fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
Fókus

Elenóra er fyrsta konan til að vera útnefnd erfingi spænsku krúnunnar í 190 ár

Fókus
Laugardaginn 4. nóvember 2023 13:00

Elenóra prinsessa og ríkisarfi, Filippus konungur Spánar og Pedro Sanchez forsætisráðherra 31.október 2023/ Mynd-Wikimedia-Spænska forsætisráðuneytið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 31. október síðastliðinn varð Elenóra (sp. Leonor) prinsessa af Spáni 18 ára gömul. Á afmælisdaginn sinn sór hún eið að stjórnarskránni í sérstakri athöfn í spænska þinghúsinu. Með athöfninni var Elenóra formlega útnefnd sem erfingi spænsku krúnunnar. Lagalega séð getur hún því tekið við krúnunni hvenær sem er af föður sínum Filippusi (sp. Felipe) VI konungi Spánar.

Spænska ríkisútvarpið, RTVE, fjallaði af því tilefni um Elenóru, athöfnina og stöðu spænska konungsdæmisins. Þar kemur fram að hún verður fyrsta konan sem mun erfa spænsku krúnuna síðan Ísabella prinsessa, sem varð síðar Ísabella II drottning, var útnefnd formlega árið 1837.

Elenóra verður hins vegar fyrsta konan til að taka við krúnunni síðan Spánn varð lýðræðisríki. Þegar að því kemur að hún taki við mun hún bera sams konar herforingjatitil (sp. capitana general) og faðir hennar en þegar Elenóra verður drottning og þar með þjóðhöfðingi Spánar mun hún, formlega séð, verða æðsti yfirmaður spænska hersins. Hún hefur þegar hafið undirbúning fyrir það hlutverk en hún stundar nám í herskóla.

Í ræðu við athöfnina kallaði Filippus eftir því Elenóra myndi standa sig það vel að Spánverjar af hennar kynslóð myndu horfa til hennar. Hann hvatti dóttur sína til að nýta sér hvern dag til að læra meira um sögu og fjölbreytileika Spánar. Hann áréttaði að hún yrði ekki ein á vegferð sinni.

Í athöfninni sór Elenóra þess eið að fara eftir stjórnarskránni og að sjá til þess að staðinn yrði vörður um hana.

Heitir Spáni trúmennsku og tryggð

Í umfjöllun RTVE segir að prinsessan hafi lifað nokkuð vernduðu lífi þar til hún varð 12 ára en þá fór með markvissum hætti að bera meira á henni. Hún flutti fyrstu ræðu sína þegar hún var 13 ára en við það tækifæri sagði hún að staða hennar sem erfingi krúnunnar legði henni þær skyldur á herðar að þjóna Spáni og öllum Spánverjum.

Hún hefur stundað sams konar nám og faðir hennar gerði, meðal annars alþjóðlegt nám í UWC Atlantic College í Wales en þegar hún útskrifaðist þaðan sagði kennari hennar að hann og fleiri í skólanum myndu sakna húmors prinsessunnar.

Eftir að athöfninni í þinghúsinu lauk á þriðjudag var haldið í konungshöllina í Madrid og önnur athöfn haldin þar. Prinsessan flutti aðra ræðu þar sem hún sagði að það væri ekkert sem fyllti hana meira stolti en að þjóna spænsku þjóðinni af virðingu og tryggð. Hún óskaði eftir trausti frá þjóðinni á sama hátt og hún treysti á framtíð Spánar. Hún sagðist með eið sínum hafi tekið á sig mikla ábyrgð gagnvart þjóð sinni sem hún vonaðist til að axla með mestu mögulegu virðingu.

Elenóra hét því að ganga fram með þeim hætti sem þjóðin væri ánægð með og að hún muni gefa sig alla í að sinna skyldum sínum. Hún sagðist myndu fylgja stjórnarskránni og líta til hennar sem leiðarvísis og þjóna Spáni auðmjúk.

Við athöfnina klæddist Elenóra stílhreinum hvítum jakka og hvítum buxum. Hún er sögð hafa valið einfaldan klæðnað til að leggja meiri áherslu á eiðstafinn að stjórnarskránni og að sem minnst athygli yrði á klæðnaði hennar.

Prófessor í listasögu segir hvíta litinn vísa til hreinleika en þó einna helst réttinda kvenna en hvítur var mikið notaður af konum sem börðust fyrir kosningarétti kvenna í byrjun 20. aldar.

Breyttir tímar og aukin mótspyrna

Spænska þingið eins og það er í dag og Elenóra sór eið sinn fyrir síðastliðinn þriðjudag er breytt frá því að Filippus sór þennan sama eið um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Hlutfall kvenna á þingi er mun hærra í dag en þá og í dag er um helmingur ráðherra í ríkisstjórninni konur en þegar Filippus sór eiðinn var engin kona ráðherra.

Þrátt fyrir þetta stendur sú grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um að karlmenn skuli ganga konum framar í erfðaröðinni að spænsku krúnunni óbreytt. Eina ástæðan fyrir því að Elenóra mun erfa krúnuna er að Filippus faðir hennar á engan son.

Núgildandi stjórnarskrá var komið á 1978. María Terese Revilla var eina konan sem kom að því ferli. Hún vildi ekki að slík grein stæði í stjórnarskránni og vildi að erfðarétturinn væri jafn milli kvenna og karla. Hún segist hins vegar hafa verið neydd til að gefa þessa kröfu eftir. Aftur á móti var sett ákvæði í stjórnarskránna um jafnræði milli kynja sem hafði þau áhrif meðal annars að á næstu árum voru skilnaðir og þungunarrof gerð lögleg.

Í athöfninni á þriðjudag í þinghúsinu voru þingmenn 5 flokka fjarverandi og einnig hluti þingmanna hins vinstri sinnaða Sumar flokks sem mun sitja í ríkisstjórn sem samkomulag hefur náðst um að mynda, í kjölfar síðustu þingkosninga. Nokkrir ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr voru fjarverandi í athöfninni.

Ráðherra jafnréttismála, Irene Montero sem var ekki viðstödd, gagnrýndi athöfnina og sagði hana einkennast af tilraunum til að veita spænska konungdæminu feminíska andlitslyftingu. Hún sagði konungdæmið mjög ólýðræðislega stofnun og það væri ekkert meira andstætt því en femínismi og lýðræði.

Pedro Sanchez forsætisráðherra hét Elenóru hins vegar tryggð og virðingu af hálfu ríkisstjórnarinnar og hrósaði henni fyrir að hafa með eið sínum gefið stjórnarskránni sterkari framtíð.

Francina Armengol forseti fulltrúadeildar þingsins sagði við athöfnina að prinsessan væri verðugur fulltrúi nútímalegs lands sem væri opið fyrir heiminum og að hún væri holdgervingur spænskrar æsku sem hefði mikið fram að færa í þeim áskorunum sem samfélagið stæði frammi fyrir eins og til dæmis kynbundnu ofbeldi og félagslegu ójafnræði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Ævintýralegt drama í Hollywood – Kærurnar ganga á víxl með ásökunum um ófrægingarherferð og óboðlega framkomu

Ævintýralegt drama í Hollywood – Kærurnar ganga á víxl með ásökunum um ófrægingarherferð og óboðlega framkomu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ellý um hvernig næsta ár verður hjá Þórði Snæ – „Honum á eftir að ganga vel“

Ellý um hvernig næsta ár verður hjá Þórði Snæ – „Honum á eftir að ganga vel“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Íslenskt par í „eyðsluafvötnun“ í janúar – Fjárhagurinn betri og kynlífið reglulegra

Íslenskt par í „eyðsluafvötnun“ í janúar – Fjárhagurinn betri og kynlífið reglulegra
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ellý spáir í spilin: „Þau eru bæði sterk og hugrökk og það er ekkert annað í boði en að halda áfram“

Ellý spáir í spilin: „Þau eru bæði sterk og hugrökk og það er ekkert annað í boði en að halda áfram“