fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Guðlaug segir að sonur hennar hefði ekki lifað biðina af – „Ég þurfti að hringja á sjúkrabíl í eitt skiptið“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 4. desember 2023 19:29

Guðlaug Baldursdóttir/Aðsend mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðlaug Baldursdóttir er móðir fíkils og stofnaði nýverið Samtök aðstandenda og fíknisjúkra (SAF) ásamt Dagbjörtu Ósk Steindórsdóttur.

Eftirfarandi er aðsend grein. Við gefum Guðlaugu orðið:

Ég er móðir langt gengins fíkils og hef reynt að berjast fyrir hann með veikum mætti og hef sennilega prufað öll þau ráð sem ég hef fundið til að koma honum til hjálpar. Byrjaði að skrifa blogg og hef farið í viðtöl, meðal annars á Hringbraut, til að vekja athygli á aðstæðum fárveikra sjúklinga og aðstandendum þeirra. Ekki hef ég uppskorið það sem ég hafði hugsað mér, heldur fannst mér þetta eins og væl í konu úti í horni. Sonur minn byrjaði ungur í neyslu og hann fór í sína fyrstu afeitrun á Vog um 16 ára aldur og hefur farið í þær ansi margar síðan.

Ég hef notað öll þau úrræði og komið þeim á framfæri til að aðrir aðstandendur í sömu stöðu geti nýtt sér þau. Ég skrifaði um það þegar ég afeitraði hann svo hann kæmist inn á Hlaðgerðarkot en þá var biðlistinn á Vog svo langur að hann hefði ekki lifað þá bið af, enda ekki að ástæðulausu að við köllum þetta „Dauðalistann“.

Það var ekki auðvelt, enda hann í mjög slæmri neyslu og ég var eiginlega skíthrædd. Þá ekki við son minn heldur fíkilinn. Ég þurfti að hringja á sjúkrabíl í eitt skiptið þar sem öndunin var mjög grunn og ég gat ekki komið honum til meðvitundar. Þeir komu í lögreglufylgd og þar sem ég þorði ekki fram úr herberginu mínu, þurfti ég að henda lyklunum að íbúðinni út til þeirra. Þetta og annað úrræðaleysi og máttleysi í stjórnvöldum hef ég reynt að vekja máls á en ekki náð til þeirra.

Maður þarf stundum að breytast í dólg

Ég hef kynnst heilbrigðiskerfinu mjög vel, ég hugsaði um fárveika systur mína sem glímdi við sjaldgæft krabbamein síðastliðin tvö ár og bróður minn sem einnig var með krabbamein. Þau dóu bæði á árinu vegna sinna sjúkdóma. Mér er þannig kunnugt um góðu hliðina á heilbrigðiskerfinu. Það að geta hringt í sjúkrabíl og vitað að ástvinur þinn er í fullkomlega öruggum höndum er léttir og gefur manni visst öryggi að vita að hann sé í bestu höndum og fái fullkomna þjónustu.

Ég hef hins vegar komið með son minn, oft illa til reika og honum verið vísað frá. Til dæmis í haust, hann var með tvöfaldan ökkla vegna sýkingar og var honum bent á að fara til Frú Ragnheiðar. Strákurinn minn þurfti ekki hreina sprautu en hann þurfti myndatöku og verkjalyf og væntanlega sýklalyf. Nú hvað gerir örvita maður sem er verkjaður nema hringja í mömmu sína sem að sjálfsögðu fer með hann aftur um miðja nótt og heimtar skoðun. Maður þarf stundum að breytast í dólg sem er ekkert skemmtilegt fyrir svona miðaldra konu sem er ekki þekkt fyrir dólgslæti. Þegar sonur minn, fárveikur, var svo skoðaður á biðstofunni þá varð ég reið. Hvar er virðingin og nærgætnin? Ég var svo reið.

Lógó samtakanna.

Samtök aðstandenda og fíknisjúkra

Þegar Gunnar Ingi Valgeirsson byrjaði með Lífið á Biðlista og þættirnir birtust með öllum sínum sorglegu þáttum þá brast eitthvað innra með mér. Ég hafði samband og við ásamt Dagbjörtu Ósk Steindórsdóttur ákváðum í kjölfarið að stofna SAF (Samtök aðstandenda og fíknisjúkra).

Hjálpið okkur aðstandendum að koma okkar sjúklingum undir læknishendur þegar þeir þurfa á því að halda. Ekki eftir átta mánuði á biðlista og ekki eftir að við mæður höfum afeitrað viðkomandi. Takið þennan stanslausa ótta og máttleysi sem fylgir því að vera aðstandandi og gefið okkur von um að okkar veika fólk fái lækningu eins og aðrir þegar þeir leita eftir henni.

Nú verða haldin mótmæli á Austurvelli laugardaginn 9. desember klukkan 13:00-15:00.

Páll Óskar mun koma fram ásamt því að nokkrir stjórnmálamenn munu tala.

Höfundur: Guðlaug Baldursdóttir.

Smelltu hér fyrir viðburðinn og hér fyrir Facebook-síðu SAF.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife
Fókus
Fyrir 5 dögum

Stórstjarnan gerir upp árið í myndbandi og minnist ekki orði á Ben

Stórstjarnan gerir upp árið í myndbandi og minnist ekki orði á Ben