Klippan hér að ofan er hluti af nýjasta þætti af Fókus, sem má horfa á í heild sinni hér.
Árið 2020 hætti Stefanía með barnsföður sínum. Þá var sonur þeirra eins og hálfs árs og aðeins þremur mánuðum áður höfðu þau komist að því að þau ættu von á öðru barni.
Við tók krefjandi tími, þar sem Stefanía var atvinnulaus vegna heimsfaraldurs, einstæð og ólétt. Hún þurfti líka að aðlagast breyttu fjölskyldumynstri sem hún segir að hafi verið mjög erfitt.
„Mér fannst það eiginlega svona það erfiðasta við að skilja, að þurfa að deila forræði. Af því að ég var ekki að eignast börn til þess að þurfa að deila þeim. Og fyrst um sinn átti ég rosa erfitt með að vera frá syni mínum og alveg fyrst vildi ég skipta daglega en ég fattaði að það væri ekki endilega best fyrir barnið. Svo færðum við okkur yfir í 2-2-3 sem gekk ágætlega. Svo eftir að stelpan fæddist, þegar hún var um sex mánaða fór hann að taka hana dag og dag. Svo skiptum við yfir í viku og viku og höfum haft það þannig síðan,“ segir hún.
„Þetta eru ótrúlega blendnar tilfinningar. Mér finnst rosalega erfitt að vera frá þeim, en samt á sama tíma mjög dýrmætur tími fyrir mig. Dýrmætt fyrir mig og dýrmætt fyrir þau, ég er betri mamma fyrir vikið því ég er alveg endurnærð þegar ég fæ þau til baka. En þetta var og er ennþá erfitt. Vont en það venst.“
Aðspurð hvort hún sé með ráð fyrir foreldra sem eru að ganga í gegnum þetta ferli, að skilja og deila forræði, segir hún:
„Börnin eru alltaf í fyrsta sæti, númer eitt, tvö og þrjú. Sama þótt það sé ósætti milli foreldra eða erfiðleikar, maður verður að setja það allt til hliðar fyrir börnin. Alltaf einmitt að koma vel fram, tala vel um hitt foreldrið. Þó maður sé ekki alltaf sáttur, en fyrst og fremst að hugsa um börnin.“
Stefanía viðurkennir að það geti verið krefjandi, enda sé ástæða fyrir því að fólk hætti saman. „Ég hef oft þurft að minna sjálfa mig á að ég sé að gera þetta fyrir þau. Ástæðan fyrir sambandsslitum, eftir 20 til 30 ár, skiptir engu máli, ekki neinu. En það skiptir börnin alltaf máli að mamma og pabbi hafi verið vinir og vinaleg hvort við annað,“ segir hún.
„Það er líka svo eðlilegur hlutur að vera saman, vaxa í sundur og hætta saman. Það í sjálfu sér er ekkert persónulegt. Einmitt að ræða hlutina eins og þeir eru, fyrirgefa og halda áfram ef maður getur. Því eftir einhvern tíma skiptir þetta engu máli í stóra samhenginu.“
Stefanía segir nánar frá þessu í spilaranum hér að ofan, horfðu á þáttinn í heild sinni hér.
Fylgstu með Stefaníu á Instagram og smelltu hér til að hlusta á tónlistina hennar á Spotify.