fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Kristín missti eiginmanninn eftir 26 ára krabbameinsbaráttu – Unnustinn nú með 4. stigs mein – „Lífið er þessi skóli með plúsum og mínusum“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 4. nóvember 2023 09:00

Kristín Snorradóttir Mynd: Valgarður Gíslason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástríða Kristínar Snorradóttur, markþjálfa með meiru, felst í að hjálpa fólki. Hún segist nokkrum sinnum hafa reynt að breyta um starfsvettvang, en alltaf fundið að ástríðan brennur fyrir að byggja upp fólk sem orðið hefur fyrir áföllum í lífi sínu. Sjálf hefur Kristín fengið sinn skerf af áföllum eða verkefni eins og hún kallar þau sjálf. Hún missti eiginmann sinn haustið 2021, en hann glímdi við krabbamein í 26 ár. Kristín barðist síðan gegn ástinni sem hún fann níu mánuðum seinna, en eftir að hafa leyft sér að elska og vera elskuð, bankaði næsta verkefni upp á, unnustinn er með ristilkrabbamein á fjórða stigi. 

„Ég hef unnið síðustu áratugi við að efla fólk og hef tamið mér að velja stóru verkefnin í lífinu til að þroska mig, það gerir mig að betri manneskju og betri fagaðila. Allt það sem lífið kennir mér, sem er alveg heiftarlega erfitt, þroskar mig og ég fæ víðari skilning og get mætt fólki án fordóma og miklu mildari af því ég þekki þetta á eigin skinni. Í mínu starfi sem ráðgjafi fólks þá verð ég að vera í lagi og vera reiðubúin til að þroska sjálfa mig.“

Kristín Snorradóttir
Mynd: Úr einkasafni

Byrjum á byrjuninni, andláti Baldvins Viggóssonar, eiginmanns Kristínar, og hvernig var að standa ein í tilverunni eftir 30 ára samband. 

„Baldvin var orðinn mjög veikur í kórónuveirufaraldrinum og kúlan okkar undir lokin var orðin pínupínulítil, svona tveggja manna kúla, við hittum ekki einu sinni börnin okkar í átta mánuði. Krabbameinið var komið á 4. stig og Baldvin með krabbamein víða, þannig að hann var mjög viðkvæmur,“ segir Kristín. Undir lokin gerðust hlutirnir hratt og óskað var eftir að Kristín dveldi á krabbameinsdeildinni með Baldvini og það gerði hún síðustu tíu dagana af hans lífi.

„Svo fór hann mjög hratt, andlátið var fallegt, við vorum þarna mæðgurnar, strákarnir náðu ekki inn. Baldvin kvaddi sáttur, það sem er falleg og góð minning, er að þegar hann var að fara þá var ég að strjúka bringuna á honum og leiða hann í yoga nidra. Ég upplifði að það hjálpaði honum og svo kvaddi ég hann með orðunum: „Núna skaltu fara inn í ljósið“, og hann lést. Þetta var fallegt andartak og eftir það erum við mæðgurnar sammála um að það eru ekki til nein endalok, þú kveður þessa jörð og líkama og svo er bara einhver önnur vídd. Allt hjá mér sem hét ótti við dauðann hvarf eftir þessa stund.“

Ferlið við að undirbúa jarðarför tók við með góðri aðstoð vina og vandamanna og ekki síst lögreglunnar, þar sem Baldvin starfaði sem lögreglumaður í 38 ár. „Síðan tók við að fóta sig ein í tilverunni sem var undarlegt og skrítið. Við Baldvin vorum saman í 30 ár og eins og í öllum hjónaböndum gekk allt mögulegt á, en það sem var sterkast er að við vorum svo góðir vinir þannig að auðvitað var ég týnd eftir andlát hans.“

Kristín gaf ljóð Baldvins út í bók eftir andlát hans
Mynd: Úr einkasafni

Vann úr sorginni á níu mánaða jóganámskeiði

Fyrir andlát Baldvins var Kristín búin að skrá sig í jógakennaranám og tók Baldvin loforð af eiginkonu sinni að hún myndi ekki hætta við námið félli hann frá. Kristín mætti því í fyrsta tímann viku eftir andlát hans. Í fyrsta tímanum stóðu nemendurnir, um 30 talsins, saman í hring og átti hver og einn að segja frá sjálfum sér og af hverju hann væri mættur í námið.

„Ég var síðust í röðinni og sagði að ég hefði lofað manninum mínum, sem lést fyrir viku síðan að hætta ekki við að fara í námið. „Þess vegna er ég hérna núna en ég er ekki búin að jarða,“ segir Kristín sem segir að allt hafi dottið í dúnalogn. Hún var þó áður búin að ræða stöðu sína við Auði Bjarnadóttur kennara námsins, sem sagði henni að koma bara í faðm jógafræðanna. 

„Þetta var níu mánaða ferli sem heitir Heim í hjartað og þetta var mín sorgarúrvinnsla og uppbygging. Ég man næstum ekkert hvað gerðist fyrstu helgina og nú ferðu að hlæja, ég lofa, Kristín bráðalæknir var með erindi og eina sem ég man er að hún sagði að allir læknar ættu að fara að skrifa upp á jóga og kynlíf í stað þess að útdeila gleðipillum. Jóga og kynlíf losa jú gleðihormón og við getum öll nýtt meira af þeim. Það er mikið búið að hlæja að því að þetta er eina sem ég man frá helginni.

Ég fór að vinna á dýptina og alltaf undir verndarvæng Auðar, sem er einstök kona. Þetta var frábær hópur sem ég var með í jógakennaranáminu og þar eignaðist ég nýjan fjölskylduarm og ég tók á sama tíma jógaþerapíunám sem var líka sorgarúrvinnsla, þar er maður að losa um tilfinningar og vinna að því að losa gömul áföll, sorgir og annað. Þetta níu mánaða tímabil var stórkostlega erfitt, það var ótrúlega mikið grátið og hlegið og það var líka ótrúlega skemmtilegt. Það sem gerðist í þessu jógakennaranámi og jógaþerapíu er að ég kom heim í hjartað mitt og ég gekk út úr síðasta tímanum með þessa setningu: „Ég ætla að segja já við lífið. Það gerist sem gerist í þessu lífi, ég ætla að taka á móti því og segja já við lífið. Jógafræðin eru svo mikið að vera, samþykkja og leyfa. Og ég gerði það, sagði já við lífið og fór hringferð út á land með námskeiðin mín.“

Kristín og Auður Bjarnadóttir jógakennari og eigandi Jógasetursins
Mynd: Úr einkasafni

Mótorhjólamaður með forljóta Facebookmynd

Í sorgarferlinu og hringferðinni um landið kviknaði gamall draumur hjá Kristínu, í gamla daga átti hún mótorhjól og langaði hana að fara aftur einn rúnt á slíku og var búin að segja nokkrum vinkonum sínum frá þessari löngun sinni.

„Ég var í fyrsta sinn á ævinni ein á ferð um landið og ákvað að ég ætlaði að njóta, upplifa og gera eitthvað úr þessari vinnuferð. Ég fór á netið og bókaði gistingu á stöðum sem ég hafði aldrei farið á áður, svo var ég að keyra norður og hlusta á Fiu, sem er svona spiritual söngkona, jógísk tónlist. Þegar ég keyrði Öxnadalinn skipti ég yfir á útvarpið, og þá kom lag David Bowie, Starman. Baldvin var mikill aðdáandi Bowie og ég átti þarna stund með laginu og upplifði að Baldvin væri hreinlega að koma og minna mig á að ég eigi að njóta lífsins og við munum hittast seinna, þannig að ég fékk svona lokun sem ég kann ekki að útskýra betur. Ég leyfði tárunum að renna, fullviss um að Baldvin væri á góðum stað og ég mætti halda áfram með lífið.“

Mætt á Akureyri fékk Kristín símtal frá vinkonu sinni sem sagðist vera búin að redda mótórhjólarúntinum, maður sem byggi á Akureyri var tilbúinn til að fara með Kristínu. Kristín sagði það alls ekki henta sér, hún væri á leið austur og ekki með galla, en vinkonan sagðist búin að redda gallanum. „Sorrí þetta gengur ekki upp svona, ég þarf meiri fyrirvara.“ Vinkonan sagði manninn kláran í rúntinn viku síðar og bjó til spjall á Facebook með Kristínu og mótorhjólamanninum. 

„Svo heyri ég bara þegar ég er að keyra Möðrudal endalaust ding í símanum, sem pirraði mig, þar sem ég var að njóta mín ein að hlusta á Fiu,“ segir Kristín sem mætt í Möðrudal sá að vinkonan og mótorhjólamaðurinn voru búin að skipuleggja allt hvað varðaði rúntinn.

„Þá fóru að renna tvær grímur á hana Stínu, alein í Möðrudal, ætlaði ég að fara að treysta bara einhverjum Pétri og Páli fyrir lífi mínu aftan á mótorhjóli. Baldvin var 100% hjólamaður, hjólalögga í 30 ár, þannig ég var alveg örugg þar. Svo var bara einhver dúddi, með ömurlega Facebook-mynd í þokkabót að bjóða mér á rúntinn, hann var með hanakamb, fullt af tattúum, ber að ofan. Ég var bara: Hversu miðaldra töffari er þetta?“ segir Kristín og skellihlær við að rifja þetta upp. 

„Síminn hélt áfram að klingja og ég var nýbýin að skrá mig sem ekkju á Facebook og það var einhver annar maður sem byrjaði að tala við mig og ég hélt þetta væri lögreglumaður. Hann var rosalega furðulegur,“ segir Kristín sem segir son sinn hafa bent henni á einfalda staðreynd. „Vertu ekki svona vitlaus mamma, þetta er bara maður að reyna við þig.“ Er það bara löglegt að reyna við ekkjur í gegnum Facebook!“ segir Kristín.

„Ég sagði við soninn að ég væri ekki að fara á Tinder eða svoleiðis drasl, ef ég get ekki kynnst fólki á gamla mátann þá bara kynnist ég engum. Fyrir utan það hafði ég engan áhuga á karlmönnum og var ekkert að spá í slíku,“ segir Kristín.

Forsjónin hélt hins vegar áfram að raða upp tilvikum fyrir hjólarúntinn.  Komin í Skriðdal gisti Kristín hjá vinahjónum og morguninn eftir spáði konan í bolla fyrir Kristínu. „Það er ekkert í þessum bolla nema það eru kaflaskil.“ Önnur vinkona hennar spáði einnig í Tarotspil fyrir Kristínu. „Já þetta er merkilegt, það er karlmaður í þessum spilum sem er tilfinningalega tengdur þér og það núna.“ Kristín taldi alveg víst að þetta væri sonur hennar sem væri tilfinningatengdur henni, enda ekki á höttunum eftir karlmanni.

Kristín taldi sig hafa leigt hótelherbergi á Móður jörð fyrir austan, en komst að því að um var að ræða 15 fermetra kofa inni í skógi. „Litla villibarnið ég var alveg að elska þetta, ein í litlum kofa í skóginum eins og lítil indíánastelpa og ég í jógablissi, og ég sendi þessum miðaldra mótorhjólamanni vinabeiðni á Facebook til að athuga hvort að væri nú í lagi með hann, miðað við forsíðumyndina þá bara varð ég að athuga málið.“ 

Þau byrjuðu síðan að spjalla og þakkaði Kristín honum mjög formlega fyrir að vilja aðstoða við að láta draum hennar rætast. „Við erum bæði með svartan húmor og það er það sem lífið kennir manni þegar maður þarf að takast á við mörg erfið verkefni að húmorinn kemur manni í gegnum verkefnin. Svo allt í einu hringdi síminn á Facetime og það var hann og ég horfði á þessa ömurlegu forsíðumynd, ein í kofanum í skóginum, og hugsaði að það gæti hver sem er komið og drepið mig. Hann vissi að ég var ein með símann í höndunum og ég svaraði frekar skelfd. Þá sagði helvítis fíflið við mig: „Ég nennti ekki að putta þig lengur.“ Og ég sprakk úr hlátri.“

Villibarnið hún Stína í hjólatúr í Grindavík
Mynd: Úr einkasafni

Hvenær má elska að nýju?

Til að gera langa sögu stutta fóru þau síðan saman í hjólatúrinn mánudeginum á eftir og smullu svona vel saman. „Ég varð eins og 15 ára stelpa. Þegar maður er búinn að vera 30 ár í sambandi og makinn deyr og svo verður maður skotinn, þá líður manni eins og maður sé að halda framhjá og ég fór öll í flækju, mér fannst ég vera að gera eitthvað rangt, enda bara níu mánuðir síðan Baldvin lést,“ segir Kristín.

Á meðan að hún var að reyna að afneita tilfinningum sínum var mótorhjólamaðurinn með ömurlegu prófílmyndina, sem heitir Sigurvin Samúelsson á fæðingarvottorðinu, í þjóðskrá og á öðrum skráningarstöðum orðinn yfir sig ástfanginn af Kristínu. „Og ég að halda öllum tilfinningum frá, ég ætlaði ekki að verða kærasta, heldur mesta lagi vinkona með fríðindum. Ég var bara öll í flækju og ég held að þessi hugsun sé mjög algeng hjá ekkjum og ekklum.“

Kristín segir togstreituna yfir nýrri ást bæði hafa verið innra með henni og út á við, hvenær er það félagslega samþykkt að fara í nýtt samband eftir að hafa missa maka. Hún hafi einnig verið að hugsa um börnin sín þrjú og barnabarn sitt og hvernig þau myndu taka nýju sambandi. Ræddi hún meðal annars við prest og systur sína, og segist hún hafa mætt góðum skilningi hjá þeim sem hún ræddi við og henni bent á að ekkert sorgarferli sé eins.

„Mitt sorgarferli hófst löngu áður en Baldvin dó af því hann var svo langt leiddur svo lengi. Það hjálpaði mér í ferlinu, ég vissi fjórum árum áður en hann lést að ég myndi lifa hann. Ég vissi líka að ég var búin að heiðra minningu hans með að gefa ljóðabókina hans út eftir andlát hans. En þetta voru samt innri átök. Ég var svo lánsöm að kynnast stórum miklum mótorhjólamanni sem lítur ekki út fyrir að vera kærleiksbjörn meira eins og síkópati og hann mætir mér svo vel. Hann sagði mjög heiðarlega að hann bæri virðingu fyrir mér og minni stöðu, hann hefði aldrei verið með ekkju áður og kynni það ekki. Hann vandaði sig mjög mikið og gerir enn,“ segir Kristín sem reyndi að fóta sig í þessum aðstæðum. Hún ákvað að fara ekki með Sigurvin á opinbera viðburði til að opinbera ekki samband þeirra, sem var þó enn ekki orðið samband.

„Það var gaman og mér leið vel, algjörlega í núinu, lífið að segja já og ég tók á móti því. Nema það að ég var alltaf í þessari innri togstreitu, en svo er ég eins og ég er og hef alltaf verið, ég er ekki eins og fólk er flest það er alltaf þessi litla villikerling og eina nóttina dreymdi mig Baldvin. Hann kom til mín, tók utan um mig, brosti breitt og rétti mér stóran gullpening með tölunni 1918 og sagði mér að njóta lífsins. Talan stendur fyrir mótorhjólaklúbbinn sem þessi maður er í sem ég var orðin ástfangin af. Ég vaknaði frá þessum draumi fullviss í hjarta mínu að allt sé eins og það á að vera, ég er ekki að halda framhjá og ég má taka á móti ástinni. Ég segi Sigurvin frá draumnum og samþykki að vera kærastan hans, segi börnunum mínum frá og fékk mismunandi viðbrögð, en ekki slæm, þau þurftu bara sinn tíma til að meðtaka þetta,“ segir Kristín.

Parið fór síðan saman á fjölskylduviðburð klúbbsins sem Sigurvin er í þar sem Kristín hitti félaga hans og fjölskyldur. „Þar eignaðist ég enn einn fjölskylduvæng því mótorhjólaklúbburinn er mjög þéttur og mikið bræðralag í hjólaheiminum.

Lífið er stutt, ef Baldvin og gangan með honum kenndi mér eitthvað þá er það að lífið er ekki sjálfgefið, við eigum að þakka fyrir hvern dag og leyfa okkur að njóta, treysta lífinu og vera. Þarna uppgötvaði ég ástina að nýju, leyfi mér að elska og vera elskuð sem hefur verið magnað ferli fyrir okkur bæði. Til að lýsa þessum manni með þessa prófílmynd, sem hann hefur sem betur fer skipt um, hann er dásamleg persóna, stígur varlega til jarðar gagnvart börnunum mínum og leyfir þeim að koma á sínum tíma, og er alltaf að taka tillit til mín.“

Sigurvin á einnig börn frá fyrra sambandi og segir Kristín dýrmætt hvernig náðst hafi  að lenda vel saman, hann með hennar börnum og barnabarni og hún með tveimur dætrum hans og barnabörnum. „Hann spurði börnin mín hvort hann mætti setja mynd af pabba þeirra á lögreglumótorhjóli inn í skáp með safni sem hann á af litlum mótorhjólum, til að heiðra minningu Baldvins. Þau samþykktu það öll. Hann Sigurvin minn ber svo mikla virðingu fyrir að við börnin eigum þetta líf áður og hann er ofboðslega góður við okkur öll,“ segir Kristín.

„Ég er að upplifa ástarævintýri sem miðaldra kona og það hefur verið ákaflega skemmtilegt og ég held bara að það sé mjög mikilvægt að ekkjur og ekklar viti það að það er allt í lagi að verða ástfangin aftur, þú ert ekki að gera neitt rangt, það er í lagi að fanga bara lífið. Minningarnar eru alltaf til en þú þarft að halda áfram að skapa nýjar. Ég er sannfærð um að hann Baldvin minn hefði ekki viljað að ég klæddi mig í svartan búning og hætti að lifa. Lífið heldur áfram.“

Stuðboltinn hún Stína
Mynd: Úr einkasafni

Ný heimkynni og nýtt verkefni

Kristín tók þá ákvörðun að flytja norður til Akureyrar, ekki út af Sigurvin, heldur af því að bróðir hennar spurði af hverju hún nýtti ekki tækifærið til að flytja út á land, hún væri náttúrubarn og þrifist ekki í borginni. Kristín leigði sér íbúð og hringdi í kærastann og sagði honum fréttirnar. „Þetta hefur ekkert með þig að gera. Ég ætla að flytja norður af því ég get það, ódýrari leiga, nær náttúrunni og mig hefur langað að prófa að flytja út á land.“

Kærastanum brá við og þurfti aðeins að lenda með þessa hvatvísu ákvörðun, hann stakk síðan upp á að þau myndu prófa að búa saman, og Kristín svaraði að ef sambúðin gengi ekki upp þá yrði hann að flytja út. „Sambúðin hefur gengið ótrúlega vel. Ég er sannfærð um að við vorum saman í öðru lífi og nú heldur fólk að ég sé klikkuð en mér er alveg sama. Við náum vel saman, berum virðingu fyrir hvort öðru, tölum saman, rífumst aldrei og ef eitthvað kemur upp þá setjumst við niður með kaffibolla og leysum málin. Svo erum við bæði orðin eldri en 50 ára þannig að allt drama er búið,“ segir Kristín þegar ársreynsla er komin á sambúðina.

Líf ertu að grínast?

Lífið er oft ekkert grín og þegar Kristín og Sigurvin voru búin að hreiðra vel um sig saman á nýju heimili ákvað lífið að færa þeim nýtt verkefni að vinna við. 

„Alheimurinn fékk þessa rosalega sniðugu hugmynd í nóvember, Sigurvin var búinn að vera veikur með magakrampa og ég búin að láta sækja hann tvisvar með sjúkrabíl og hann sendur heim með verkjatöflur. Hann mætti síðan í myndgreiningu og var sendur heim með þær upplýsingar að hann væri líklega með nóró enda mikið af því í gangi. Það endaði með að ég tók bara þennan mann sem er 185 sm undir handlegginn eins og lítið barn og fór með hann á síðdegisvaktina þar sem hann var skráður í myndatöku og fleira, og ferli fór í gang. Hann fór í aðgerð og þeir þeir héldu að þetta væri Crohn’s, sem er svæðisgarnabólga. Í mars var hann greindur með ristilkrabbamein á 4. stigi.“ 

Kristín segir unnustann hafa barist við magakrampa síðan árið 2009 og farið í alls konar rannsóknir en einhverra hluta vegna aldrei verið sendur í ristilspeglun. „Þetta var kjaftshögg fyrir hann, en hann hafði meiri áhyggjur af mér en sjálfum sér. Að þurfa að segja mér, ekkjunni sem bjó með manni sem var með krabbamein í 26 ár, að kærastinn hennar væri líka með krabbamein. Þegar ég kom heim komu orð Prins Póló í huga mér: „Líf ertu að grínast? Hvað meinar þú með þessu, hvað í helvítinu á ég eftir að læra meira?“

Kristín segir að henni hafi liðið eins og hún væri í fáránlegri amerískri b-mynd. Hún segir sig svo lánsama að góður vinskapur er með henni og Auði jógakennara, sem hún leitaði enn á ný ráða hjá. Auður sagði henni að framundan væri vikuferð á Ítalíu en þar var Auður með kvennaferð og sagði Kristínu að skella sér með. „Ég er nýbúin að lenda í fjarhagslegu áfalli, það gerist allt á sama tíma, ég bara hef ekki efni á því,“ svaraði Kristín, en Auður gaf henni sinn hluta og sagði henni að láta jógafaðminn grípa hana, eins og hann hefði alltaf gert.

„Ég fór í úrvinnslu á áfallinu í þessari viku og fann aftur hvað jógafræðin eru ótrúlega mögnuð, þessi aldagömlu fræði, þau ná að grípa mig og faðmurinn hennar Auðar er svo magnaður. Á þessari viku náði ég að næra mig andlega og líkamlega og sætta mig við að vera aftur í þessum aðstæðum. Sigurvin var byrjaður í lyfjagjöf og ég kom heim, hlaðin orku og við fórum í gegnum þetta saman. Í sumar var hann settur í lyfjafrí af því hann var kanditat í risastóra aðgerð og við áttum dásamlegt sumar.“

Parið tók ákvörðun um að nýta sumarið vel í lyfjafríi Sigurvins. Eftir retreat á Corfu sumarið 2022 tók Kristín ákvörðun um að mæta þangað árlega og parið fór því saman þangað í sumar. „Ég var á retreatinu og hann að leika sér á meðan, við áttum geggjaðan tíma. Það voru bara konur á retreatinu og hann fékk að vera ein af stelpunum eða eins og hann sagði sjálfur, ljótasta stúlkan. Þaðan fórum við til Danmerkur til vinkonu minnar og svo til Þýskalands og áttum bara briljant sumar.“

Kristín og Sigurvin á Corfu sumarið 2022
Mynd: Úr einkasafni

Opnaður í aðgerð og lokað aftur

Sigurvin fór í rannsóknir og framundan var aðgerð í Svíþjóð, sérhæfð og stór aðgerð sem gat veitt lækningu. Parið fór þangað í október, mjög vongóð að sögn Kristínar. „Nema það að þegar hann var opnaður þá sáu þeir að það er mun meiri krabbi og í smágirnunum þannig að þeir lokuðu bara aftur. Þarna kom risahögg hjá okkur báðum, ég var svo lánsöm að ég er með mitt bakland sem er með svarta beltið í að vera baklandið mitt, en þetta var erfiður tími. Hann einn á sjúkrahúsinu og ég ein á hótelinu. Þarna spurði ég aftur: Ok Líf ertu að grínast? Hvað núna, er ég að fara í þennan pakka aftur,“ segir Kristín sem leitaði enn og aftur til Auðar, sem sagði einhverja ástæðu fyrir að Kristínu væri treyst fyrir þessu verkefni. Kristín segir jógafræðin einmitt ganga út á að horfa á erfiðu verkefnin og jákvæðu póstana með því hugarfari að allt sé gjöf.

„Svo flugum við heim eins og forsetar með sjúkraflugi, með flugfreyju, tvo flugmenn og sjúkraliðsmann. Sigurvin var lagður inn á Landspítalann og byrjaði í nýrri meðferð um miðjan október til að halda meinunum niðri og við vitum í raun ekki hvað það þýðir, það er hægt að halda meininu í skefjum og lifa ágætu lífi. 

Í þessu stutta sambandi höfum við lært að lifa bara einn dag í einu, ekki það ég hef kunnað það í mörg ár, njóta lífsins núna, ekki bíða. Staðreyndin er sú að við vitum ekkert hvað við lifum lengi, hvort sem við erum með krabbamein eða ekki, ég get dáið á morgun og Sigurvin lifað í 20 ár. Þetta er spurningin um að leyfa lífinu að gerast og það gerist alveg óháð því hvort það er hamingjuatburður eða eitthvað verkefni sem þú þarft að tækla. Og sama hvernig verkefnið er og hversu ósanngjarnt þér þykir það þá er það alltaf í manns eigin valdi að velja hvernig maður ætlar að nýta verkefnið. Ætla ég að nýta það til að þroskast eða ætla ég að leggja árar í bát og gefast upp.“

Lífið er skóli með misskemmtilegum fögum

Mörgum kann að þykja hugarfar Kristínar til erfiðra áfalla mjög jákvætt og ligeglad eins og daninn segir, en Krístin hefur í áratugi unnið við að leiðbeina fólki með sama hætti og hún leiðbeinir sjálfri sér í gegnum lífið. 

„Lífið er þessi skóli með plúsum og mínusum, það eru skemmtileg og leiðinleg fög, en við stjórnum alltaf hugarfarinu ef við kjósum það. Alveg sama hvað aðstæðurnar eru erfiðar þá erum við með stjórn á toppstykkinu og getum valið hvort við ætlum að sjá allt það slæma, fara í fórnarlambshlutverk og velta okkur upp úr þessu og hinu. Ég er ekki að tala um að megi ekki finna tilfinningar sínar, það er heilbrigt að finna sársauka, verða reiður og upplifa allar tilfinningar en í enda dags ræð ég hvað ég geri við þau verkefni sem lífið gefur mér. Í öllum verkefnum sem eru erfið er fólginn ákveðinn fjársjóður til að þroskast. Þess vegna finnst mér mikilvægt að kenna fólki að vera í núinu, það er erfitt að vera í fortíð og framtíð, við eigum bara þetta eina nú og þegar erfiðleikar hellast yfir okkur þá er núið mikið meira en nóg af því núið getur verið ógeðslega vont. Þá er mikilvægt að vera bara þar af því við ráðum ekki við meira.“

Kristín segist alltaf byrja á að athuga hvort grunnþættir séu í lagi hjá viðkomandi einstaklingi sem leitar til hennar: mataræði, svefn, félagslegi þátturinn,, hreyfing og slökun. „Þessir þættir þurfa að vera í lagi svo þú getir búið til jafnvægi í lífinu og staðið föstum fótum.“

Kristín og Sigurvin á Corfu sumarið 2022
Mynd: Úr einkasafni

Bjó til námskeið eftir að blaðamaður hafði samband

Upphafið að vinnu Kristínar með einstaklinga sem markþjálfi, ráðgjafi og jógakennari má rekja til þess að hún ákvað að læra þroskaþjálfann eftir að hafa unnið á Skálatúnsheimilinu með fötluðum einstaklingum. „Ég gerði nefnilega þá uppgötvun að fatlaðir eru ekki allir eins. Á þessum tíma var sonur minn virkur fíkill og í náminu var ég að velta því fyrir mér að menntun þroskaþjálfa á erindi við þessa krakka sem eru með ADHD og annað slíkt og fara í neyslu og aðra áhættuhegðun, og þar var ég fyrst og síðast að horfa á eigið barn. Ég fann að þroskaþjálfinn og þessi hópur passaði saman og skrifaði lokaritgerð um sjálfsmynd ADHD einstaklinga með tengsl við áhættuhegðun og vímuefnaneyslu og hlutverk þroskaþjálfa,“ segir Kristín.

„Ég fór í námið seint á lífsleiðinni og þegar ég útskrifaðist þá var ég búin að vinna hjá Vímulausri æsku með sjálfstyrkingarnámskeið og við útskriftina var framkvæmdastjórinn mættur, óskaði mér til hamingju og bauð mér 100% starf. Ég er á réttri hillu í ráðgjöfinni enda búin að vinna mikið með sjálfa mig bæði hjá fagaðilum og í 12 spora samtökum. Þegar ég byrjaði fór ég svolítið hrædd inn í fyrstu viðtölin og hópana, en þegar maður finnur sína hillu þá er maður bara á réttum stað. Ég gat mætt foreldrum á annan hátt en þeir sem höfðu ekki þessa reynslu. Ég segi að fagmenntun og reynsla saman er stórkostleg fyrirbæri, það er ekki nóg að hafa bara reynsluna, það verður að hafa fagmenntun líka,“ segir Kristín.

Hún segist nokkrum sinnum hafa reynt að hætta í ráðgjafavinnunni en alltaf farið til baka.

„Eftir að þú hafðir samband við mig með viðtal þá settist ég niður og fór yfir hvað ég hefði merkilegt að segja og úr varð heilt námskeið sem ég er að fara að prufukeyra. Það er byggt á jógafræðunum, nidra og fyrirlestrum um streitu og hvernig getum við aukið velsæld í lífi okkar. Ég hef komist að því að tilgangur minn er að efla sjálfa mig og aðra. Ég trúi því að ég eigi að hjálpa fólki. Ég er búin að reyna að hætta því og sem dæmi má nefna að ég sótti um starf í sumar á öðrum vettvangi, sem mér var boðið, og ætlaði bara að vera með öruggt starf og tekjur eftir þetta fjárhagslega áfall sem ég nefndi áðan. Tveimur dögum áður en ég átti að mæta í viðtalið þá fékk ég símtal frá Aflinu á Akureyri sem vildu fá mig í starf sem ráðgjafi með mína þekkingu og reynslu. Og ég finn bara í hjarta mínu að hjarta mitt brennur í ráðgjafastarfinu.“

Aflið er fyrir þolendur ofbeldis og þjónar öllu landinu, ofbeldi á sér ýmsar myndir og er því miður  oft dulið.

Hvað er mest gefandi við starfið?

„Að sjá fólk eflast, ég fæ oft fólk sem er mjög brotið með mörg áföll að baki, búið að ganga í gegnum ýmislegt, fólk í öllum stéttum og af öllum stigum, fólk með fötlun og ekki. Aðallaunin mín eru að sjá fólk rísa, ég sé að fólk réttir úr sér, blikið í augunum, það fær trúna á eigið sjálf. Ég sé fólk byrja að vera gott við sjálft sig. Þetta er það sem keyrir mig áfram, ég elska að sjá fólk vaxa, það er það besta sem ég veit. Ég myndi allan daginn gera það sem ég geri frítt ef ég þyrfti ekki að greiða reikninga og annað, ekki er ég í þessu starfi til að verða rík af peningum, ég verð bara rík af öðru í starfinu. Þetta er ástríðan mín og ég er svo lánsöm að vinnan er mín ástríða og mér finnst ég aldrei mæta í vinnuna.“ 

Kærustuparið Sigurvin og Stína
Mynd: Úr einkasafni

Kom aldrei upp sú hugsun hjá ykkur Sigurvin að segja þig frá verkefninu sem þið glímið við saman?

„Jú hún kom upp hjá Sigurvin, hann upplifði að hann væri að leggja eitthvað hræðilegt á mig. Hvort hann ætti ekki bara að losa mig úr þessu. Hugsunin kom ekki upp hjá mér, en ég fór alveg í gegnum tímabil þar sem ég vissi ekki hvernig ég átti að fóta mig í þessu. Það sem styrkir okkur mikið er að hann er svo fús til að vinna með sig. Við tókum þá ákvörðun eftir fyrsta viðtalið við krabbameinslækninn að við ætluðum að gera allt sem við gætum til að halda í að vera kærustupar og fórum strax í sálgæslu hjá presti,“ segir Kristín og vísar þar til þess að þau eru kærustupar, ekki sjúklingur og umönnunaraðili hans. 

„Í stað þess að vera hann sem sjúklingur og ég með alla mína þekkingu á krabbameini og fyrrum maki krabbameinsgreinds manns þá ætlum að halda kærustuparinu gangandi og okkur hefur tekist það mjög vel þó ég segi sjálf frá. Ég þarf stundum að bíta í hnúana á mér af því ég á til að draga fram sérþekkingu mína en svo erum við bara svo lánsöm með hvort annað að við ræðum alla hluti. Núna vakna alls konar spurningar hjá honum og við ræðum það allt, sem er ómetanlegt,“ segir Kristín.

Hún rifjar upp og segist hafa fengið velgju til að byrja með þegar fólk sagði í kjölfar greiningar Sigurvins að þarna væri komin ástæðan fyrir að leiðir þeirra lágu saman í upphafi.

„Það er ástæða fyrir að þið hittust, hann fær ekki betri manneskju með sér“, sögðu margir, en ég er farin að standa sjálfa mig að því í dag að þetta sé mitt hlutverk. Ég er ekki umönnunaraðili hans, en hann fær ekki sterkari kanditat með sér, af því ég er ekki að detta í meðvirkni með honum, vorkenna honum og hvetja hann til að hvíla sig. Ég hvet hann til að halda áfram að lifa og njóta. Hann veifar ekki krabbameinsspilinu það er bara ekki í boði, ef við ætlum að veifa svona kortum af því það er eitthvað að í lífi okkar, þá þurfum við að fara að skoða eigin gang. Það var erfitt að segja börnunum mínum þetta af því ég var aftur að færa þeim ömurlegar fréttir, en ég er svo stolt af þeim. Þeirra viðbrögð voru bara að styðja Sigurvin í ferlinu. Við kunnum þetta, við erum fjölskylda og fjölskyldur ganga veginn saman.“

Þrátt fyrir að Sigurvin hafi fengið sína greiningu loksins og sé nú í meðferð heldur „skólagangan“ áfram með öllum sínum verkefnum að sögn Kristínar:

„Krabbameinslyfin ullu tveimur vægum hjartaáföllum hjá Sigurvin nú í október og er því endurskoðun á lyfjameðferð í gangi hjá honum. Lífið toppaði sig síðan þegar leigusalinn lét okkur vita að hann ætlaði að segja upp leigunni þar sem hann ætlar að selja eignina. Nú tekur því við tvöföld óvissa við að hefja nýja lyfjagjöf og hvort við finnum öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði eins erfiður og leigumarkaðurinn er í dag.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“