fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Ragnhildur birtir mynd af morgunrútínu barnlauss áhrifavalds – „Margir eru bara að reyna að lifa morguninn af“

Fókus
Miðvikudaginn 27. desember 2023 12:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Stingdu eyrnatöppum í eyrun og hlauptu eins hratt og þú getur næst þegar barnlaus kornungur einkaþjálfari með sveigjanlegan vinnutíma segir þér að þú verðir að tileinka þér heilsusamlegri morgunrútínu.“

Svona hefst færsla Ragnhildar Þórðardóttur á Facebook. Hún er landsþekkt sem Ragga nagli og hafa pistlar hennar um heilsu á mannamáli slegið í gegn um árabil.

Ragga birti mynd af morgunrútínu áhrifavalds og hafði ýmislegt um hana að segja. Hún benti á að umræddur áhrifavaldur sé þrítugur, barnlaus og sjálfsætt starfandi.

Umrædd morgunrútína.

„Margir eru bara að reyna að lifa morguninn af“

Ragga hvetur fólk til að skrolla mjög hratt framhjá myndböndum á samfélagsmiðlum með prédikun um að vakna fyrr til að hamast í tveggja tíma prógrammi.

„Því hjá meginþorra mannfólks er þetta ekki raunhæft. Fyrir marga er það aukin streita að stytta svefn með að vakna fyrr og haka í öll boxin til að massa morguninn. Margir eru bara að reyna að lifa morguninn af,“ segir hún og fer yfir annars konar morgunrútínu sem fleiri tengja örugglega við en þessa hér að ofan.

„Þú ýtir átján sinnum á snústakkann.

Staulast í kaffikönnuna og hellir bleksvartri iðnaðar uppáhellingu í skítugan bolla. Hendir ísmola útí til að koma því hraðar í kerfið.

Hendir þér í þægilega volga sturtu og svitalyktareyðirinn þinn eyðileggur ósonlagið og veldur örugglega krabbameini.

Meðan þú maskarar augað grýtirðu í þig ristuðu Samsölubrauði með kaffinu … enginn ostur til.

Kemur krökkunum í skóna og dúndrar þeim útum hurðina.

Hvar eru helv… bíllyklarnir????

Keyrir í snarhasti í vinnuna og varalitar þig á rauðu ljósi á leiðinni.

Sjálfsniðurrifsbálið í fullum loga.

„Hvað er að mér?“

„Allir hinir eru að massa morgnana sína.“

„Af hverju get ég ekki vaknað fyrr?“

„Aðrar fjölskyldur borða saman hafragraut úr glúteinlausum höfrum, heimagerðri kasjúhnetumjólk, með kanil frá Sri Lanka, lífrænum eplum og chiafræjum.“

Hugurinn reikar í tóman Cheerios pakka á hliðinni á eldhúsborðinu, mjólkurpollur á gólfinu, skálarnar staflaðar í eldhúsvaskinum sem þú skildir við í morgun.“

Fólk er mismunandi

Ragga segir að allir eiga sömu 24 klukkutímana í sólarhringnum en ekki allir búa við sömu aðstæður.

„Ert þú kannski að stunda nám með vinnu, hugsa um veikt foreldri, átt barn með námserfiðleika eða atvinnulausan maka? Er hlaupabrettið kl fimm núll núll raunhæft fyrir þig og þinn lífsstíl? Þarft þú kannski lengri svefn eftir að koma þrem börnum í rúmið? Finnst þér þú eiga skilið Nóbelsverðlaunin ef þú nærð að setjast niður í morgunmat? Ertu kannski engin morgunmanneskja? Mögulega í meira stuði seinnipartinn, en fimmtugar saumaklúbbs skvísur á Sigga Hlö balli? Áttu ekki mínútu aflögu á morgnana eftir böðun, fóðrun og koma börnum í skóla? Þú ert bara að gera þitt besta.

Stundum finnst þér þú eiga skilið að fá aðalstitil frá Kalla konungi. En oftar er það bara rétt að lifa morguninn af án þess að tapa glórunni.

Morgunrútína er ekki það sem skilgreinir þig sem manneskju. Aðlagaðu heilsusamlegar venjur að þínum aðstæðum hverju sinni.

Þú þarft ekki að búa til óþarfa streitu með að troða lífi þínu með skóhorni og smurolíu í kringum að vakna fyrir allar aldir til að þakka öllum vættum, hugleiða í hálftíma, labba berfætt á grasi, drekka macha te, Kveikja í reykelsi og brenna myrru og standa í lótusstellingu áður en börnin rísa r rekkju.

Suma daga geturðu forgangsraðað hreysti og hollustu. Hysjar uppum þig Nike spandexbrók, reimar splunkunýja Altra hlaupaskó og skundar í ræktina. Hendir þér í kalda pottinn og sánu á eftir. Sötrar prótínsjeik með mysuprótíni og haframjöli á leið í vinnuna.

Aðra daga forgangsraðarðu að sofa eins lengi og þú mögulega getur því hver einasta fruma í skrokknum gargar á hvíld. Suma daga er allt í skrúfunni og á síðustu stundu. Ræktin situr á hakanum og kaffilögg grýtt í andlitið í snarhasti. Við þurfum ekki morgunrútínuskömm ofan á alla aðra skömm. Óumbúið rúm segir ekkert um þig sem manneskju. Þú ert ekkert síðri heilsumelur þó þú sért ekki með slavískt tveggja tíma prógramm milli fimm og sjö með átján stórkostlega flóknum atriðum. Hakaðu bara í 2-3 raunhæf box á dag af heilsuhegðun. Það er yfirstíganlegt.

Framgangur trompar alltaf fullkomnun.“

Færslan hefur slegið í gegn og hafa um 650 manns líkað við hana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024