Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson er engum líkur en í gær tók hann sig til og útskýrði íslensku jólasveinanna fyrir útlenskum aðdáendum sínum með nýju lagi og myndbandi.
Þar fer hann yfir helstu mannkosti íslensku sveinanna, til að mynda hvað þeir lykta illa og eru hrekkjóttir. Þá eigi þeir móður sem að sé tröll og étur óþekka krakka og heimiliskötturinn er með svipaðan matarsmekk.
Myndbandið hefur hlotið feykigóð viðbrögð enda afar fyndið en þar má sjá Daða Frey stíga tryllt dansspor í íslenskri sveit.
Tónlistarmaðurinn hefur verið að gera það gott undanfarið en nýlega tróð hann upp á fjórum tónleikum í Þýskalandi þar sem fullt var út úr dyrum. Segist hann hafa stór plön fyrir næsta ár sem verður kynnt aðdáendum síðar.