fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

„Hérna er skórinn. Þeir eru búnir að drepa Bjarna bróður!“  

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 18. desember 2023 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í bókinni Vesturbærinn – Húsin, fólkið sögurnar leiðir Sigurður Helgason okkur um þetta einstaka og söguríka hverfi og gerir mörgu skil. Í kaflanum sem hér fer á eftir og birtur er með leyfi útgefanda verður gripið niður í bókina og staðnæmst við þrjár persónur sem koma þar við sögu.

Bryndís Zoëga taldi innflutt leikföng á engan hátt örva sköpunargáfur barna

Einn þeirra einstaklinga sem settu sterkan svip á líf barna í Vesturbænum var Bryndís Zoëga. Hún fæddist 7. júlí 1917 og voru foreldrar hennar hjónin Geir G. Zoëga vegamálastjóri og Hólmfríður Zoëga húsmóðir. Bryndís og Helga, tvíburasystir hennar, voru elstar sex systkina. Helga lést aðeins 15 ára að aldri. 

Fyrsti starfsvettvangur Bryndísar með börnum var á Vesturborg þar sem hún hóf störf árið 1939 sem forstöðukona. Þá var hún nýkomin frá námi í Kaupmannahöfn. Hún var fyrst manna hér á landi sem hlotið hafði sérstaka menntun með prófi til að starfa við barnaheimili og veita þeim forstöðu.  

Á árunum 1941 til 1950 starfaði Bryndís á ýmsum sumardvalarheimilum og leikskólum í Reykjavík. Haustið 1950 réðst hún til forstöðu við nýjan leikskóla, Drafnarborg við Drafnarstíg, sem tók til starfa 13. október það ár. Þetta var fyrsti leikskóli borgarinnar sem teiknaður var sem barnaheimili og byggður með þarfir ungra barna í huga og þar varð vinnustaður hennar þangað til hún lét af störfum árið 1991. Þá hafði hún starfað með og fyrir börn í Reykjavík í meira en hálfa öld. 

Bryndísar verður ávallt minnst fyrir störf hennar í Drafnarborg þar sem hún starfaði í rúmlega 41 ár. Hún var ávallt trú sannfæringu sinni og þeim uppeldiskenningum sem hún aðhylltist. Hún elti ekki tískusveiflur og hafði ekki trú á að leikskóla ætti að fylla með innfluttum leikföngum, sem örvuðu að mati hennar á engan hátt sköpunargáfur barna. Leiksvæði Drafnarborgar var líka sérstakt. Bryndís vildi t.d. hafa þar sjávarmöl, gamlan bát og alvörubíl fyrir börn að leika sér í. 

Í minningargrein um Bryndísi, sem lést 2. september 2000, segir Bergur Felixson, sem var um langt árabil framkvæmdastjóri yfir leikskólum borgarinnar: „Ég minnist þess þegar Finnur heitinn Árnason garðyrkjumeistari kom eitt sinn á skrifstofuna. Hann hafði haft öll ósköpin fyrir því að skaffa ágætan bílskrokk í Vöku og setja á lóð Drafnarborgar að beiðni Bryndísar.  

„Hann endist nú ekkert,“ sagði Finnur, „ég er að koma frá Drafnarborg og það var hópur af krökkum að hoppa á húddinu á bílnum.“ 

„Nú,“ svaraði ég, „hvar var Bryndís?“ 

„Hún hoppaði hæst,“ sagði Finnur og stundi.“ 

Haraldur Á. Sigurðsson var kunnur af tilsvörum við ýmis tilefni

Segja má að Haraldur hafi brugðið sér í ýmis gervi og ólík á ævi sinni. Hann var liðtækur knattspyrnumarkvörður á yngri árum en síðar var hann allt í senn; gamanleikari, leikstjóri, rithöfundur, verslunarmaður, bóndi, náttúruunnandi og veiðimaður og margt fleira. Það var hið fyrstnefnda sem hann varð hvað þekktastur fyrir enda var hann burðarás í leiklistarlífi landsins í hartnær þrjá áratugi. „Það var dauður maður sem Haraldur gat ekki fengið til að brosa,“ skrifaði Árni Helgason í Stykkishólmi í minningargrein um þennan vin sinn. 

Haraldur var kunnur af tilsvörum sínum við ýmis tækifæri. Hann var hávaxinn maður og skrokkmikill og notaði stundum vaxtarlag sitt til að vekja kátínu í kringum sig, bæði á leiksviði og annars staðar. 

Einn af góðum vinum Haraldar var Páll Jónsson, iðulega kallaður Púlli. Það sem einkenndi hann öðru fremur var bjartsýnin, rólyndið og nægjusemin. Hann var alltaf ánægður og brá aldrei skapi, hafði sennilega ekki andstyggð á vinnu en það stappaði nærri því. Hollasta hreyfingin, sem hann vissi um, var að aka í bíl. Og uppáhaldsrétturinn hans var kjötkássa því að hana mátti borða með annarri hendi og hafa hina á meðan í vasanum. Púlli sagði líka: „Ég held að það sé best að gera ekki neitt og hvíla sig svo vel á eftir.“ Þetta kom líka frá honum: „Sá sem getur ekki sofið til hádegis hefur vonda samvisku.“ 

Þeir Haraldur og Púlli höfðu gaman af því að ráða krossgátur. Sátu þeir oft saman, réðu gáturnar yfir kaffibolla og hjálpuðu þá hvor öðrum við að fylla í eyðurnar.  

Eitt sinn vantaði þá fjögurra stafa orð yfir „matur“ og lauk svo að báðir gáfust upp. Um kvöldið var landsleikur í knattspyrnu milli Íslendinga og Svía á Melavellinum og fóru þeir félagar þangað. Í miðjum leiknum, þegar Íslendingar voru í hörkusókn og nánast allir áhorfendur í uppnámi og hvetjandi landa sína, hnippir Púlli í Harald og segir: „Heyrðu, Haraldur! Það er kæfa!“ 

Bjarni Felixson rifjaði upp skrílslæti á Akureyri

Í félagsblaði KR, sem gefið var út árið 1969 í tilefni af 70 ára afmæli stórveldisins, er viðtal við Bjarna Felixson, sem á sínum tíma hlaut viðurnefnið Rauða ljónið og var hann síður en svo óánægður með það, baráttuglaði vinstri bakvörðurinn. Grípum hér niður í viðtalið:

„Ég hef verið í þessu í rúman áratug og aldrei verið ánægðari með leik minn en þegar liðinu er illa tekið af áhorfendum. Sérstaklega hef ég notið þess, ef þeir hafa tekið mig fyrir, því að það hefur hert mig í baráttunni. Ég hef komist áfram á keppnisskapi og hörku og verið bestur, er við höfum átt í vök að verjast. Maður var orðinn dauðleiður á þessu árið 1959, þegar við unnum öll lið með yfirburðum.  

Einkum er þó margs að minnast frá Akureyri. Árið 1960 höfðu þeir átt lélega byrjun í mótinu, eins og oftar, en áttu eftir heimaleikina síðari hluta sumars. Við áttum að fara norður og þá höfðu þeir unnið Fram fyrir skömmu. Daginn fyrir norðurför okkar var tilkynnt landslið og var „augasteinninn“ [Jón Stefánsson] þeirra utangarðs. Var nokkur ólga nyrðra af þeim sökum og þegar við komum var fullur völlur eins og venjulega. 

Í fyrri hálfleik áttum við varla upphlaup. Akureyringar áttu leikinn og áhorfendur voru allæstir. Snemma í leiknum slapp einn þeirra í gegn en ég næ að renna mér á knöttinn og afstýra hættunni. Varð þá nokkur urgur meðal áhorfenda. Rétt á eftir lendir okkur aftur saman á kantinum og ég næ boltanum eftir návígi og geysist fram völlinn. Ræðst hann þá aftan að mér með þeim árangri að ég hlaut mikið sár á fæti og áminningu frá dómara en forystumaður heimamanna heimtaði að ég yrði rekinn út af. Ég lék þó áfram og barðist „eins og ljón“ og Gísli [Þorkelsson], varamarkvörður, varði meistaralega. 

Eftir hálftíma leik skora Akureyringar, en Þórólfi [Beck] tókst að jafna fyrir hálfleik. Í leikhléi kom héraðslæknirinn, leit á sárið og sagði að það yrði að gera að því, en ég aftók það með öllu. 

Í síðari hálfleik náðum við tökum á leiknum og sigruðum, 5:2. Þá lék ég fjær stúkunni og var þar fyrir hópur 20-30 stráka undir stjórn fyrrgreinds íþróttaleiðtoga norðanmanna. Er ekki að sökum að spyrja, að þegar séð var fyrir um úrslit, hófu þeir grjótkast að okkur.  

Í miðjum hálfleiknum fékk Gísli mikið spark og leist mér þá ekki á blikuna. Meðan menn hugðu að meiðslum hans, tók ég boltann og henti honum á bak við grjóthrúgu við völlinn. Æpti þá lýðurinn: Út af með rauða tuddann! Var mörgum heitt í hamsi og í leikslok ruddust menn inn á völlinn í bræði sinni.  

Ég hafði vart gengið 10 skref, eftir að flautað var af, þegar lögregluþjónar koma til mín og biðja mig að koma eins og skot. Voru þeir komnir að undirlagi héraðslæknisins og óku mér til hans í aðgerð.  

En það er af félögum mínum að segja, að þegar þeir komu í rútuna, sem aka skyldi til búningsklefa annars staðar í bænum, urðu þeir þess varir að mig vantaði. Þeir þustu út á völl og fundur þar annan skóinn minn, sem ég hafði losaði mig við vegna meiðslanna, er leik lauk. Þá mælti Hörður bróðir þessi fleygu orð: „Hérna er skórinn. Þeir eru búnir að drepa Bjarna bróður!““  

Metaðsókn var á leiknum, 3964 áhorfendur mættu til að horfa á ÍBA og KR og urðu einhver blaðaskrif út af þeim skrílslátum sem þarna urðu.  

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinder ekki að gefa? – Kannski Bænder sé málið

Tinder ekki að gefa? – Kannski Bænder sé málið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Haukur Már skipti út frönskum og fékk kvörtun nakinn í World Class – „Ég hef svona semi fengið morðhótanir“

Haukur Már skipti út frönskum og fékk kvörtun nakinn í World Class – „Ég hef svona semi fengið morðhótanir“