fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Ingibergur heyrði að lækninum var brugðið þegar hún hringdi með niðurstöðurnar – „Hvað ætla ég að gera við tímann sem er eftir“

Fókus
Mánudaginn 18. desember 2023 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var seint í mars á síðasta ári sem Ingibergur Sigurðsson fékk fréttir sem enginn er búinn undir að fá. Hann var með krabbamein, það hafði dreift sér og ljóst að meinið væri ólæknandi. Ingibergur er viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins þar sem hann ræðir lífshlaup sitt. Ofbeldi og óregla á æskuheimilinu markaði hann fyrir lífstíð og sendi hann út í lífið með blæðandi sár á sálinni sem átti eftir að taka hann næstu áratugina að vinna úr. Nú hefur hann öðlast frið í hjartanu og tekst á við næsta verkefni, að kveðja lifið, af æðruleysi. Þrátt fyrir erfið veikindi og áfallasögu er bjart yfir Ingibergi og örstutt í hláturinn og gleðina.

Ingibergur segir það af sér að frétta að fyrir ári síðan fékk hann símtal frá lækni. Hann hafði þá leitað til læknis vegna gruns um nýrnasteina, en hann hafði verið með einkenni sem bentu til þess að slíkt hrjáði hann. Hann var sendur í sneiðmyndatöku og það var svo í mars 2022 sem niðurstöðurnar lágu fyrir, en reyndust þó töluvert verri en reiknað var með.

„Ég man alltaf eftir því að læknirinn var kona, og ég heyrði alveg að henni var verulega brugðið. Hún sagði að ég væri með nýrnakrabbamein, risastórt æxli í vinstra nýra sem hafði dreift sér í bæði lungun og í lifrina. Ég hugaði með mér: „Djöfullinn hafi það, get ég þá ekki farið til Spánar í sólbað?“. Ég hafði heyrt að þeir sem fara í krabbameinsmeðferð þoli ekki sól, þurfi að bera á sig krem og allskonar. Svo ég hugsaði – Hver andskotinn. Þetta gengur ekki. […] Svo í framhaldi þess komu alls konar hugsanir. Hvað ætla ég að gera við tímann sem er eftir, og hvað er það sem skiptir máli? Annað voru svo ferðir sem átti að fara í , en verða aldrei farnar. Eitthvað sem átti að gera en verður aldrei gert. Ég þurfti líka að hugsa hvaða maður ég er, og hvað gerir mig að þeim manni.“

Brosið varð gríma

Ingibergur rifjar svo upp æskuna og hvað hún átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á líf hans. Hans fyrsta minning er að leiða móður sína í Reykjavík og gista með henni í litlu herbergi. Þar voru mæðginin komin til Hjálpræðishersins þar sem ekkert Kvennaathvarf var til á þessum tíma. Faðir Ingibergs drakk mikið og undir áhrifum varð hann ofbeldishneigður.

Í næstu minningu var Ingibergur orðinn eldri og átti yngri bróður. Þá voru þeir bræðurnir búnir að læsa að sér ásamt móður sinni, en fyrir utan var faðir hans bálreiður og braut upp hurðina.

„Hann ruddist þarna inn með hnefann reiddan og sló mömmu bylmingshögg í andlitið svo hún hrasaði aftur fyrir sig.“

Við þetta hafi tennur brotnað í móður sinni og segist Ingibergur svo muna það þegar hún sat í eldhúsinu og bræddi kerti og mótaði gervitennur úr vaxinu til að fela brotið. Þetta ástand var einkennandi fyrir æsku hans. Ingibergur lærði fljótt að vera meðvirkur. Reyna að halda friðinn og láta lítið fara fyrir sér. Hann heimsótti aldrei skólabræður sína á heimili þeirra af ótta við að þeir vildu þá koma heim til hans. En þangað mátti enginn koma, því enginn mátti vita um ástandið. Hann átti því fullt af kunningjum en enga vini. Ingibergur var duglegur í skóla framan að enda vildi hann fá viðurkenningu, vildi heyra að hann væri góður því hann leit alltaf sem svo á að hann væri ekki nóg.

„Maður varð þögull og gríman mín var að brosa. Ef þú sérð myndir af mér frá þessum tíma, þegar ég var lítill, þá er ég alltaf brosandi. En það er svo sársauki inni í manni.“

Ekki yfirveguð ákvörðun að biðja konunnar

Eins og oft gerist eftir svona aðstæður þá sneri Ingibergur sér fljótt sjálfur að deyfandi vímugjöfum. Hann byrjaði ungur að drekka og var einn þeirra sem upplifa það að eftir einn drykk þá verði þeir að verða fleiri. Hann segir móður sína þó hafa gefið sér gott vegarnesti líka. Hún kenndi honum að vera ábyrgur í fjármálum, aldrei kaupa neitt nema eiga á því efni, og eins að vera heiðarlegur og standa við gefin loforð.

Hann flosnaði 18 ára upp úr námi, endaði á götunni, og eftir að hafa flakkað á milli verkamannastarfa endaði hann á sjónum. Enda starf sem á þeim tíma hentaði ágætlega drykkfelldum. Þannig gat hann þénað ágætlega og kostað áfengisneysluna. Hann segir að svona hafi árin liðið og hann silaðist í gegnum lífið, oftast í prómilli. Svo fékk hann þá snilldarhugmynd að ganga í hjónaband.

„Kannski er bara best að gifta sig. Ég hitti rosalega sæta stelpu, sem mér fannst ofsalega falleg eftir mjög skamman tíma spurði ég hana hvort hún vildi ekki giftast mér. Þarna höfðum við þekkst í nokkrar vikur, þetta var ekki yfirveguð ákvörðun. En hún sagði já. Seinna spurði ég hana hvers vegna í ósköpunum hún sagði já við mig og þá svaraði hún að henni hafi bara fundist ég svo sætur. Þetta segir manni hvað við vitum lítið um kvenfólk. En við erum ennþá gift 45 árum síðar.“

Giftur fann Ingibergur fyrir ábyrgðartilfinningu, sem á bættist þegar börnin komu í heiminn. Það átti þó eftir að taka nokkur ár til viðbótar að ná botninum í drykkjunni og horfast í augu við vandann. Hann hafi komist á þann stað að grípa rör til að drekka fjölritunarspritt sem hann hafi misst niður á skítugt gólf. En botninn endaði neðar því eftir að hafa reynt að hætta í kjölfar þess að verða sér til skammar, þá taldi hann sig hafa fundið lausnina. Hann gæti hreinlega drukkið lítið.

„Fæ alveg rosalega hugmynd – kannski í þetta skiptið drekk ég bara lítið og mér fannst ég hálfviti að hafa ekki fengið þessi hugmynd fyrr. Mér hafði aldrei dottið í hug að drekka bara lítið.“

Þannig fór það að Ingibergur drakk það litla áfengi sem til var á heimilinu, ofan í róandi töflur, og skildi svo ung börnin sín eftir ein heima á meðan hann fór út til að kaupa meira. Degi síðar vaknaði hann á Vogi og í dag hefur hann ekki drukkið í 35 ár.

Það sem mestu máli skiptir

En þó tappinn væri kominn í flöskuna þá var sársaukinn á sálinni enn til staðar. Svo edrúmennskan varð engin töfralausn. Það var ekki fyrr en hann fór í sporavinnu og horfðist í augu við sjálfan sig sem hann öðlaðist frið, lausnina sem hann hafði leitað að, lausn frá því að þurfa að drekka. En nú er það næsta verkefni. Ingibergur er með fjórða stigs krabbamein og segir ljóst að hann muni ekki ná sér. Enginn geti sagt til um hversu langan tíma hann hefur, en líklega mun það ekki ná áratug.

„Ég var þarna greindur með þetta og maður fer að hugsa eins og ég sagði, hvað er það sem skiptir máli og hvað ætla ég að gera við tímann sem er eftir. Og fyrsta sem mér datt í hug – kannski tala ég bara við þennan Branson gæja og kaupi mér miða til tunglsins – því ég hef aldrei farið til tunglsins. En að betur könnuðu máli þá er líklega ekkert spennandi að fara til tunglsins. Það er enginn þarna, það er ekkert þarna, skítakuldi og svona. Svo ég hugsa kannski kaupi ég mér omega speedmaster man on the moon úrið sem ég er búinn að hafa augastað á lengi. Ég á eitthvað 30 úr og langar í eitt í viðbót og þetta kostar 8 þúsund evrur og ég splæsi bara í það. En ég á fullt af úrum og langar ekkert í fleiri.

Svo ég ákvað það að leggja meiri áherslu á það sem ég hef verið að rembast við undanfarið að vera meira til friðs heima hjá mér og læra dáleiðslu. Og ég lærði dáleiðslu og er núna klínískur dáleiðandi og hef verið að dáleiða fólk í frístundum mínum. Ég tek það fram að ég er ekki afkastamikill svo það þýðir ekkert að panta tíma hjá mér, gleymdu því bara en svo er það hitt – hvað er það sem skiptir máli? Það sem skiptir máli er ekki það sem þú skilur eftir þig í veraldlegum gæðum. Það sem skiptir máli er það hvernig fólk mun minnast þín þegar hinsti dagur kemur. Það er stóra málið. Þú vilt að fólk hafi góða ímynd að þér og þú vilt hafa alla hjá þér þegar þú ferð – það er það sem skiptir mestu máli.“

Ingibergur segir að til að byrja með hafi hann tekið greiningunni létt. Hann hafi talað um að prenta stuttermabol þar sem á stæði að hann væri með krabbamein og komist þar með upp með allt. Á meðan varð allt fólkið sem elskar hann eðlilega sorgmætt. Sorgin kom síðar hjá Ingiberg. Raunin sé gjarnan sú með karlmenn að þeir beri harm sinn ekki á borð, en þegar kvölda tekur „grátum við í koddann á kvöldin þegar við förum að sofa og segjum engum frá.“

Svo komi að því að fólk verður sátt við sitt hlutskipti, eins og í hans tilviki. Nú sé lítið annað fyrir hann að gera en að vera til friðs og láta sér líða vel með sér og sínum.

Hlusta má á viðtalið við Ingiberg og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar