Hellboy berst við Jólaköttinn
Ofurhetjan Hellboy ferðast til Íslands í sérstöku vetrarhefti af sögunni vinsælu. Í sögunni berst hann við engan annan en jólaköttinn.
Hellboy, skapaður af Mike Magnolia, er vinsælasta ofurhetja sem útgáfufyrirtækið Dark Horse Comics hefur skapað. En Dark Horse er það eina sem hefur komist nálægt risunum Marvel og DC Comics þegar kemur að gerð vestrænna teiknimyndasagna.
Fyrsta sagan um Hellboy kom út fyrir þrjátíu árum síðan, í marsmánuði árið 1993. Komið hafa út þrjár bíómyndir og var túlkun leikarans Ron Perlman sérstaklega minnisstæð. Einnig hafa komið út tölvuleikir, borðspil um hetjuna frá helvíti.
Hin nýja teiknimyndasaga ber heitið Hellboy: Krampusnacht, með vísun í austurrísku „grýluna“ Krampus, teiknuð af Matt Smith. Í sögunni ferðast Hellboy til Reykjavíkur og kemst á snoðir um hvarf barna. Þetta reynist mega rekja til jólakattarins.
Í samtali við tölvuleikjamiðilinn IGN segir Smith að það hafi alltaf heillað hann hvað Hellboy er tengdur gömlum þjóðsögnum af ýmsu tagi sem og talandi dýrum.
„Svo er það persóna Hellboy sjálfs, sem er hrjúfur og beinskeyttur eins og bestu persónurnar úr Íslendingasögunum,“ sagði Smith.