Þegar sígur á seinni hluta jólabókavertíðarinnar finnur maður til þakklætis yfir fjölbreyttu úrvali og háum gæðum. Bókaútgáfa er ekki auðveldur bissniss, síst af öllu á litlu markaðssvæði eins og Íslandi, og það er ekki sjálfgefið að rithöfundar, bókaútgáfur og bóksalar tryggi jafngott úrval og raun ber vitni. Arðurinn er ekki mikill í krónum talið en við sem njótum þess að lesa fáum úr nægu góðmeti að velja.
Í síðasta Bókaspjalli ræddi ég stuttlega um þrjár æsispennandi og hnausþykkar skáldsögur. En það er líka mikil gróska í smásagna- og ljóðagerð hér á landi. Undanfarið hef ég lesið tvö smásagnasöfn. Annað þeirra er Aksturslag innfæddra eftir Þórdísi Gísladóttur, virtan höfund og þýðanda. Fremst í bókinni birtist sú athugasemd að sögurnar í henni, sjö talsins, séu byggðar á raunverulegum atburðum og persónum. Þetta er óvenjuleg og ögrandi athugasemd, þó að ekki ætli ég að efast um sanngildi hennar. En maður hugsar með sér við lestur hverrar sögu: Var þetta virkilega alveg svona? Er þetta sönn saga? Furðulegar tilviljanir setja mark sitt á sumar sögurnar á meðan aðrar lýsa tengslum sem eru óræð og erfitt að skilgreina þau. Hversu nánar eru í raun tvær manneskjur sem kalla sig vini? Þetta eru skemmtilegar sögur með frumleg sjónarhorn á tilveruna og einstaklega raunverulegar.
Þórdís dregur gjarnan upp æviferil eða drjúgt æviskeið persóna sinna í fáum dráttum, en smásagnahöfundurinn Ísak Regal varpar sprengjum inn í líf sinna sögupersóna. Í mörgum sögunum verður óvænt og sjokkerandi truflun á vanagangi tilverunnar. Sara og Dagný og ég er fyrsta bók höfundar og er býsna lunkið byrjandaverk. Það er hætt að koma manni á óvart að sjá góðar smásögur eftir unga og óþekkta höfunda eftir þá miklu grósku sem hefur verið í smásagnagerð undanfarin ár, en Ísak Regal er prýðileg viðbót. Titilsaga bókarinnar er eftirminnileg lýsing á ofsóknaræði en í sögunni Bylgjulengdir sýnir höfundur sterk tök á frásagnartækni sem nær hámarki þegar ein persónan bjargar sér frá því að falla á áfengisbindindi með því að grípa annars konar tækifæri til nautnar og útrásar, kost sem virtist ekki spennandi í upphafi sögunnar. Verslunarmannahelgin lýsir því þegar saklaust barn dregst skyndilega inn í hringiðu hættulífs fullorðinna og svo verður óhugnanleg uppákoma á saklausri barnasýningu í Stjörnubíói. Sumar sögurnar lýsa baráttu ungs fólks við fíkn en allar sögurnar eiga það sameiginlegt að frásagnarmátinn er beinskeyttur og blátt áfram, engar málalengingar eða heimspekilegar hugleiðingar, höfundur einsetur sér að sýna eins og myndavél fremur en að segja frá, og því síður að predika.
Fjölmargar ljóðabækur eru í boði af ýmsu tagi og ein þeirra, Mannakjöt, er eftir ungan höfund, Matthías Jochum Pálsson, íslenskufræðing og blaðamann á Vísir.is. Myndrík og hvöss ljóð draga upp mynd af firrtum nútímamanni á valdi fíknar og græðgi, og hringrás lífsins opinberast á nöturlegan hátt. Þetta eru kraftmikil ljóð og hér birtist eitt þeirra:
Á ljósu borði
Bak við flúorlýst borð
glottir kjötkarlinn
stingur rassgarnarenda merar
úr tönnum sér
ekkert nautakjöt eftir
blóðmerakjötið virðist blóðlítið
einmana svínshöfuð starir reitt út í loftið
ofvaxin hæsnabringa glennir sig.
karlinn býður mér soltinn sviðakjamma
frosna og ósoðna blóðmör
lambahjörtu frá síðustu haustslátrun
riðulaus að hans sögn
baka til geymir hann allra besta kjötið
exótísk delikatessen
fílsungalundir
aldarfrosinn geirfugl
fullan bát af flóttafólki