Með samstilltu átaki Almars Guðmundssonar, bæjarstjóra í Garðabæ, og leikskólabarna í bænum voru ljósin á jólatrénu á Garðatorgi tendruð nú rétt eftir hádegið.
Spennan í loftinu var mikil í fallegu veðrinu á fyrsta degi jólamánaðarins þegar börn úr leikskólum bæjarins söfnuðust saman fyrir framan jólatréð, sem árlega er ljósum prýtt fyrir framan bæjarskrifstofurnar á Garðatorgi allan desember og fram á nýtt ár. Hefð er komin á það að börn úr leikskólum bæjarins eru í aðalhlutverki þegar kveikt er á ljósunum á trénu.
Þegar Almar bæjarstjóri fékk börnin í lið með sér og allir lyftu höndum í einu gerðist það – ljósin kviknuðu við mikil fagnaðarlæti á Garðatorgi. Ekki kárnaði gamanið þegar jólasveinar tveir örkuðu inn á torgið, tóku völdin af bæjarstjóranum, og hófu upp raust sína og skemmtu viðstöddum með gamanmálum og söng þangað til pokinn góði var opnaður, með aðstoð bæjarstjóra (fyrrverandi og tilvonandi á þeim tíma að sögn jólasveinanna) og fleira góðs fólks.
Nú er Almar væntanlega aftur tekinn við völdum í Garðabæ, jólasveinarnir að undirbúa heimsóknir til fleiri barna, og óhætt er að segja að jólamánuðurinn byrji vel í Garðabæ.