Vinir bandarísku leikkonunnar Jennifer Aniston hafa miklar áhyggjur af henni. Hún er sögð glíma við mikla erfiðleika í kjölfar fráfalls vinar hennar og leikarans Matthew Perry.
Perry lést á heimili sínu þann 28. október. Jarðarförin fór fram á föstudaginn síðastliðinn og mætti Aniston ásamt hinum fjórum vinunum úr Friends; Courteney Cox, Matt Le Blanc, Lisu Kudrow og David Schwimmer.
„Af þeim fimm eru það Jen og Courteney sem eiga erfiðast og Jen er örugglega sú sem á í mestu erfiðleikunum,“ segir heimildarmaður Page Six.
„Hún missti pabba sinn fyrir ári síðan og hún hefur ekki enn jafnað sig á því. Og nú hefur þetta alveg gengið frá henni.“
Faðir Aniston, John Aniston, var þekktur leikari og lék í vinsælu sápuóperunni Days of Our Lives. Hann var 89 ára þegar hann lést í nóvember 2022. Dóttir hans tilkynnti um fráfall hans á sínum tíma og sagði að hann hafi verið „ein fallegasta manneskja í heimi.“
„Hún er að reyna að ná sér á strik en það var hrikalegt áfall [að missa Perry],“ segir heimildarmaðurinn.
Sjá einnig: Vinirnir rjúfa þögnina um fráfall Matthew Perry – „Við erum algjörlega niðurbrotin“