fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Nafnið var gjöf að handan – „Ég vissi alltaf að ég væri öðruvísi“

Fókus
Mánudaginn 11. desember 2023 22:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ísvöld Ljósbera Sigríðarbur er miðill, raftónlistarkvár og sjálfmenntað í lífsins grúski. Hán er nýjasti viðmælandi Mumma í Kalda Pottinum. Hán er mögnuð mannvera sem hlustar til dæmis á tónlist, eins og flestir, en finnur þó ólíkt flestum bragð af einstaka tónum og sér þá í litum. Tónar framkalla líka líkamleg viðbrögð hjá hán, sumir tónar kveikja ógleði á meðan aðrir flæða og leiða hán í alsælu.

Nafnið gjöf að handan

Hán gengur í svefni og á til að bregða sér steinsofandi úr húsi en hefur þó ekki lent í svaðilförum vegna þess. Ísvöld hét áður Tanya Pollock en breytti nafninu við upphaf nýs lífskafla, þegar hán fékk loksins orðið til að lýsa kynupplifun sinni. Hán er kynsegin og segir að nýja nafið hafi verið gjöf til háns að handan.

„Þetta nafn var gjöf. Ég kom út sem kynsegin manneskja, þar sem ég skilgreini mig persónulega ekki sem karl eða konu, heldur hvorugkyn. En kynsegin getur verið allskonar. Þegar ég kom út fann ég að þetta var endurfæðing – eitthvað stórt að gerast inni í mér. Mér datt í hug að fá nýtt nafn á sama tíma og ég breytti kyninu í þjóðskrá – það er hægt að velja á Íslandi að vera kynsegin sem er æðislegt. Ég beið með það til að athuga það hvort annað nafn myndi koma til mín. Helst í gengum einhverja vitjun, draum eða eitthvað úr andaheiminum eins og er hefð í mörgum fjölskyldum eins og minni.“

Það átti eftir að taka sinn tíma. Loks kom þó að því þegar hán var að aðstoða móður sína, sem er heilari, við heilun. Maður sem þau heiluðu hafði komist í djúpt heilunarástand en þegar hann sneri til baka hafði hann skilaboð að handan. Án þess að vita nokkuð um hvað bærðist innra með Ísvöld leit hann á hán og sagði að hann hefði fengið að heyra nafn háns – Ísvöld.

„Þetta var mjög falleg stund og þetta var rosalega kröftugt.“

Milli nafnið Ljósbera kom líka að handan, en það var frændi háns sem fékk vitjunina. Ísvöld hafði áhyggjur fyrst að Ljósbera væri of væmið en fékk þá skýringuna að bera stæði fyrir birna, Ljósbjörn. Þá fannst hán nafnið fullkomið.

Svo tók hán upp eftirnafnið Sigríðarbur, en bur stendur fyrir barn og er vinsælt hjá þeim sem skilgreina sit utan kyntvíhyggjunar að velja bur í stað dóttir eða sonur.

Með pylsu í buxunum í leikskóla

Ísvöld greinir frá því að hán hafi aldrei upplifað sig í samræmi við líffræðilegt kyn sitt. Strax í leikskóla hafi hán fengið illt í magann þegar vísað var til háns í kvenkyni.

„Ég vissi alltaf að ég væri öðruvísi en það sem var verið að segja við mig, en ég átti ekki til orð eða samfélag. Frá því að ég var lítil, við þriggjá ára aldur var ég farið að segja – ég er strákur því ég fékk bara illt í magann þegar það var verið að kalla mig stúlku, stelpu, hún. Ég man svo vel því ég mætti í leikskólann með pylsu í buxunum til að sannfæra hina krakkana um það að ég væri strákur í alvörunni. “

Hán kunni illa við að leika sér í mömmó og vera þar úthlutað kvenkyns hlutverki. Hán upplifði þó á sama tíma að orðið strákur væri ekki rétt lýsing á því sem væri innra með hán, en á þessum tíma var orðið kynsegin ekki komið á almannavitund. Hán bendir þó á að hvorukyn hafi í raun verið þekkt í gegnum mannkynssöguna. Kynjatvíhyggjan sé mannana verk og hafi iðulega tengst þörfina að fjölga sér og stofna til hjónabands.

Það er því ekki langt síðan hán kom út úr skápnum sem kynsegin og gat þá loksins tjáð kynvitund sína í orði og á borði. Áður hafði hán þótt óþægilegt að klæða sig upp í fatnað sem hugmyndafræðilega er hugsaður fyrir konur. Þá fannst hán vera í gervi, eða að sýna sig í formi sem væri ekki sannleikanum samkvæmt. Nú þegar hán er hins vegar bæði komið út sem kynsegin og löglega skráð sem slíkt, þá hikar hán ekki við að klæða sig með hverjum þeim hætti sem hán dettur í hug.

Hán kemst svo skemmtilega að orði að áður en hán fékk orðin til að skilgreina sig hafi hán hreinlega ekki upplifað sig sem mannveru.

„Mér fannst að ég ætti ekki heima á jörðinni, ég væri geimvera.“

En nú upplifir hán sig sem hluta af samfélaginu og tilfinningin sem fylgdi því var gífurlegur léttir.

 

Hlusta má á viðtalið við Ísvöld og fyrri þætti á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar