„Við sjáum oft þegar ungir brotaþolar koma til okkar og lýsa kynferðisofbeldi sem á sér stað í sambandi að þá er þetta oft eins og lýsing á einhverju vidjói á þessum meginstraums klámveitum. Þessi myndbönd eru oft mjög ofbeldisfull, bæði í orði og verki. Lítið um samþykki og mörk,“ segir Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta í viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar.
Steinunn bendir einnig á að réttarkerfinu takist ekkert sérlega vel að mæta réttlæti í hugum brotaþola. „Hvað ætlum við að gera í því að hefðbundna réttarkerfið er að bregðast brotaþolum í stórum stíl? Meirihluti nauðgunarmála er felldur niður annað hvort í rannsókn hjá lögreglu eða hjá saksóknara, þannig þau fara aldrei inn í réttarsalinn. Það er ekki þar með sagt að þessar nauðganir hafi ekki átt sér stað,“ segir Steinunn og bætir við að kynferðisbroti sé ekki lokið þegar fallinn er dómur og það þarf ekkert að falla dómur í svona máli.
„Þetta höfum við séð í framhaldsskólum sem eru að krefjast réttlætis. Getum við útvíkkað þetta réttarkerfi sem við þegar höfum til þess að mæta þörfum fleiri brotaþola?“
„Brotaþolum er oft umhugað um að koma í veg fyrir frekari brot hjá geranda. Fyrir einhverja myndi það þýða að gerandi myndi leita sér hjálpar til þess að það verði ekki ítrekun á broti […] en það að [gerandi] taka ábyrgðina getur haft margar birtingamyndir í hugum brotaþola.“
„Réttlæti fyrir brotaþola er ekki endilega bara refsing fyrir geranda. Réttlæti fyrir brotaþola er að geta haldið áfram að lifa í fjölskyldunni sinni, skólanum sínum, vinnustaðnum sínum og samfélaginu sínu. Þetta er svo víðtækt og þess vegna þurfum við að halda heila ráðstefnu þar sem við tökum allt þetta inn í.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.