fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Birna á mann í fangelsi – „Hann er klárlega óþekkur en hann er ekki vondur maður“

Fókus
Laugardaginn 23. desember 2023 18:30

Sjáskot-Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birna Ólafsdóttir er gestur Kiddu Svarfdal í nýjasta þætti hlaðvarpsins Fullorðins. Maður Birnu var nýlega dæmdur í 10 ára fangelsi. Í viðtalinu kennir ýmissa grasa. Birna greinir meðal annars frá því að hún hafi beitt sér fyrir bættri aðstöðu í fangelsum landsins ekki síst fyrir heimsóknir barna fanga og fyrir bættum réttindum fanga. Hún segir einnig frá hvernig börn hennar og mannsins hennar hafa höndlað fangelsisvist fjölskylduföðursins og þeim viðtökum sem hún hefur fengið frá ráðamönnum þjóðarinnar.

Birna greinir í upphafi viðtalsins frá því að hún eigi 4 börn og 4 stjúpbörn og að þau hjónin eigi þar að auki 3 barnabörn. Hún gerir þó ekki nákvæma grein fyrir hversu mörg barnanna fjögurra sem hún á hún hafi eignast með manninum sínum sem hún kallar Gústa í viðtalinu.

Hún segist í raun ekki vera að berjast fyrir bættum réttindum fanga heldur réttindum barna fanga sem beri ekki ábyrgð á glæpum þeirra.

Börn hjónanna eru á mjög breiðu aldursbili þau elstu eru uppkomin en það yngsta rétt að hefja grunnskólagöngu sína. Birna fer með hluta barnahópsins í reglulegar heimsóknir til mannsins hennar og hún segir það hafa verið sérstaklega erfitt í upphafi. Hún segir þetta hafa verið „þung skref að taka.“

Hún segir að þegar fjölskyldan hafi fyrst farið að heimsækja manninn hennar í fangelsið hafi heimsóknartímarnir verið „hlægilegir.“ Hún hafi þá farið að beita sér fyrir því að þeim yrði breytt og henni hafi strax verið vel tekið á æðstu stöðum í stjórnkerfinu.

„Uppáhaldsmaðurinn minn í öllu þessu kerfi er Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra.“

Hún segist einnig hafa hringt í Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands og beðið hann að beita sér í málinu og hann hafi tekið sér afskaplega vel.

Ljóst er þó að forseti Íslands hefur litla aðkomu að fangelsismálum og óljóst hvernig Guðni gat beitt sér í málinu.

Birna segist helst hafa viljað breyta því þarna í upphafi að Barnakot á Litla Hrauni, þar sem maðurinn hennar var þá vistaður, hafi ekki verið opið um helgar og því hafi yngstu börnin þurft að fá frí í skóla til að geta heimsótt föður sinn. Þetta sé óboðlegt og það eigi ekki að bitna á menntun barna að eiga foreldri í fangelsi.

Hún segir að Jón Gunnarsson hafi gengið strax í málið og látið breyta þessu eftir að hún hafði samband við hann og Páll Winkel fangelsismálastjóri hafi tekið fullan þátt í því. Hún er því afskaplega ánægð með árangurinn af því að hafa beint samband við dómsmálaráðherrann þáverandi:

„Þá gerðust kraftaverk“.

Ekki gott viðmót á Hólmsheiði

Birna segir að fangar sem sæti öryggisgæslu en eru ekki í opnu fangelsi hafi leyfi til að fá heimsóknir sem standi yfir í 10 tíma. Aðstaða til þess sé í raun ekki fyrir hendi á Litla Hrauni og því hafi maðurinn hennar verið fluttur á Hólmsheiði á meðan 10 tíma heimsókn þeirra til hans stóð og að hún og börnin hafi heimsótt hann þangað. Hún segir að erfitt hafi verið að koma í fangelsið á Hólmsheiði.

Viðmót fangavarða þar hafi verið erfitt og þeir hafi ekki sýnt nærgætni gagnvart börnunum.

Þau hafi hins vegar látið sig hafa það að fara þangað því að eina aðstaðan sem hafi verið í boði fyrir svo langa heimsókn á Litla Hrauni sé „ömurlegur og ógeðslegur skúr.“ Í skúrnum segir Birna að sé mikil mygla og klóaklykt en hún viti að til standi að bæta aðstöðuna.

Hvernig útskýrirðu fyrir barni að pabbi sé í fangelsi?

Birna segir að hún sé geri sér grein fyrir því að það sé ekki líklegt til vinsælda að mæla fyrir bættum aðbúnaði fanga og að fjölskyldur þeirra séu í erfiðri stöðu:

„Við erum minni máttar.“

Hún segir að það hafi verið sérstaklega erfitt fyrir yngstu börn þeirra hjóna að faðir þeirra hafi endað í fangelsi og hún hafi ekki útskýrt fyrir þeim í þaula hvers vegna svo hafi verið.

Það er ekki gefið upp í viðtalinu fyrir hvað maður Birnu var dæmdur í fangelsi en hún segist hafa útskýrt það fyrir yngsta barninu á eftirfarandi hátt:

„Ég sagði við yngsta að pabbi hefði keyrt of hratt.“

Hún hafi ekki reynt að skýra þetta betur fyrir svo ungu barni. Birna segir að mæður yngstu stjúpbarna hennar hafi farið aðra leið:

„Hinar mæðurnar töluðu um að hann hefði verið með eitthvað ólöglegt.“

Að öðru leyti sé þetta ekki mikið rætt við yngstu börnin en þegar kemur að þeim elstu, sem eins og áður segir séu á fullorðinsaldri, sé full hreinskilni sýnd.

Áfallið gríðarlegt

Birna segir að þegar maðurinn hennar var fyrst hnepptur í gæsluvarðhald hafi áfallið verið gríðarlegt og í raun hafi áfallið verið jafn mikið og ef hann hefði hreinlega dáið.

Fjölskyldan hafi ekki fengið að tala við hann í margar vikur og hún muni hreinlega ekki hvernig hún hafi útskýrt þessa löngu fjarvist fyrir yngstu börnunum.

Maður hennar og aðrir fangar séu sviptir öllu en þeir hætti þó ekki að vera feður barna sinna og passa verði sérstaklega upp á börn fanga því það séu auknar líkur á að þau endi sjálf í fangelsi ef þau eiga foreldri í fangelsi.

Birna segir að fangar séu að of miklu leyti settir undir einn hatt í fangelsum landsins. Það þurfi að flokka þá betur og aðskilja þá sem standi sig vel og séu ekki hættulegir frá þeim sem það eigi ekki við um. Maðurinn hennar sé sekur um það sem hann var dæmdur fyrir en hann sé ekki hættulegur henni eða öðrum:

„Hann er klárlega óþekkur það segir sig alveg sjálft en hann er ekki vondur maður.“

Birna segir að bæta þurfi betrun í fangelsum landsins og þeir fangar sem standi sig vel þurfi að komast fyrr í opin fangelsi og fá dagsleyfi fyrr en maður hennar er nú kominn í fangelsið á Sogni og nýtur því aukins frelsis en hann fær t.d. að hafa síma.

Það þurfi að vera svona gulrót fyrir fanga að ef þeir hagi sér vel og standi sig vel komist þeir t.d. fyrr í opin úrræði.

Söknuðurinn sár

Birna segir að það séu fáir sem vilja berjast fyrir réttindum og aðbúnaði fanga en hún leggur sérstaka áherslu á eitt atriði sem snýr að föngum.

„Þeir eru ekki brotin sem þeir frömdu.“

Maður Birnu hefur verið í fangelsi í nokkurn tíma en hún segir að börnin sakni hans enn sárt, sérstaklega þau yngstu. Börn hennar af fyrra hjónabandi sakni hans sem sýni að hann hafi verið góður stjúpfaðir og því ekki alslæmur. Mestur virðist þó vera söknuðurinn hjá yngsta syni þeirra hjóna en Birna segir þá feðga hafa verið miklir mátar:

„Sá yngsti var alveg eyðilagður og er það enn þann dag í dag. Hann grætur ennþá á nóttunni og vill fá pabba sinn.“

Viðtalið í heild sinni er aðgengilegt áskrifendum Fullorðins en kynningarstiklu með hluta viðtalsins, sem opin er öllum, má sjá hér fyrir neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set