally þegar að nágranni þeirra í hjólhýsagarði í Dallas, Ruth Janich, tók eftir því að eitthvað var ekki í lagi með telpuna í næsta húsi.
Ruth fannst sérkennilegt að La Salle leit aldrei af stúlkunni og fannst eitthvað óhuganlegt í augnaráði hans.
Ruth átti nokkur börn og sennilega hefur það verið móðureðlið sem sagði til sín þar sem þau La Salle komu flestum fyrir sjónir eins og ástrík feðgin.
Ruth vingaðist við Sally en það var sama hvað Ruth þráspurði Sally, Sally sagði líf sitt með „pabba sínum” gott.
Sally sagði Ruth svo og bekkjarsystrum sínum að hún hefði gaman af að elda fyrir hann og kæmi honum stundum á óvart með bakstri.
Á endanum gafst Ruth upp á að fá eitthvað upp úr stúlkunni og nokkrum vikum síðar flutti Ruth ásamt manni sínum og börnum til San Jose i Kaliforníu.
Sally reiðist
En Sally trúði þó einni bekkjarsystur sinni fyrir hvað á gekk og sagði sú henni að slíkt hegðun væri röng og ólögleg, eitthvað sem Sally hafði ekki hugmynd um.
Sem segir allt sem segja þarf um hugsunarhátt þessa tíma. Til að mynda datt bekkjarsysturinni ekki í hug að hafa samband við einhvern fullorðinn, um var að ræða einkamál, eða svo var hugsunarhátturinn.
En eftir þetta samtal fór Sally að standa uppi í hárinu á La Salle og neita að taka þátt í kynlífi með honum. La Salle var hræddur við að Sally kæmi upp um hann og leitaði sífellt sjaldnar á hana eftir samtal Sally við bekkjarsysturina.
La Salle hélst illa á vinnu og í febrúar 1950 sendi hans hans fyrrverandi nágranni, Ruth Janich, honum bréf og sagði nóga vinnu að hafa í San Jose.
Ákvað La Salle því að flytja með Sally þangað enda hafði Ruth lofað að að þau mættu gista hjá henni og fjölskyldu hennar á meðan þau væru í húsnæðisleit.
Mánuði eftir komuna til San Jose var La Salle að heiman í atvinnuleit og hóf Ruth aftur að reyna að fá Sally til að opna sig.
Sally viðurkenndi fyrir Ruth að La Salle hefði rænt henni, hann væri vondur við hana og að hún saknaði fjölskyldu sinnar meira en orð fengju lýst. En af einhverjum ástæðum minntist hún ekki á misnotkunina.
Bað hún Ruth um að hjálpa sér við að hringja í systur sína.
Mágur Sally svaraði og trúði vart eigin eyrum að heyra í Sally sem öskraði að hún „væri hjá góðri konu í Kaliforníu“ og „hvort að mágur hennar gæti sent þangað lögreglu.”
Um leið og símtalinu var lokið hringdi mágurinn í alríkislögregluna. En um leið og Sally hafði lagt niður símann hrundi hún grátandi í gólfið og endurtók í sífellu „hvað hef ég gert?“ og „hann verður brjálaður.”
Það leið ekki á löngu þar til fulltrúar FBI mættu á svæðið og biðu La Salle þegar hann kom heim út atvinnuleitinni.
Hann var tafarlaust handtekinn.
Skömmin og hin óvelkomna frægð
Hinni skelfingu lostnu 12 ára stúlku var komið fyrir í athvarfi fyrir börn og beðið eftir að hún róaðist áður en yfirheyrslur hófust.
Lögreglumaður spurði Sally á eins nærgætin hátt og honum var unnt, um hvað La Salle hefði gert henni og hvort hann hefði haft „náin kynni“ af henni.
Sally neitaði í fyrstu en játaði allt á endanum gegn því að lögreglumaðurinn segði engum því hún skammaðist sín of mikið. Síst af öllu mátti fjölskylda hennar vita hvað á hefði gengið.
En auðvitað var engin leið að fela sögu sem þessa og fljótlega voru myndir af Sally og La Salle á forsíðum blaða um öll Bandaríkin.
Blaðamenn eltu Sally á röndum og var hún mynduð þegar hún steig út úr flugvélinni þar sem hágrátandi móðir hennar greip hana í fangið.
La Salle játaði á sig öll brotin gegn Sally og var dæmdur í 41 árs fangelsi.
Þar sem hann játaði voru engin réttarhöld og þurfti Sally því ekki að ganga í gegnum þá þolraun að bera vitni.
Drusla og hóra
En lífið reyndist Sally erfitt.
Á þessum árum var litið með skömm á fórnarlömb kynferðisafbrota og eftir tæplega tveggja ára kynferðislega misnotkun var hún lögð í botnlaust einelti þegar hún sneri aftur í skóla.
Enginn ráðgjöf eða aðstoð var í boði fyrir Sally sem kölluð var drusla og hóra og bönnuðu flestir foreldrar dætrum sínum að umgangast hana.
Sally sagði ekki margt. Mágur hennar, Al Panaro, sagði hana aldrei hafa kvartað né hafi hún virst döpur eða þunglynd. Bara frekar þögul.
„En maður sá að það var eitthvað mikið að,“ sagði Panaro síðar. „Það var stundum eins og hún væri ekki á staðnum, hyrfi inn í sinn eigin heim.“
Fjölskylda Sally vissi ekki betur, en taldi best að ræða aldrei ránið í þeirri von um að það gleymdist, eins kjánalega og það hljómar í dag.
Sally var því ein í sínum heimi, fullum sársauka og skelfilegra minninga. Hún lokaði sig af í heimi bóka í herbergi sínu enda varð hún langhæst í sínum árgangi.
Fríið örlagaríka
Sumarið 1952, þegar Sally var 15 ára, ákvað hún að fara í helgarferð með vinkonu sinni, Carol, á ströndin í New Jersey. Bæði var sumarið óbærilega heitt og svali strandarinnar lokkandi en einnig gáfust Sally fá tækifæri til að eyða tíma með Carol.
Fæstir vildu láta sjá sig með henni og Carol í raun hennar eina vinkona og trúði Sally henni fyrir því hversu einmana hún væri og hversu hana dreymdi um að eignast kærasta og lifa eðlilegu lífi.
Carol dáðist aftur á móti að Sally, glæsileika hennar og yfirburðagreind.
Stúlkurnar urðu sér úti um fölsuð skilríki áður en þær tóku rútuna á ströndina, Carol kunni lagið á því. Það var ekki til áfengiskaupa þar sem hvorug stúlkan smakkaði áfengi, heldur til að komast inn á dansklúbbana við ströndina.
Vinkonurnar dönsuð allt föstudagskvöldið en misstu sjónar hvor af annarri daginn eftir. Og það var þá sem Sally hitti hinn tvítuga Ed Baker.
Hann hafi ekki hugmynd um hver Sally var í raun og veru. Hann var heillaður af hinni 17 árs gömlu Sally, eins og sem var aldurinn sem hún gaf upp, og hún af honum.
Slysið skelfilega
Sally og Ed eyddu öllum laugardeginum og kvöldinu saman. Þau fóru meira saman til messu morguninn eftir.
Sally sagði Carol að hún væri ástfangin og hvort að Carol væri sama þótt hún færi ekki með henni heim í rútunni þar sem Ed hefði boðist til að keyra hana langleiðina heim og myndi hún bjarga sér þaðan.
Rétt eftir miðnætti þann 18. ágúst 1952 ók Ed á ólöglegum hraða eftir illa lýstum vegi beint á vörubíl sem hafði bilað á miðjum veginum.
Sally lést samstundis en Ed slapp ótrúlega vel, fótbrotnaði og fékk nokkra skurði en var að öðru leiti ómeiddur.
Lík Sally var það illa farið að ákveðið var að leggja ekki meira á móður Sally, Ellu Horner, og þess í stað var Al Panaro beðinn um að bera kennsl á líkið.
,,Hún var óþekkjanleg. Andlitið á henni var horfið en ég þekkti hafa af örum sem hún hafði á öðrum fætinum.
Ella brotnaði saman við fréttirnar. Einnig Carol. Ed endaði aftur á móti í fréttum, harðlega gagnrýndur fyrir að hafa verið með fimmtán ára stúlku í bíl sínum og hafa eytt með henni nótt.
,,Ég hafði enga hugmynd um að hún væri 15 ára, sagði Baker síðar. Mér kom það aldrei til hugar. Hún sagðist vera 17 ára og leit ekki út fyrir að vera degi yngri.”
Hann sór fyrir að ekkert óviðeigandi hefði átt sér stað á milli þeirra og var afar brugðið að frétta hver Sally í raun var og það sem hún hafði gengið í gegnum. Ed sagðist óska einskis frekar en að hann hefði látist í slysinu í stað Sally og sagði mörgum árum síðar að hann hefði aldrei orðið samur eftir þessa örlagaríku nótt.
Lolita verður til
Hin átakanlega saga af stuttu lífi Sally snerti mjög við rithöfundinum Vladimir Nabokov og varð honum innblástur að hinni heimsþekktu skáldsögu, Lolita.
Bókin hefur margoft verið sett upp á sviði sem leikverk, tvær óperur hafa verið gerðar eftir henni, umdeildur Broadway söngleikur svo og tvær kvikmyndir, önnur árið 1962 og hin 1997.
Bókin, sem fjallar um miðaldra mann sem fær táningsstúlku á heilann, var sú fyrsta sem fjallaði á opinskáan hátt um barnagirnd.
Það er ákveðin samúð með sökudólgnum í bókinni, hann er helsjúkur maður sem ekki ræður við langanir sínar en áherslan er á Lolitu, stúlkuna sem hann misnotar.
Það má að mörgu leiti þakka bókinni að farið var að ræða slík brot af meiri alvöru.
Bókin hafði mikil áhrif. Farið var að líta slík brot alvarlegri augum og augu almennings opnuðust fyrir þeim sársauka sem fórnarlömb þurfa að lifa við, mörg hver alla ævi.
Lolita var einfaldlega tímamótaverk.
En því miður hafa margir gleymt Sally litlu Horner. Stúlkunni að baki Lolitu, stúlkunni sem æskunni var stolið frá og lést aðeins 15 ára gömul.