Stórleikarinn Egill Ólafsson varð sjötugur í gær en hann er staddur í Japan við tökur á stórmyndinni Snertingu, nýjustu kvikmynd Baltasars Kormáks, þar sem han fer með aðalhlutverkið. Afmælisdag Egils bar upp á frídegi í tökum og ætlaði hann að hafa það náðugt þegar leikstjórinn plataði hann á skyndilegan fund sem breyttist í óvæntan afmælisfögnuð fyrir stórleikarann á þessum merku tímamótum.
Snerting er byggð á samnefndri bók eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, sem var mest selda bókin á Íslandi árið 2020 og hlaut mikið lof gagnrýnenda. Baltasar og Ólafur Jóhann skrifuðu saman handritið. Á síðasta ári keypti eitt stærsta kvikmynda dreifingarfyrirtæki heims réttinn að íslensku kvikmyndinni og er hún ein sú dýrasta sem gerð hefur verið hér á landi. Sögusviðið er Lundúnir, Ísland og Japan, þar sem tökulið, leikarar og aðrir aðstandendur myndarinnar eru stödd núna.
Hér fylgja með skemmtilegar myndir úr veislunni og frá tökustað myndarinnar.