Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:
Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google.
Það þarf vart að kynna Ellý Ármanns. Hún hefur verið í sviðsljósinu í mörg ár, fyrst sem þula á RÚV og seinna sem fjölmiðlakona, listakona, spákona og svo ótal margt annað. Í sumar tók hún sannkallaða U-beygju í lífinu og fór að starfa í háaloftunum sem flugfreyja hjá Icelandair. Meðfram því er hún að mála, tattúvera, þjálfa og spá, en það er nóg að gera í því síðastnefnda. Hún er fullbókuð út mars og fær fyrirspurnir daglega.
„Fólk er mikið að leita í framtíðina,“ segir hún.
Í þættinum gerir Ellý upp árið sem senn er að líða og deilir með okkur lærdómnum sem hún dró yfir þann tíma. Við fengum hana til að taka tarot-spilin með sér og hún spáði fyrir fimm þekktum einstaklingum, eins og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra og Kristjáni Einari Sigurbjörnssyni, áhrifavaldi. Þáttinn má horfa á í heild sinni hér að ofan eða hlusta á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Aðspurð hvað standi upp úr þegar hún lítur á farinn veg á árinu segir Ellý:
„Bara ég er ástfangin. Ég á svo æðislegan félaga, æðislegan mann. Við erum ekki ennþá gift, erum búin að ætla að gifta okkur í mörg ár […] Það stendur líka upp úr að stelpan mín, sem heitir Ellý eins og ég, býr hjá okkur. Og líka bara allt saman, allt sem ég er búin að ganga í gegnum, ég hef alltaf staðið með mér og hef alltaf ákveðið að vera vinkona mín og það er einmitt það sem ég er alltaf að skrifa á samfélagsmiðla: „Hæ Ellý Ármanns hérna, stattu með þér!“ Og ég bara set allt út sem ég er að hugsa og það sem ég er að upplifa og bara stend með mér. Og eftir að ég gerði það þá fór einhvern veginn allt að ganga upp hjá mér.“
View this post on Instagram
Lexía sem þú lærðir á árinu?
„Aldrei skrifa upp á neitt. Aldrei skrifa upp á nein lán eða neitt, bara aldrei aftur í mínu lífi mun ég gera það þegar kemur að fjármálavitinu. Alltaf að eiga fyrir því sem ég ætla að leyfa mér. Það var lærdómur fyrir mig. Og ekki endilega alltaf segja hvað mér finnst, leyfa fólki bara að vera það sem það er og ekki dæma neinn. Eins og maður segir á ensku: „You do you.“ Og ég bara elska þig eins og þú ert og ætla að leyfa þér að vera það sem þú ert. Sama hvað þú hefur gert og sagt þá elska ég þig eins og þú ert.“
Spennandi tímar eru fram undan og spáir Ellý miklum breytingum í íslenskri pólitík. En næsta ár er ár upphafs, tímamóta og tækifæra.
„Sko, 2 + 2 + 4 eru 8, sem er samtalið á árinu á næsta ári. Það er oft talað um nýtt upphaf, þá heldur maður áfram,“ segir hún og vísar í óendanleikamerkið, sem er eins og tölustafurinn 8 nema á hlið.
„Það er nýtt upphaf núna um áramótin og þá er oft gott að líta aðeins til baka: Hvað gerði ég þá? Ætla ég að bregðast eins við núna? Hvernig ætla ég að vera núna? En áttan er svo sannarlega upphaf, og hún er jafnvægi. Það er allt jafnt. Þannig við erum að fara inn í nýtt upphaf.“
Að lokum ef þú mættir tala beint við landsmenn, hverju viltu miðla til þeirra fyrir árið 2024?
„Verum góð við hvert annað. Og þegar það gengur vel og þú færð allt sem þú þráir, heilsuna, það veraldlega, þegar maður fær allt og á allt, hvað gerir maður þá? Þá gefur maður. Þá er maður örlátur. Verum góð við hvert annað.“