Hvað eiga Katy Perry, Karl Breta konungur, Justin Bieber, George Bush og Bill Clinton sameiginlegt? Kannski ekki margt við fyrstu sýn, en samkvæmt samsæriskenningasinnanum David Icke, og fylgjendum hans, eiga þau það sameiginlegt að vera ekki mennsk, heldur eðlur.
Samsæriskenningin um að eðlufólk, af framandi uppruna, hafi laumað sér inn í samfélag manna, er lífseig. Eðlufólk á að hafa villt á sér heimildir, klifið metorðastigann á flestum sviðum samfélagsins og þannig komist til áhrifa. Talið er að kenninguna megi rekja um 100 ár aftur í tímann, til vísindaskáldskapar. Saga birtist í tímaritinu Weird Tales árið 1929 þar sem notast var við hugmyndir úr guðspeki (e. theosophy) um týndu heimsálfurnar Atlantis og Lemúru og þá einkum þá kenningar að þar hafi lifað svonefndir drekamenn, blanda af skriðdýri og manni, sem gátu auðveldlega brugðið sér í gervi manneskju.
Það var svo David Icke sem virkilega gaf kenningunni byr undir báða vængi með bók sinni The Biggest Secret árið 1999. Þar heldur hann því fram að eðlufólk leynist meðal vor. Þetta eðlufólk sé hávaxið, það drekkur blóð, og getur umbreytt sér í hvern sem er. Þetta eðlufólk standi að baki stóru samsæri gegn mannkyninu eins og það leggur sig og hefur starfsstöðvar neðanjarðar.
Hvers svo sem ástæðan er þá hafa margir keypt þessa kenningu og keppast við að kempa myndir og myndskeið af áhrifa- eða valdamiklu fólki í von um að finna þar sönnun um eðlu-eðli þeirra. Meint myndskeið hafa farið í dreifingu þar sem hinn og þessi er sagður blikka eðluaugnlokunum, og ýmislegt annað hefur verið týnt til. Og við erum ekki að tala um einhverja tugi manna sem trúa þessu, heldur tugi milljóna. Að sjálfsögðu er enginn þessara milljóna í raun eðla – eða hvað?
Samsærishlaðvarpið Álhatturinn fjallar einmitt um eðlufólk í þessari viku. Þar reyna félagarnir Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór að svara spurningum á borð við hvað einkennir eðlufólk, hvaðan það kemur, hvernig er hægt að þekkja það, og að sjálfsögðu – hvað vill það?
„Kenningin um eðlufólkið, sem stundum er kallað geimeðlur, er líklega ein af furðulegri samsæriskenningunum þarna úti, en hún lifir þó góðu lífi og á sér merkilega marga fylgjendur. Í raun svo marga að sjónvarpsstöðvar hafa séð sér leik á borði og framleitt heilu þáttaraðirnar um eðlufólk, kenninguna og fylgjendur hennar. Reglulega er eins vísað til eðlufólks í dægurmenningu, svo sem bíómyndum og sjónvarpsþáttum.
En er eitthvað til sem raunverulega styður við þessa kenningu, eða er þetta bara glórulaust – en fyndið – þvaður misvitra einstaklinga? Hvað hefur þetta til dæmis með blóðflokka að gera (ef eitthvað) og hvers vegna fæðist sumt fólk með skott? Eru þau kannski afkomendur eðla? Tengist þetta jafnvel á einhvern hátt fornri menningu Egyptalands eða Mesópótamíu? Eða er þetta kannski bara eitt stórt peningaplokk og svikamylla? Eru David Icke og félagar í raun að ganga erinda hulduaflanna gagngert og skipulega til að kasta rýrð á samsæriskenningar og fylgjendur þeirra? Getur verið að þessi kenning sé ekkert annað en dulbúið hatur gegn gyðingum?“
Álhattsfélagar reyna að greina þessa furðulega samsæriskenningu á eins vitrænan, en á sama tíma glórulausan, og hægt er þegar á annað borð er verið að ræða möguleikann á því að einhvers konar eðlur gangi á meðal okkar og hafa komið sér fyrir þar sem manni síst skyldi, og séu í raun að stjórna jörðinni eins og hún leggur sig á bak við tjöldin. Álhattar sóttu sér liðstyrk að vanda en málsmetandi aðili að þessu sinni er Marín Eydal úr föruneyti pingsins.
Svo skellið á ykkur áhöttunum, hlustið á þáttinn og metið hvort fólkið í lífi ykkar er eðlilegt eða eðlulegt.