Jökull Tandri Ámundason greindist með eitilfrumukrabbamein um tvítugt. Lífssýn hans breyttist í kjölfarið og ákvað hann að prófa nýja hluti og gerðist félagi í Rimmugýgi, sem er félag áhugafólks um menningu og bardagalist víkinga, og á svipuðum tíma gekk hann í Ásatrúarfélagið. Hann er í dag Dalverjagoði og hefur séð um blót og athafnir fyrir félagið.
Hann fæddist í Vestmannaeyjum, eyjunni þar sem gaus og hraun og aska lagðist yfir bæinn fyrir hálfri öld. Þar bjó hann fyrstu sex ár ævinnar. Leiðin lá síðan til Þorlákshafnar og nokkrum mánuðum síðar í höfuðborgina. Í dag er hann fluttur til bæjarins þar sem hraunið hefur jú runnið og enginn veit hverju goðin reiddust þá. Það ku vera bær álfanna. Jökull Tandri Ámundason er bæði matreiðslu- og framreiðslumeistari og hann er auk þess vígður í embætti Dalverjagoða.
Hvað vill goðinn segja um æskuna? „Þetta voru alltaf skemmtilegheit; leikir, söngur og teiknimyndasögur voru í miklu uppáhaldi. Svo fljótlega eftir það kom upp í mér einhver matarást og stuttu eftir 16 ára aldur komst ekkert annað að fyrir utan mat, borðspil, tónlist, tölvuleiki og vinir.“
Hann byrjaði 16 ára gamall í matreiðslunámi á Argentínu steikhúsi en áður hafði hann unnið á veitingastöðum við aðstoð í eldhúsi. Svo breyttist lífið á vordegi árið 2010, þegar Jökull Tandri var aðeins tvítugur að aldri.
„Ég fór í sturtu og var að þvo mér undir hendinni og fann eitthvað sem mér fannst vera á stærð við ping pong-kúlu. Svo þegar ég fór í sturtu tveimur dögum seinna þá fannst mér það vera orðið á stærð við límónu. Það hafði í það minnsta orðið greinileg stækkun. Ég fór í kjölfarið til heimilislæknisins og svo allt í einu var ég mættur niður á blóðdeild Landspítalans og viku seinna var ég kominn í viðtal hjá krabbameinslækni.” Jökull Tandri greindist með fyrsta stigs eitilfrumukrabbamein og segir hann að sér hafi verið sagt að 90% líkur væru á bata og hann hugsaði um þessi 90%; ekki um hin 10%.
Og það gaus. Eyjafjallajökull spjó eldi og ösku.„Það hægði eitthvað á flugtraffík en það þurfti að fá einhver lyf frá Danmörku fyrir gallíum-skanna. Það tafðist og tafðist og tafðist og svo var búið að borga forgangsgjald ofan á forgangsgjald og ég veit ekki hvað til að fá þetta til landsins sögðu þeir mér og svo allt í einu fékk ég símtal um það að ég mætti ekki drekka eða borða neitt þangað til daginn eftir. Ég varð við því og mætti í skannið og þá sáu þeir að frumumyndun var á byrjunarstigi á fleiri stöðum. Ég var ekki enn kominn á annað stig eitilfrumukrabbameins en það var stutt í það. Stuttu seinna byrjaði dæling á einhverjum þremur lítrum af lyfjum, þó ég hafi kallað það eitur, á tveggja vikna fresti til þess að kála þessu.
Þetta var ekki hræðileg lífsreynsla fyrr en þetta át svo upp æðaganginn á framhandleggjunum á mér en þegar stungið var óvart í hægri handlegginn aðra lyfjagjöfina í röð þá kom mjög mikill sársauki og þurfti þá að þynna út lyfin með saltvatnsupplausn. Það sama skeði svo með vinstri handlegginn á mér einhverjum mánuðum seinna. Og þar af leiðandi fór þetta að taka lengri tíma í hverri lyfjagjöf sem byrjaði að taka meiri toll andlega. Það fylgdu þessu draugaverkir í einhver ár.“
Gáttir allar,
áðr gangi fram,
um skoðask skyli,
um skyggnast skyli,
því at óvíst er at vita,
hvar óvinir
sitja á fleti fyrir.
„Ég mætti í viðtal hjá krabbameinslæknum með móður minni og þar sat ég og hlustaði á allt saman og var frekar spakur þangað til læknirinn spurði hvort ég hefði einhverjar spurningar. Þá sagðist ég vera að fara á þungarokksútihátíð í Þýsklandi í ágúst og spurði hvort það yrði eitthvað vandamál. Hún sagði að það yrði hægt að finna út úr því. Ég spurði hana svo hvort ég gæti ekki örugglega klárað kokkanámið og þá fór hana að gruna að ég væri kannski ekki alveg að grípa það sem hafði verið sagt. Það var svo ekki raunin; ég gerði mér fulla grein fyrir því að ég ætti 90% lífslíkur, að lyfjagjöfin tæki í kringum sjö mánuði á tveggja vikna fresti og að þetta kæmi til að hafa mikil áhrif á heilsu mína. En ég ætlaði ekki að láta það stoppa mig í að ná markmiðum mínum og njóta lífsins.
Ég tók svo einhverja andlega veikindadaga samkvæmt ráðleggingu sálfræðings á spítalanum; ég svo gott sem rotnaði á sófanum í tvær vikur. Þetta hafði ekki áhrif á mig fyrstu þrjá dagana eftir að ég greindist en svo skall raunveruleikinn á og ég þurfti að æla hlutunum út úr mér við eins marga og vildu hlusta til þess að ég gæti melt þetta. Ég átti á þessum tíma samstarfsfélaga sem var í læknisfræði og er læknir í dag og ég man að það símtal var rosalega hughreystandi og að geta talað við hann á meðan á lyfjagjöf stóð var mikill léttir. Hann stóð sig frábærlega fagmannlega. Ég er nokkuð viss um að hann hafi persónulega ekki þekkt helminginn af heilbrigðisstarfsfólkinu sem ég nefndi við hann í þessu samtali en hann fullvissaði mig um það að þetta væri allt saman fagfólk sem vissi hvað það væri að gera. Hann gerði sér grein fyrir því að þetta væri það sem ég þyrfti að heyra.
Svo var það einhvern veginn bara búið. Ég skil svo sem að fólk þurfi að melta sjokk og vinna sig í gegnum hluti. Þetta er orðið svo langt síðan að ég man ekki hugarfarið frá degi til dags á þessum tíma en þetta var það sem stóð upp úr.“
Jökull Tandri fór aftur að vinna og byrjaði í lyfjameðferð. „Ég vann í þrjá mánuði eins og hestur og svo byrjaði ég hægt og rólega að finna fyrir þessu. Ég átti á þeim tíma mjög góðan lærimeistara, Daníel Sigurgeirsson, sem studdi mjög vel við bakið á mér sem og samstarfsfólk mitt allt. Kennararnir í Menntaskólanum í Kópavogi á þeim tíma, Ragnar Wessmann og Guðmundur Guðmundsson ásamt Baldri Sæmundssyni áfangastjóra, eiga meira en allt hrós skilið fyrir liðlegheit og stuðning. Að ónefndum samnemendum og veitingadeildinni allri.“
Veikindin urðu til þess að námið sem átti að taka þrjú og hálft ár tók fjögur og hálft ár. „Ég þurfti að taka bóklega og verklega þáttinn í pörtum og vinna það svolítið öðruvísi en ella.
Ein af ástæðunum fyrir því að námið lengdist var að ég fékk taugaáfall eftir að lyfjameðferðinni lauk. Ég var kominn í verklega kaflann í náminu og stóð í miðjum tíma og þar sem venjulega er röð og regla á gátlistum og skipulagi í eldhúsi sá ég bara óreiðu, stressið magnaðist og þetta helltist yfir mig ég fór úr stofunni og ég dró mig í hlé inn á salerni í örugglega klukkutíma að ofanda, ofhugsa og gráta í hendurnar á mér. Ég dró mig svo saman og fann kennarann minn. Ég sagðist ekkert kunna eða vita ekki neitt, ekki vilja vera í þessu fagi lengur, að þetta væri of mikið. Hann hughreysti mig og bauð fram mikla aðstoð og lærimeistari minn tók við keflinu og sannfærði mig um að snúa ekki baki við faginu. Ég ber miklar þakkir til þeirra beggja í dag. Ég fór í starfsendurhæfingu og sálfræðimeðferð í kjölfarið; þetta voru kannski ekki meira en fimm til sex viðtöl og þar fundum við og ráðgjafinn út að það væri best að taka þetta í köflum og stressa okkur ekkert of mikið á hlutunum. Svo endaði það á því að ég var útskrifaður frá þeim og kom svo aftur inn á vinnumarkaðinn.“
„Ég man eftir því að litli frændi minn á þeim tíma brast í grát þegar hann fékk fréttirnar, aðallega af því að móðurbróðir minn hafði dáið úr krabbameini nokkrum árum áður. Hann var kannski á þeim aldri að þar sem einn fjölskyldumeðlimur var fallinn frá út af krabbameini þá er krabbamein sami stimpill og dauði. En ég slapp við það og hélt upp á tvítugsafmælið mitt með fullt af fólki og höfðu allir gaman af. Þetta hafði svo sem engin andleg áhrif fyrr en hárið fór að hverfa. Mig minnir að ég hafi verið með síðara hár en ég er með í dag. Ég hafði farið á þungarokkstónleika með vinum mínum, fór svo heim og sofnaði og þegar ég vaknaði var hringur af hári á koddanum – hár sem hafði dottið af vegna lyfjameðferðar. Ég bölvaði hástöfum, fór beint út í bíl og á rakarastofu og lét snoða mig samdægurs. Ég ætlaði sko ekki að horfa á hárið hverfa smátt og smátt og það var ekki fyrr en eftir þessa klippingu sem fólk fór fyrst að taka eftir því að eitthvað væri að.“
Lyfið rann um æðarnar og svo kom að því að Jökull Tandri hélt í fyrrnefnda ferð til Þýskalands og vegna hennar var ákveðið að fresta einni lyfjagjöf þangað til hann kæmi til baka. „Það var ósköp gaman á þessari útihátíð og líkaminn lifnaði við af því að lyfjagjöfinni var frestað. Hárið ákvað að byrja að spretta aftur og allt í einu kom einhver skeggrót og viti menn; allt í einu fór allt í gang og svo þurfti maður að koma aftur heim í tilveruna og niðurtúrinn eftir þessa viku og vikan þar á eftir er líklega versta vika sem ég hef lifað. Að leyfa líkamanum að fara af stað aftur og skjóta hann svo niður er mögulega versta hugmynd í heimi. Ég get allavega ekki mælt með því þó hátíðin hafi verið geggjuð. Annars var þetta besti megrunarkúr sem ég hef nokkurn tímann farið í. Ég var örugglega 89 kíló þegar ég byrjaði í meðferðinni og var kominn niður í um 70 kíló í lok hennar; lystarleysi hafði mest áhrif þar. Ég var kallaður inn á fund fyrir seinustu lyfjagjöfina í september sem ég átti að fara í og var mér sagt að þetta liti allt vel út og væri allt á réttri braut en það þyrfti að bæta við mánuði af lyfjagjöfinni. Og það var ákveðinn andlegur skellur á sínum tíma að þurfa að sætta sig við það að það væri mánuður eftir af pyntingum sem maður bjóst ekki við. Það vissulega tók á en maður kláraði það bara og skilaði sínu. Þetta endaði allt saman vel.“
Jökull Tandri var í eftirliti næstu árin og fór síðast í skoðun árið 2015, þar með útskrifaður úr krabbameinsmeðferð.
Hvernig hefur þessi lífsreynsla breytt honum?
„Þetta kveikti í rauninni á lífsviljanum í mér og keyrði mig áfram í því að njóta lífsins. Ég hugsaði með mér að ef þetta færi allt í fokk og ég myndi enda dauður þá vildi ég hafa prófað eitthvað nýtt eitt sumar. Síðan hafa flest sumur verið á þann máta að finna nýjar lífsreynslur eða njóta þess sem veitir mér ánægju með minni fjölskyldu og vinum. Leita uppi nýjar áskoranir og bara njóta þess að hafa gaman af lífinu og vera ekkert alltaf að setjast í sama farið.
Þegar nánir vinir mínir eða samstarfsfélagar hafa lent í því að fjölskyldumeðlimir þeirra fá krabbamein þá er ég mjög ofarlega á lista þeirra sem hringt er í. Þá vantar einhvern til þess að tala við sem hefur upplifað þetta og til að vita hverju þeir mega búast og ég hef verið mjög opinn með að ræða þessa lífsreynslu mína þannig að dyrnar liggja opnar. Ég hef ítrekað að það er sama hvað gerist – það á að njóta tímans sem viðkomandi hefur með manneskjunni sama hvernig horfurnar eru og ekki vera að minna hana á veikindin. Það á frekar að láta hana hugsa um eitthvað annað; draga hana út úr húsi og hafa lit og hlátur í lífinu og ekki láta það aftra sambandi við hana að hún sé orðin veik.“
Gefendr heilir!
Gestr er inn kominn,
hvar skal sitja sjá?
Mjök er bráðr,
sá er á bröndum skal
síns of freista frama.
Þegar eldtungurnar og askan þeyttust upp úr Eyjafjallajökli gaus eitthvað upp í huga unga mannsins sem barðist fyrir lífi sínu með hjálp sterkrar lyfjagjafar. Lífssýn hans breyttist. Hann vildi gera eitthvað nýtt. Prófa eitthvað nýtt. Hugsaði með sér að hann væri ekki ódauðlegur og velti fyrir sér hvað hann gæti gert skemmtilegt í lífinu. Hann átti vin sem gekk á þessum tíma í víkingafélagið Rimmugýgi í Hafnarfirði, bæ álfanna, en um er að ræða félag áhugafólks um menningu og bardagalist víkinga. Og Jökull Tandri skráði sig í félagið ásamt öðrum vini sínum og fór að æfa bardagaíþróttir auk bogfimi og lærði grunn í handverki víkingaaldar og er í dag í forystu félagsins sem Jarl Rimmugýgjar.
„Þetta er 27. starfsár félagsins sem hefur verið viðloðandi Víkingahátíðina í Hafnarfirði frá upphafi. Þetta er leið til þess að halda sögunni lifandi og miðla henni til komandi kynslóðar á heilsteyptan og fjölskylduvænan máta án þess að fara yfir einhver strik eða einhver velsæmismörk. Við erum með bardagaæfingar tvisvar í viku, við erum með bogfimiæfingar einu sinni í viku og handverkshittingar eru fyrsta og síðasta laugardag í hverjum mánuði. Þess á milli hittast félagar heima hjá hver öðrum og eru að smíða eða spila saman eða bara njóta samverunnar. Opinberlega hittumst við þrisvar til fjórum sinnum í viku yfir veturinn. Svo þegar kemur að sumrinu þá erum við með hátíðir ýmist í mismunandi bæjarfélögum eða á Eiríksstöðum. Við förum á Þingeyri, við erum alltaf í Þjóðminjasafninu á menningarnótt og svo er það auðvitað Víkingahátíðin á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Við förum svo í þriggja vikna útrás til Færeyja og Danmerkur.“
Jökull Tandri er spurður hvað það er við víkingatímann sem heillar hann.
„Það er þessi sagnaarfur og þetta sögudjásn sem er okkar og sem er svo einkennandi fyrir skandinavískan kúltúr. Það er svo notalegt að geta fundið sér eitthvað og deilt því. Mín ánægja tengist mest því að það er hægt að deila þessu; að það geti hver sem er komið að þessu.Handverkið hefur sinn sjarma og það er hægt að vinna með fornum aðferðum eða nýjum. Bardagalistin hefur sinn sjarma; ég er karlmaður og ég er bara þannig lagað lítið barn með prik þegar kemur að henni – endalaus skemmtun. Hvað bogfimina varðar þá tengist henni ákveðin reisn og fókus sem þarf til þess að verða góður bogmaður. Þessi lifandi fornleifafræði sem við erum að stunda á einhvers konar viðvaningsgráðu hefur í för með sér að við höfum þekkingu sem er svo hægt að nýta og sækja í þegar söfn, fræðimenn og áhugamenn eru að leita að upplýsingum eða fólk með reynslu á því að hafa notað ákveðna hluti frá víkingaöld eða vantar einhverja sem geta miðlað fræðinni. Og við getum sýnt fram á hvernig hlutir voru notaðir samkvæmt fræðum eða hvernig hægt er að hugsa sumt út frá nútímasjónarmiði og hvað væri hægt að nýta fyrir rannsóknir og hvað ekki. Þetta er svo fjölþætt.
Ég geng í þessu félagi í dag umkringdur góðum félögum, valdri fjölskyldu og áralöngum vinasamböndum sem láta ekki lítinn hlut eins og landamæri stoppa sig í að njóta góðra stunda saman.“
Jökull Tandri klæðist oft fötum sem minna á fatnað víkinga til forna.
„Þetta eru bara fötin mín. Fólk leggur sig fram við að búa til fatnað sem það er stolt af. Ég hef mætt í þessum fatnaði í brúðkaup og aðrar veislur hvort sem það er með félögum í Rimmugýgi eða ekki. Ég vel mér kannski tækifærin en skammast mín ekki fyrir að mæta eins og einhver „trúður“ ef ég má orða það þannig en í huga sumra er það þannig. Ég skammast mín ekkert fyrir að stinga í stúf við það sem er annars til staðar – ég mæti bara í mínum fötum og er stoltur af því. Ég á handgerða leðurskó og ég er með fótavefjur úr ull sem ég vef um fæturna til að halda hlýju á líkamanum og eru þær þrílitaðar með lauk skeljum. Þær eru svo bundnar með silkibandsfléttu og festir bronsnæla þetta allt saman. Þar fyrir ofan eru rus-buxur úr ull; kenndar við víkinga sem sigldu um Volgu, eiginlega pokabuxur. Svo er ég með hörkyrtil og hrásilkiyfirkyrtil. Þar fyrir ofan er ég svo með kápu ofna úr ull með fiskibeinamynstri sem ég saumaði sjálfur. Þá er ég með brúna ullarhettu með hrásilkiinnvolsi. Og loks er ég með silkiklút um hálsinn. Ég er með að auki vattasaumaðar grifflur eða vettlinga. Þetta er fatnaðurinn minn í stuttu máli.“
Þennan dag er Jökull Tandri í stuttermabol. Inn á milli er hann í hefðbundnum skyrtum. Sítt og mjótt skeggið. Hvað með það?
„Þetta er það eina sem vex á mér þannig að ég safna þessu. Almennt er það fléttað og skreytt með lituðum perlum eða beini.“
Jökull Tandri kynntist eiginkonu sinni á víkingahátíð í Danmörku árið 2016. Hún er dönsk og heitir Kristine Mærsk Werner og var að fara að flytja til Íslands til að læra norræna trúarbragðafræði þegar þau kynntust og hefur hún búið hér síðan. Þau eiga þriggja ára gamlan son, Vála Dagfara, og eiga þau von á öðru barni, stúlkubarni, sem þau ætla að gefa nafn að hluta dregið úr norræni trú. Og auðvitað á Váli Dagfari lítil víkingaföt.
Elds er þörf,
þeims inn er kominn
ok á kné kalinn;
matar ok váða
er manni þörf,
þeim er hefr um fjall farit.
Foreldrar Jökuls Tandra eru í Hvítasunnusöfnuðinum og ólst hann upp með því að fara þar á samkomur og taka þátt í ungliðastarfi þar. „Ég tók ekki fermingu, þverneitaði því, en endaði á því að taka niðurdýfingarskírn af því að svo heppilega vildi til að á sama tíma og fermingar stóðu sem hæst var verið að taka þrjá eða fjóra aðila í niðurdýfingarskírn og ég spurði bara hvort ég mætti hoppa með. Svo var haldin eiginleg fermingarveisla eins og ekkert hafi í skorist. Það var mín innganga í fullorðinna manna tölu.“
Hann las á þessum tíma frétt um að Ásatrúarfélagið hafi gefið björgunarsveitum tvær milljónir króna og leist honun svo vel á að hann ákvað að ganga í félagið. „Ég man ekki hvernig ég var stemmdur þann daginn en þetta var eftir að ég greindist og eftir að ég byrjaði í meðferðinni. Það var eitthvað svo fallegt við þessa gjöf, faðir minn og systkini ásamt fleirum í fjölskyldunni hafa öll verið við björgunarsveitina kennd hvort sem það er stutt eða langt, þá eða nú.
Ég las goðheimabækurnar þegar ég var barn og ætli þar hafi ekki verið kveikurinn að því báli sem er áhugi minn á sagnaarfinum,“ segir hann en hann heillaðist af menningararfinum sem finna má í tengslum við ásatrúna. „Mér fannst það náttúrulegra að setja mína skattpeninga í Ásatrúarfélagið heldur en kirkju af hvaða sort sem er til að upphefja menningararfinn.
Þegar ég fór að kynnast ásatrúnni þá heillaðist ég af fegurðinni við það að geta mætt á blót. Það eru þessar fallegu manngervingar náttúruafla sem ásatrúin er svo auðskilin og opin hverjum sem vill í hana sækja og félagið er tilbúið að veita fólki þann stuðning sem það þarf. Þetta er upphafning á vorum sið. Þetta er miðlun menningararfs. Ég get persónugert náttúruöflin í þessi goð, gyðjur og vættir og á létt með það. Ég trúi því að það sé einhver æðri máttur en hvort það sé Þór á rúntinum í þrumuveðri eða Loki í öngum sínum þegar jörð skelfur; það er ekki mitt að svara hvort það sé raunin, heldur að miðla því áfram á þann hátt sem mér finnst passa við vorn sið og mína persónu.“
Jökull Tandri og Kristine giftu sig að heiðnum sið og Jóhanna Kjalnesingagoði gaf þau saman og gaf einnig syni þeirra nafn. Jökull Tandri er ekki einungis í Ásatrúarfélaginu heldur er hann auk þess goði. Dalverjagoði. Hann segir að fólk geti ekki boðið sig fram sem væntanlegir goðar heldur þurfi að stinga upp á því. Það var stungið upp á honum og við tók tveggja ára þjálfun og fékk hann svo embætti hjá sýslumanni til að geta framkvæmt hjónavígslur, nafngjafir, siðfestur og útfarir.
„Ég er búinn að sjá um sex hjónavígslur og eina nafngjöf. Ég hélt landvættablót fyrsta desember en þá var verið að blóta alla landvættina á sama tíma; gamminn fyrir norðan, griðunginn fyrir vestan, bergrisann fyrir sunnan og drekann fyrir austan. Síðan heldur allsherjargoði sameiningarblót á Þingvöllum.” Dalverjargoðinn segir að á blótum sé til dæmis sungið heill goða og landvætta. „Á vetrarsólstöðum, sem eru jól heiðinna manna, er svo verið að minna fólk á að þrátt fyrir að það sé dimmt þá er byrjað að lýsa; móðir jörð vaknar hægt og rólega á nýju ári. Á þessum blótum er svo verið að njóta samveru og heiðra vorn sið og það er svo ýmist farið með kvæði úr Völuspá, Eddukvæðum og fleiru.
Unnið er með lífshringinn sem er gerður sjáanlegur í því að við goðarnir berum eiðbauga sem eru skreyttir baugar úr málmi sem eru opnir en sem við lokum þegar er verið að sverja eiða á þá. Þessi hringur er sterkt merki innan ásatrúarinnar; að lífið gengur í hringrás – samningar og eiðar eru gerðir á baug þegar hringnum er lokað til að ítreka mikilvægi og festu þeirra samninga og loforða sem maður gerir.“
Hvernig fer hjónavígsla fram hjá Ásatrúarfélaginu? „Byrjað er á því að helga staðinn og þá sem saman komnir eru; sérstaklega er kallað til Freyju, Frigg og Vár sem votta að athöfninni. Ýmsar persónulega óskir koma á milli hvort sem um tónlist eða hefðir er að ræða en að lokum sverja hjónaefnin sinn eið til hvors annars á eiðbaug. Ýmist eru skipst á hringum en ekki alltaf en það fer eftir hjónaefnum. Svo kemur að því sem situr oftast eftir hjá fólki sem ekki hefur sótt heiðna hjónavígslu áður. Hornið er látið ganga í athöfninni eftir að við förum með Brynhildarljóð; þar sem valkyrjan Brynhildur er að tala við Sigurð fáfnisbana úr Völsunga sögu. Þar segir hún:
Bjór færi eg þér,
brynþinga valdr,
magni blandinn
og megintíri.
Fullur er ljóða
og líknstafa,
góðra galdra
og gaman rúna.
(Úr Völsunga sögu.)
Svo gengur hornið hringinn og þá fá allir að bæta sínum óskum og kveðjum í mjöðinn sem í því liggur. Við setjum reyndar alltaf vatn í það til að allir geta notið sama hvaða athöfn er en hjónaefnum er frjálst að setja hvað annað sem þau vilja. Það fá allir að setja sínar heillaóskir og sína góðu galdra og gamanrúnir í mjöðinn í sínum orðum hvort sem það er að lyfta horninu og segja „heill“, fara með einhverjar stökur og ræður eða segja sínar þakkir til brúðhjóna. Þar að lokum taka brúðhjónin sitthvorn sopann af horninu, þakka þeim sem hafa komið og sótt brúðkaupið og svo er því sem eftir er í horninu fært sem bæti til móður jarðar og staðvætta. Síðan er hjónavígslan staðfest, hjónaefnum leyft að innsigla allt með kossi og svo er haldið til veislu.”
Dalverjagoðinn segir að það gefi sér mikið að geta deilt og haldið uppi þessum sið og þessari sagnfræði sem slíkri; komið henni áfram til komandi kynslóða. Og hann nefnir að kynnast nýju fólki og fá að deila ánægju með kunnugum og ókunnugum.
Hann er ungur; 33 ára. Dalverjagoði. Jarl. Eiginmaður. Faðir. Og með reynslu að baki sem var sár andlega og líkamlega.
„Í gegnum krabbameinsmeðferðina, sársaukann og það stress sem því fylgdi þá tengdi ég mikið við sögurnar af Loka sem er bundinn niður yfir steinana með görnum sonar síns og með eiturslönguna hangandi yfir sér. Og eins og ég horfi á það í dag þá er ég vissulega búinn að ganga í gegnum ákveðna helraun sem má kannski líkja við hana.“ Sem merki um þessa lífsreynslu ætlar hann að flúra Loka bundinn á upphandleginn sem áður var stunginn með sprautum með eitri í til að drepa krabbameinsfrumur. Nú situr þar hrafn og úlfur: Huginn og Sköll. Það á eftir að flúra úlfinn Hata og hrafninn Muninn á hinn handlegginn. Svo er þar galdrarúnin Sverð sem rekur sig til 16. aldar og vantar á móti henni galdrarúnina Skjöld.
Vatns er þörf,
þeim er til verðar kemr,
þerru ok þjóðlaðar,
góðs of æðis,
ef sér geta mætti,
orðs ok endrþögu.
(Úr Hávamálum.)