Djass söngkonan Laufey hefur tilkynnt tónleikaferðalag um Norður Ameríku auk einna tónleika í London í vor. Hún mun syngja í mörgum af frægustu tónleikahöllunum.
Óhætt er að segja að Laufey hafi öðlast heimsfrægð á undraskömmum tíma. Nýja platan hennar Bewitched hefur slegið hlustunarmet í flokki djasstónlistar og á tónlistarveitunni Spotify á hún nú 17 milljónir mánaðarlega hlustendur.
Laufey hefur nú tilkynnt Ameríkutúrinn Bewitched: The Goddess Tour til þess að fylgja plötunni eftir. Hefst hann í borginni Vancouver í Kanada þann 8. apríl næstkomandi og stendur yfir fram á sumar.
Mun Laufey meðal annars koma fram í hinum víðfræga Ryman Auditorium tónleikasal í Nashville í Tennessee. En salurinn er oftast þekktur undir nafninu Grande Ole Opry og er vagga kántrí tónlistar í Bandaríkjunum.
Þá mun hún koma fram í Radio City Music Hall á Manhattan eyju í New Yorkborg sem var eitt sinn stærsta tónleikahús í heimi. Þar hafa margar af stærstu popp og rokkstjörnum heimsins komið fram og salurinn einnig verið notaður undir ýmsa viðburði, svo sem afhendingu Grammy verðlaunanna.
Eftir Ameríkuferðalagið heldur Laufey tónleika í Royal Albert Hall í London þann 16. maí. En það er einn þekktasti tónleika og viðburðastaður borgarinnar.
Þá hefur einnig verið tilkynnt að Laufey komi fram í Los Angeles í Bandaríkjunum þann 7. ágúst, en þar er hún einmitt búsett.